Mánudagur 06.08.2018 - 16:52 - FB ummæli ()

Leyfileg stærð á samlokum

Saga innanlandsflugsins í Bandaríkjunum er ljómandi góð dæmisaga um muninn á höftum og frelsi.

Loftflutningastofa Bandaríkjanna var lögð niður 1985.

Loftflutningastofa Bandaríkjanna (CAB) var sett á laggirnar með lögum 1938. Í kjölfarið hóf stofan að setja reglur um farmiðaverð, flugrútur og annað. Frá 1939 til 1978 þurftu flugfélög í Bandaríkjunum að sitja og standa eftir dyntum stjórnenda stofnunarinnar. Á tímabilinu var engum nýjum flugfélögum veitt starfsleyfi í innanlandsflugi í ríkjasambandinu. Afleiðingin var ríkisframleiddur einokunarhringur sem kom þeim sem fyrir voru á markaðnum ágætlega en ferðalöngum afar illa.

Í því litla svigrúmi sem var til samkeppni reyndu flugfélögin að lokka til sín viðskiptavini með öðrum ráðum. Til dæmis með því að bjóða „ókeypis“ mat og drykk. Loftflutningastofa brást við með því að setja reglugerð um stærð á samlokum um borð.

Þetta ríkisafskipta fyrirkomulag leiddi af sér að flugferðir voru mjög dýrar. 1974 kostaði flugmiðinn milli New York og Los Angeles 1442 dali. Eftir að höftunum hafði verið aflétt 1978, kostaði þessi sami flugmiði 268 dali. Með öðrum orðum: Farmiðaverð lækkaði gríðarlega.

Hinn megin ábatinn af frelsi til að keppa í innanlandsfluginu var að framleiðni flugfélaganna stórjókst. Með öðrum orðum: Fleiri höfðu efni á að ferðast með flugvélum. Frá 1979 til 1988 fjölgaði áfangastöðum American Airlines úr 50 í 173 og United Airlines úr 80 í 169. Þessi fjölgun áfangastaða átti sér stað án kaupa á öðrum flugfélögum og flugrútum þeirra.

Það varð heimsbyggðinni til mikilla hagsbóta að haftastefnunni í innanlandsfluginu í Bandaríkjunum var fleygt þangað sem allur sósíalismi er best geymdur; á ruslahauga sögunnar.

Heimildir má m.a. finna hér.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur