Getur áskorun sextíumenninganna (60 skora á 60) fyrir hálfri öld útskýrt hvers vegna margir fjölmiðlar eru leyfðir í landinu en ekki nema einn gjaldmiðill?
Það er sérstaklega tekið fram í inngangi áskorunninni að þeir sem „undir skjalið rituðu, [hafi gert] það sem einstaklingar, en ekki í embættisnafni né fyrir hönd stofnana þeirra eða samtaka, sem þeir starfa fyrir.“ Engu að síður er vandlega haldið til haga hvaða starfstitill hver og einn ber.
Út frá starfstitlum hópsins eru áhyggjur sumra í hópnum af erlendum áhrifum á íslenska menningu skiljanlegar. Margir höfðu eflaust raunverulegar áhyggjur (en ástæðulausar eins og nú er komið í ljós) af menningarlegu sjálfstæði hins unga lýðveldis. Brynjólfur Jóhannesson og Haraldur Björnsson leikarar og Guðlaugur Rósinkranz og Sveinn Einarsson leikhússtjórar höfðu augljósra hagsmuna að gæta. Skáldin og rithöfundarnir Guðmundur Daníelsson, Guðmundur Hagalín, Gunnar Gunnarsson, Halldór Laxness, Indriði G. Þorsteinsson, Kristján Karlsson, Sigurður A. Magnússon, Stefán Júlíusson og Tómas Guðmundsson störfuðu allir við miðilinn sem bókfellið er. Ragnar Jónsson bókaútgefandi og Gunnar Einarsson formaður bóksalafélags Íslands sýndu fádæma dómgreindarleysi að ljá nöfn sín á listann. Hagsmunaáreksturinn blasir við. Hlægilegt er að sjá nafn Sigurjóns Björnssonar sálfræðings og forstöðumanns Geðverndardeildar barna á listanum. Er verið að gefa í skyn að mér hafi staðið andleg hætta af kettinum Felix? Eða táningum af Bonanza?
Heilt yfir má segja að hópurinn hafi talið sig vera umsjónarmenn (nokkurs konar eigendur) íslenskrar menningar og litið á alla samkeppni sem ógnun við sig. Engu skipti þótt yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem náðu útsendingunum hafi verið ánægður með Keflavíkursjónvarpið. Þjóðin vissi greinilega ekkert hvað var henni fyrir bestu að þeirra mati, jafnvel ekki þótt hún hafi greitt Keflavíkursjónvarpinu atkvæði með dýru atkvæði; buddunni. Sjónvörp seldust afar vel á þessum árum (Keflavíkursjónvarpið fjármagnaði raunar stofnun Ríkissjónvarpsins vegna þess að sérstakur skattur var lagður á sjónvarpstæki).
Hugtakið menningarhelgi, sem varð til í andúð á fjölmiðlum varnarliðsins, lýsir ef til vill hugsunarhættinum best, en það er náskylt landhelgi sem hart var barist um á þessum árum. Venjulegir Íslendingar voru „þorskar“ í menningarhelginni og sjálfskipuðum eigendum „þorskstofnsins“ var ósýnt um að erlendir aðilar hefðu aðgang að honum. Eða eins og Þórhallur Vilmundarson prófessor orðaði það í útvarpsþætti 1961: „Yfir [menningarhelginni] eigum við einir lögsögu, og okkur má aldrei henda að leyfa öðrum þjóðum að ráðast inn í hana og fremja þar helgispjöll.“
Það má ef til vill segja að við séum í svipuðum sporum varðandi gjaldmiðilinn og þegar aðeins ein útvarpsrás var leyfð í landinu. Menningarhelgin er hagkerfið og hópur manna hefur tekið að sér að sjá um „þorskstofninn“ og verja fyrir „helgispjöllunum“ sem erlendir gjaldmiðlar í höndum Íslendinga eru. Og eins og sýndi sig þegar farið var fram á þann sjálfsagða hlut (og sjálfsögðu mannréttindi í vestrænu lýðræðisríki) að einokun ríkisins á útvarps- og sjónvarpsrekstri væri afnumin var það meiriháttar mál. Það fór í gang einhvers konar tregðulögmál. Sama tregðulögmálið herjar núna á viðleitni við að auka frelsi í gjaldmiðilsmálum.
„Segðu mér… hver sér um að til séu nægar birgðir af brauði fyrir íbúa Lundúna?“ spurði sovéskur embættismaður hagfræðinginn Paul Seabright í heimsókn þar á níunda áratugnum. Svar Pauls var: „Enginn“. Spurning Rússans afhjúpaði skilningsleysi hans á markaðslögmálunum. Á einhvern undursamlegan hátt, án stýringar að ofan, geta allir á útsendingarsvæði Stöðvar tvö, svo dæmi sé tekið, nálgast brauðhleif út í næstu búð. Spurning rússans varpar ef til vill einnig ljósi á við hvað er að etja varðandi krónuna. Það er varla að maður þori að spyrja spurningarinnar. Það er vitaskuld tragíkómískt að hugsanlega – jafnvel nokkuð örugglega – að mennirnir sem telja sig gegna afar mikilvægu hlutverki við að sjá til þess að nægar birgðir séu til af krónum fyrir íbúa Íslands séu með öllu óþarfir. Það virðist að minnsta kosti engu skipta hvað aðhafst er í „hagstýringunni“, hagkerfið á Íslandi dansar undantekningalaust í takt við markaðslögmálin á heimsvísu. Ef eitthvað er hefur „hagstýringin“ gert illt verra eins og afleiðingar vaxtastýringarinnar (sem tekur mið af vaxtastýringarkerfi bandaríska seðlabankans) er gott dæmi um.
Við hlæjum að þeirri skrítnu skoðun í gamla daga að menningunni hafi stafað hætta af fjölmiðlafrelsi. Getur verið að við eftir ekki svo mörg ár, eigum eftir að hlæja að þeirri skrýtnu skoðun að nauðsynlegt hafi verið að halda úti sérstökum lögeyri á Íslandi?