Sunnudagur 12.08.2018 - 15:06 - FB ummæli ()

Kannabis eða Vicodin?

Æ fleiri deyja vegna misnotkunar á lyfseðilskyldum lyfjum í Bandaríkjunum. Áætlað er að 1999 hafi um 5 þúsund manns dáið vegna ofnotkunar. 2010 var fjöldi þeirra sem dó 16 þúsund og á sl. ári um 36 þúsund. Ástandið er ef til vill skárra á Íslandi, en misnotkun róandi-, svefn- og kvíðastillandi lyfja er mikil og fer vaxandi.

Bandarískir stjórnmálamenn hafa gripið til aðgerða til að stemma stigu við „faraldrinum“. Þingið hækkaði stórlega fjárframlag til málaflokksins, meðferðarheimili fá meira fé og refsingar fyrir ólöglega sölu hafa verið hertar. Donald Trump forseti hefur beint þeim tilmælum til lyfjafyrirtækja að minnka framboð slíkra lyfja. Læknar hafa ennfremur verið hvattir til að gæta hófs í að vísa á þau.

Kannabis fækkar stórlega dauðsföllum af völdum verkjalyfja.

En ef til vill er til betri lausn á vandanum en fjáraustur, harðari refsingar og tilmæli.

Lausnin er mögulega að færa kannabis af bannlistanum. 

Í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem eru hætt að amast við notkun kannabisefna, hvort sem það er í lækningaskyni eða alveg, er misnotkun á lyfseðilskyldum verkjalyfjum mun minni. Könnun sýndi að í ríki þar sem kannabis er leyft í lækningaskyni fækkaði dauðsföllum af völdum of stórra skammta um fjórðung.

Önnur könnun sem gerð var sýndi að margir einstaklingar sem þurfa á verkjalyfjum að halda velja heldur kannabis en hefðbundin verkjalyf — ef kannabis er í boði. Þeir telja kannabis betra við langvinnum stoðkerfisverkjum. Þar sem kannabis var fáanlegt minnkaði notkun lyfseðilskyldra verkjalyfja um 64%. Lífsgæði þessa hóps jukust ennfremur verulega. 

Í löndum og ríkjum þar sem ekki er amast við kannabis er notkun þess síst meiri en í löndum sem leggja blátt bann við sölu þess. Sérstaklega meðal ungmenna. Nýleg könnun sýnir svo dæmi sé tekið að kannabisneysla ungmenna í Kólóradó hefur ekkert aukist þrátt fyrir að efnið sé nú löglegt þar.

Kannabisbannið sem átti að vera föðurleg hjálp ríkisvaldsins við að halda efninu frá þegnunum virðist þegar upp er staðið lagt fjölda fólks óbeint í valinn. Og ekki nóg með það heldur hefur bannið komið í veg fyrir rannsóknir og þróun á efnunum í plöntunni.

Ísland ætti að slást í hóp með Hollandi, Portúgal, Kólóradó og Kaliforníu og víkja af þessari óheillabraut.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur