Föstudagur 30.05.2014 - 17:13 - FB ummæli ()

Bensínlaust Ísland 2020!

Hún er mjög falleg framtíarsýn þeirra sem vilja auka veg hjólreiða og almenningssamgangna í borginni. Hún er falleg og fín nema framkvæmdin er skrýtin. Skrýtin á þann hátt að það er eins og það eigi að þröngva borgarbúum til þess að tileinka sér hana. Hvað er annað hægt að álykta út frá hugmyndum um þrengri götur og engri uppbyggingu stofnæða?

Ein röksemdin fyrir því að nauðsynlegt er að draga úr akstri bifreiða er sú að þeir menga. Það er eins og þetta fólk hafi ekki fylgst nægilega vel með. Röksemdin er fallin vegna þess að rafmagnsbíllinn hefur haldið innreið sína og síðast þegar ég vissi var hann mengunarlaus. Þess verður ekki langt að bíða að rafmagnsbílar aki um götur borgarinnar í stórum stíl án útblásturs og drifnir áfram af íslensku, mengunarlausu rafmagni. Um þessar mundir er verið að reisa stærstu rafhlöðuverksmiðju í heimi af fyrirtæki Elan Musk sem er maðurinn á bak við Tesla rafmagnsbílinn. En rafgeymarnir hafa verið stærsti kostnaðarliður rafmagnsbílsins til þessa og gert það að verkum að slíkir bílar hafa ekki verið á færi alls almennings að eignast. Með nýju verksmiðjunni hyggst Elan framleiða rafhlöður á hagkvæmari hátt en áður og gera þannig rafmagnsbílinn að raunhæfari kosti fyrir almenning. Innflutningur rafmagnsbíla til Íslands er hagkvæmari en innflutningur annarra bíla vegna þess að ekki eru lögð eins mikil gjöld á þá. Það er ágæt stefna því Íslendingar framleiða allt sitt rafmagn mengunarlaust. Ef framtíðarsýn mín Bensínlaust Ísland 2020! verður að veruleika þarf ekki að kaupa jarðefnaeldsneyti að utan. Það þarf engan sérfræðing til að reikna út sparnaðinn af því.

Það er útbreiddur misskilningur þeirra sem laðast að stjórnmálum að þeir eigi að stjórna fólki með boðum og bönnum. Þeir eru kosnir til þess að þjóna borgurunum, gera líf þeirra auðveldara og skemmtilegra. Ef Reykvíkingar til dæmis kjósa að fara ferða sinna í eigin bíl verða borgarfulltrúar og embættismenn að virða það. Valið á einkabílnum er ekki á misskilningi byggt vegna þess að nægar ástæður eru til að hafna blikkbeljunni alfarið. Innflutt hefðbundin bifreið hækkar 100% við tollafgreiðslu. Það gera skattarnir. Ennfremur er reksturinn skattlagður mjög duglega eins og allir sem kaupa eldsneyti vita. Engu að síður velur meginþorri almennings að kaupa hana. Eru það ekki nægilega skýr skilaboð til stjórnmálamanna? Eru það skilaboð um að nú eigi að þrengja göturnar og hætta að greiða fyrir umferð?

Borgarbúar eiga að hafa val um hvaða lífsstíl þeir kjósa. Ef borgarfulltrúm er svona ummunað um að borgarbúar eigi kost á að fara allra sinna ferða gangandi, hjólandi eða í strætó eiga þeir að skipuleggja slík hverfi en þröngva þeim ekki í hverfi sem fyrir eru. Geldinganesið er tilvalinn staður fyrir bílalaust hverfi. Það má skipuleggja það þannig að að hafi sinn eigin miðbæ þar sem alla þjónustu er að fá. Íbúarnir geta þá dvalið allan ársins hring þar við leik og störf. Aðrir borgarbúar sem áfram kjósa að nota bifreiðar til að koma sér á milli staða hafa þá val um það. Því má ekki gleyma að fjölmargir eiga frístundahús og þangað verður ekki farið á hjóli eða með strætó.

Setja ætti upp kerfi í borgaskipulaginu sem væri þannig að við hverja fasteign væri sett tala frá 1 og upp í 10. Ef talan 1 stendur við eignina þýðir það að þaðan má fara flestra sinna ferða og erinda fótgangandi, hjólandi eða með strætó. Ef talan 10 er fyrir framan hana þýðir það að nauðsynlegt er að eiga bíl til að búa þar. 5 þýðir að margt er í göngufæri, en ekki allt og svo framvegis. Væntanlegir fasteignakaupendur gætu þá metið sjálfir hvar á kvarðanum þeir kjósa að vera. Þannig borg er miklu geðþekkari en borgin sem nú er boðuð.

Stefna borgaryfirvalda eins og hún blasir við mér er eins og ógeðsdrykkur sem réttur er að mér með þeim skilaboðum að hann geri mér gott. Sama og þegið segi ég og býð nýja sýn:

Bensínlaust Ísland 2020!

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur