Þriðjudagur 13.03.2018 - 16:57 - FB ummæli ()

Leigubílar í höftum

Fljótlega eftir að bíllinn nam land á Íslandi fyrir alvöru 1913 voru sett „Lög um notkun bifreiða“. Í fyrstu var eitt almennt ökupróf. Um 1920 bættist meirapróf við. Þeir sem stóðust meirapróf gátu hafið útgerð leigubíla. (Alfreð Elíasson stofnandi og forstjóri Loftleiða var einn þeirra manna sem það gerði svo dæmi sé tekið). Þannig var það fram á sjötta áratuginn. Þá fóru leigubílstjórar og samvinnufélag þeirra Hreyfill með Bergstein Guðjónsson í forystu að ókyrrast verulega. Þeim fannst ómögulegt að það þyrfti aðeins meirapróf til að geta gerst leigubílstjóri. Þeir vildu reisa hindranir. Þeir vildu byggja kastala með síki undir þá sem fyrir voru í atvinnugreininni og vinda upp brúna.

Gunnar Thoroddsen, Jóhann Hafstein, Jónas Rafnar, Emil Jónsson og Gylfi Þ. Gíslason voru flutningsmenn frumvarps um að reisa múra um fólksflutninga með leigubílum. Frumvarp þeirra hafði slæmar afleiðingar í för með sér sem þjóðin er enn að bíta úr nálinni með.

Nokkrir þingmenn voru talaðir til um nauðsyn hindrana. Það var samið frumvarp og voru sjálfstæðismennirnir Gunnar Thoroddsen, Jóhann Hafstein og Jónas Rafnar, og kratarnir Gylfi Þ. Gíslason og Emil Jónsson flutningsmenn.

Bergsteinn Guðjónsson formaður samvinnufélagsins Hreyfils skrifaði greinargerðina með frumvarpinu. Hreyfill var stéttarfélag leigubílstjóra. Nafni félagsins var síðar breytt í Frami.

En það var ekki nóg að leggja fram frumvarp. Það þurfti að semja réttlætingar í formi greinargerðar. Hver var betur til þess fallinn en Bergsteinn Guðjónsson formaður Hreyfils? Það þótti greinilega ekkert tiltökumál á þeim tíma að sérhagsmunaaðilar semdu slík plögg með frumvörpum. Hugmyndin að frumvarpinu var jú frá honum og hans mönnum komin. Ásamt Bergsteini reit formaður vörubílstjórafélagsins Þróttar, Friðleifur I. Friðleifsson greinargerðina (vörubílstjórar vildu líka reisa kastala um sína atvinugrein).

Rökin sem Bergsteinn og Friðleifur tíndu til fyrir nauðsyn lagasetningar voru þessi:

1. Of margir leigubílar takmarka atvinnumöguleika þeirra sem vilja aka fólki í fullri vinnu.
2. Önnur menningarlönd hafa skert frelsi til að keppa í fólksflutningum.
3. Of margir stunda þessa atvinnugrein.
4. Of margir bílar notaðir til fólksflutninga.
5. Of mikill innflutningur á rekstarvörum bifreiða.
6. Margir hafa fjárfest í bílum og lent í kröggum þegar afraksturinn var ekki í samræmi við væntingar.
7. Svört atvinnustarfsemi vegna fjárkragga þeirra sem offfjárfestu í bílum.
8. Svo nýta megi bílana sem fyrir eru betur.
9. Að allir bílar séu á stöð til að einfalda opinbert eftirlit.
10. Mikið vinnuafl til ónýtis þegar margir eru um hituna.

Eins og sést eru þetta ákaflega veigalítil rök. Það má jafnvel fullyrða að þetta séu engin rök. „Rökin“ eru öll eðlileg einkenni á samkeppnismarkaði. Sumir hagnast, aðrir tapa, menn hætta akstri, menn byrja akstur, það er offjárfest og það er fjárfest skynsamlega, sumir vinna svart, aðrir vinna síður svart osfrv.

Það virðist ekki hafa staðið í sjálfstæðismönnum þótt frumvarpið sem þeir lögðu fram gengi þvert gegn grundvallarstefnu flokksins um atvinnufrelsi og mannréttindi.

Lögin voru samþykkt.

Síðan eru liðin yfir 60 ár.

Með auknu framboði á bílum upp úr 1950 og lækkandi verði breyttist eðli leigubílaaksturs frá því að vera settleg full atvinna í íhlaupavinnu sem margir nýttu sér. Með ólögunum um leigubifreiðar í kaupstöðum var þessi eðlilega þróun stöðvuð. Tjónið sem lögin unnu samfélaginu er gríðarlegt. Tækifæri manna til að afla sér aukatekna voru skert. Ungt og kraftmikið fólk gat ekki stofnað fyrirtæki á þessu sviði eins og verið hafði meðan frelsi var til að keppa. Viðskiptavinir leigubíla þurftu að greiða miklu hærra verð fyrir þjónustuna. Eins og dæmin sýna með tilkomu Lyft og sambærilegra aðila þá aka færri undir áhrifum áfengis þegar það kostar minna að taka leigubíl og framboðið er meira. Eflaust freistuðust margir til að aka drukknir vegna sjálfskaparvítisins sem þessi lög ollu.

Það blasir við að ef hægt er að samþykkja lög án raka, er líka hægt að afnema þau án raka. Það þarf engar nefndir eða fundi með sérhagsmunaaðilum um hvort frelsi eigi að ríkja á þessum markaði. Það á einfaldlega að afnema þessi gömlu ólög.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur