Bæjarstjórn Lónsstrandarbæjar í Kaliforníu samþykkti um daginn að ráðast í tilraunaverkefni sem gengur út á að niðurgreiða ferðir aldraðra og öryrkja með skutlþjónustunni Über. Lónsströnd mun vera fyrsta bæjarfélagið í Bandaríkjunum sem það gerir. Þetta mun vera fyrsta slíka verkefnið sem Über tekur þátt í.
Samkomulagið gerir ráð fyrir að öryrkjar og 55 ára og eldri greiði ekki meira en 5 dali (um 500 kr.) fyrir ferðir innan bæjarmarkanna. Niðurgreiðslurnar eru nokkrum takmörkunum háðar. Til dæmis fá 55-75 ára aðeins niðurgreiddar ferðir er snerta heilbrigðisþjónustu. Engar hömlur eru á niðurgreiðslum til 75+ eða öryrkja. Á tilraunatímabilinu sem hefst um miðjan júní er gert ráð fyrir að fyrstu 40 ferðirnar í hverjum mánuði séu niðurgreiddar.
Það sem mér þykir eftirtektarvert við þetta tilraunaverkefni er að enginn virðist hafa teljandi áhyggjur af því hvort bílstjórar hafi meirapróf eða ekki. Nóg er að standast hæfniskröfurnar sem Über gerir til bíls og bílstjóra. Þótt misjafn sauður sé í ökumannahópi Über eins og annars staðar er sá ferðamáti mjög öruggur. Helsta ástæðan fyrir því er gagnkvæm einkunnagjöf sem er órjúfanlegur hluti af viðskiptunum. Ökumenn og farþegar hafa ríka ástæðu til að halda sig á mottunni, annars fá þeir fáar stjörnur. Farþegar með stjörnufæð verða að treysta á aðra samgöngumáta en skutl og ökumenn með stjörnufæð fá færri farþega og þar af leiðandi minni tekjur.
Á sama tíma skora rentukóngarnir á Íslandi á yfirvöld að „koma böndum“ á skutlþjónustur með þeim skotheldu rökum að mæður unglinga hefðu komið að máli við þá og lýst yfir áhyggjum. Mér finnst þetta hugtak að „koma böndum“ einstaklega skemmtilegt. Þar sem „bönd“ eru á starfsemi, þar er frelsi lítið, þar er verðið hátt. Þar þarf fólk að vinna lengur til að eiga fyrir hlutunum.
Sannleikurinn er sá að skutlþjónustur eru síst óöruggari en skutl með opinberlega stimpluðum einkaleyfis-leigubílum. Öruggari ef eitthvað er, en þar sem Über starfar aka færri undir áhrifum áfengis.
Sem ég sit hér og skrifa þetta rifjast upp fyrir mér saga sem ég heyrði nýlega. Þannig var að óvandaður einstaklingur í Casablanca í Marokkó komst yfir Über-reikning vandaðs einstaklings í New York í Bandaríkjunum. Sá óvandaði notaði skutlþjónustuna ótæpilega á kostnað þess vandaða. En í staðinn fyrir að vera ósáttur við misnotkunina, var New York-búinn helsáttur. Ástæðan var sú að Casablanca-búinn var einstaklega stundvís og lét Überinn aldrei bíða eftir sér. Það stórhækkaði einkunnagjöf New York-búans sem hafði þann leiða sið að láta Überinn bíða eftir sér með tilheyrandi skítaeinkunn. New York-búinn lét misnotkunina viðgangast þar til einkunnin var orðin ásættanlega há. Það hafði og sitt að segja að Über-ferðir í Casablanca eru hræódýrar, þannig að það var ekki kostnaðarsamt fyrir New York búann að hækka einkunn sína með þessum hætti.