Mánudagur 10.11.2014 - 17:02 - FB ummæli ()

Gamla konan í vagninum

„Ertu í yfirstétt, millistétt eða lágstétt?“ spurði gömul kona sem sat við hliðina á mér í strætisvagninum.

„Ertu að tala við mig?“ spurði ég.

„Já, ég er að tala við þig,“ sagði hún og endurtók spurninguna.

„Ég veit það ekki,“ sagði ég. „Er stéttskiptingarhugtakið ekki bara gamall misskilningur sem hefur enga raunverulega merkingu?“

„Öðru nær,“ sagði konan. „Stéttskipting er mjög áberandi í samfélaginu, en hún er ef til vill ekki eftir sömu línum og flestir telja.“

„Hvernig þá?“ spurði ég.

„Ég get til dæmis ekki farið út í næstu kjörbúð og keypt mér rauðvín, bjór eða viskí,“ sagði konan. „Það er dæmigerð yfirstéttakúgun. Hversvegna má ég ekki ákveða sjálf hvar og hvenær ég kaupi áfengi?“

„Þú misskilur,“ sagði ég. „Það er ekki kúgun. Það er verið að vernda æskuna með þessum reglum. Æskuna sem kann ekki fótum sínum forráð.“

„Hefur þú farið í áfengismeðferð?“ sagði hún.

Ég játti því með stolti, enda verið án áfengis í fimmtán ár og 245 daga.

„Lést þú eitthvað stoppa þig þegar þig langaði að detta í það?“ sagði hún.

„Nei, en það var öðruvísi,“ sagði ég. „Það var þegar bjórinn var bannaður og eina sem var í boði var rauðvín, hvítvín, vodka og íslenskt brennivín.“

„Hvernig stóð á því að bjórinn var bannaður?“ spurði hún.

„Nú auðvitað til að vernda æskuna,“ svaraði ég, „æskuna sem kunni fótum sínum ekki forráð og svo auðvitað öllum hinum sem kunna ekki með vín að fara.“

„Ert þú fylgjandi því að ríkiseinkasala á áfengi verði lögð niður?“ spurði hún.

„Áfengi er böl og til að stemma stigu við þessu böli verður að hafa sölu á einni hendi og skatta duglega. Háir skattar, takmarkað framboð og slæmt aðgengi draga úr drykkju. Rannsóknir sýna það.“

„Lést þú háa skatta og takmarkað framboð stoppa þig þegar þú varst virkur?“ spurði hún.

„Að vísu ekki,“ svaraði ég, „en ég var alkóhólisti og þeir láta ekkert stoppa sig.“

„Þakka þér fyrir,“ sagði hún. „Nú veit ég í hvaða stétt þú ert.“

„Og hvaða stétt er það?“ sagði ég.

„Þú ert í yfirstéttinni.“

„Hvernig geturðu sagt þetta?“ sagði ég hneykslaður. „Ferðast yfirstéttin kannski með strætó?“

„Þeir sem vilja ráðskast með fullorðið og sjálfráða fólk með boðum og bönnum hljóta að teljast til yfirstéttarinnar,“ sagði konan. „Er það ekki annars fyrirtaks skilgreining á yfirstétt að hún sé sá þjóðfélagshópur sem kúgar aðra til að falla að sinni heimsmynd og hugmyndum um réttlæti og misnotar lagavaldið til að framfylgja því?“

Það fauk í mig. „Það ætti að banna skilningslausum kerlingum eins og þér að ferðast með strætó,“ sagði ég – en þó ekki fyrr en ég var á leið út úr vagninum.

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur