Föstudagur 31.10.2014 - 22:47 - FB ummæli ()

Lukkunnar velstand

Nú heyri ég talað um að allt sé í lukkunnar velstandi í efnahagsmálum, atvinnuleysi á niðurleið, skuldir á niðurleið, tekjur á uppleið, verðbólga á niðurleið, skuldir ríkissjóðs uppgreiddar með þessu áframhaldi um það bil árið 5650 osfrv. Þetta tal minnir mig á vísu Steins Steinarrs: Að sigra heiminn er eins og að spila á spil með spekingslegum svip og taka í nefið. (Og allt með glöðu geði er gjarna sett að veði.) Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til, því það er nefnilega vitlaust gefið.

Á meðan það eru gjaldeyrishöft er vitlaust gefið. Uppgangurinn er volgt hland í skónum. Lokaðu sjoppunni og það verður engin rýrnun – og heldur engin verðmætasköpun. „Fjármagnshöftin eru eitt best útfærða og best heppnaða þjóðhagsvarúðartæki sem um getur,“ segir Stefán Jóhann Stefánsson ritstjóri Seðlabankans (ritstjóri?). Hvernig er hægt að fullyrða svona? Hann hefur ekki hugmynd um hvernig væri um að litast ef búið væri að aflétta höftunum. Annars lýsir þetta orðskrípi ágætlega ástandinu. Þjóðhagsvarúðin gengur út á að hindra eðlilegan framgang markaðslögmálanna, hindra þjóðina í að skapa verðmæti, varna erlendu fjármagni að koma inn í landið og varna íslenskum fyrirtækjum að fjárfesta erlendis. Rétt er að minna á að EES samningurinn kveður á um frjálst flæði fjármagns: samningsákvæði sem Ísland svínar á og hefur nú gert í mörg ár. Halda sjálfskipaðir umsjónarmenn krónunnar og stuðningsmenn þeirra að þetta ákvæði hafi verið sett í samninginn fyrir tilviljun, eða bara mistök?

Nú var að berast sú frétt að bandarískt fyrirtæki hafi keypt fyrirtækið DataMarket. Í því tilefni skrifar Hjálmar Gíslason stofnandi og framkvæmdastjóri DataMarket:

  • Gjaldeyrishöftin verða að fara: Þetta er búið að vera langt og snúið ferli, og stærsti flækju- og áhættuþátturinn í ferlinu öllu var íslenskt efnahagsumhverfi. Gjaldeyrishöft, “gulir miðar”, undanþágur og lagabreytingar sem höfðu bein áhrif á fyrirhugaða útfærslu viðskiptanna kölluðu á mikla yfirlegu, ráðgjöf, kostnað, áhættu og óvissu sem hvorki kaupandinn né seljendur hefðu þurft að glíma við annars staðar. Það er þó rétt að taka fram að starfsmenn Seðlabanka reyndust okkur vel og á endanum fannst viðunandi lausn á öllum málum. Þeir sem eiga pirringinn skilinn eru þeir sem ollu því að setja þurfti höftin á til að byrja með, og svo stjórnvöld (núverandi og fyrrverandi) sem ekki hafa fundið leið út úr þeim.

Og Jón Sigurðsson forstjóri Össuar sagði höftin afleit í viðtali nýlega. Fyrirtækið er þvingað í skráningu á Íslandi og starfar á undanþágu frá hötunum. Hve lengi á það að vara?

Það þarf hvorki sérfræðing í efnahagsmálum eða ritstjóra banka að til að skilja hvað Hjálmar og Jón eru að segja.

Nú eru liðnir 528 dagar síðan ríkissjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tók við völdum án þess að höftunum hafi verið aflétt. Það er AFLEITT.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur