Fimmtudagur 30.12.2010 - 22:23 - FB ummæli ()

Auglýsingar í barnasjónvarpi

Nú á víst að banna auglýsingar innan um barnaefni í íslensku sjónvarpi með lögum. Er þörf á því?

Í Bandaríkjunum er sjónvarpsstöð fyrir börn sem heitir Nick Jr. Þar eru engar auglýsingar. Nick Jr. er áskriftarstöð og foreldrar sem vilja að börn þeirra séu án áreitis auglýsinga, þar á meðal ég, velja hana í stórum stíl. Engin lög þurfti að setja á þinginu til að koma því um kring.

Skoðanakönnun sem talsmenn tilvonandi bannlaga vísuðu í sýndi að 70% þjóðarinnar er á móti auglýsingum í barnasjónvarpi. Það kemur ekki á óvart og ætti að vera þeim sem reka sjónvarpsstöðvar vísbending um að það sé nægur markaður fyrir auglýsingalaust barnaefni. Það er hins vegar ekki röksemd fyrir bannlögum.

RÚV sem þjóðareign og flaggskip menningar vorrar, ætti að sjá sóma sinn í að birta ekki auglýsingar í barnatímum, fyrst meirihluti þjóðarinnar, eigendur fyrirtækisins, vilja það.

Án bannlaga má hæglega halda auglýsingum frá börnum, einfaldlega með því að vera eigin dagskrárstjóri. Flestir ef ekki allir foreldrar eru með safn af DVD diskum og VHS snældum fyrir börnin (ráðherrar eru án efa þar á meðal). Þetta efni er spilað daginn út og inn á mörgum heimilum því börn virðast ekki geta fengið leið á eftirlætis þáttunum sínum. Skoppa og Skrítla eru afar vinsælar á mínu heimili svo dæmi sé tekið og ég er með Heyrðu snöggvast snati minn-stefið á heilanum.

Margir kjósa að hafa enga móttakara fyrir sjónvarpssendingar á heimilinu, þar á meðal frændfólk mitt. Börnin hafa aldrei séð annað en það efni sem foreldrarnir sjálfir kjósa þeim.

Á netinu er gríðarlegt framboð af auglýsingalausu barnaefni í formi leikja og þátta.

Það er með öðrum orðum óþarft með öllu að setja um það sérstök lög að ekki megi auglýsa í barnatímum í sjónvarpi. Það er bæði tímasóun og peningasóun og vitnisburður um hugarfar frekju og tilætlunarsemi sem klædd er í búning umhyggju fyrir börnum.

Skoppa og Skrítla er góður valkostur fyrir þá sem vilja auglýsingalaust barnaefni á íslensku

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.12.2010 - 11:57 - FB ummæli ()

Fjárhættuspil á netinu

Mikið er ég feginn að Ögmundur Jónasson ætlar að beita sér fyrir því að ég geti ekki farið mér að voða í fjárhættuspili á netinu. Þetta er svo fallegt að maður klökknar. Það er gott til þess að vita að menn eins og hann – stjórnmálamennirnir – eru sérstakir áhugamenn um ráðvendni. Sjáið bara rekstur ríkissjóðsins okkar. Engin afglöp þar, bara hagsýni og ráðdeild. Einhverjir myndu segja að stjórnmálamennirnir ættu að byrja á sjálfum sér, vilji þeir koma í veg fyrir afglöp í fjármálum. Forða til dæmis ríkissjóði með öllum ráðum frá því að greiða fyrir stærsta tap í fjárhættuspili  á netinu í manna minnum, það sem oft hefur verið nefnt Icesave. En ég er ekki sammála því. Og ég er heldur ekki sammála því að það sé fyrir afglöp stjórnmálamanna og embættismanna að hægt var að stofna til þessara himinháu Icesave skulda með tryggigavíxil á ríkissjóð. Maður verður að gefa blessuðu embættismannakerfinu grið. Þeir hafa jú í mörg horn að líta, eins og til dæmis að passa að ég fari mér ekki að voða í fjárhættuspili á netinu.

Gott að vita að einhver hugsar fyrir mann

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 4.12.2010 - 10:10 - FB ummæli ()

Ömmuhagfræði

Væri ég leiðtogi, sama hvar, og það þyrfti að sýna ráðdeild og spara, myndi ég draga úr hvers kyns fjárútlátum sem ekki eru sannarlega nauðsynleg.

Sem leiðtogi myndi ég reyna eftir fremsta megni að koma þeim keppnisanda að hjá liðsmönnum mínum að sparnaður á öllum sviðum, sama hversu lágar fjárhæðir er um að tefla, skipti máli, vegna þess að margt smátt gerir eitt stórt.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir leiðtoga að setja liðsmönnum í þeirri aðstöðu skýrt takmark: Spara. Hvar má spara? Hvar er hægt að hagræða? Hvað má leggja niður? Hverju þarf ekki að breyta? Og svo framvegis.

Nafnbreyting á götum borgarinnar er dæmi um hlut sem vel er hægt að vera án í hallæri. Það kostar talsvert fé að breyta skiltum og kortum (í strætóskýlum sem og borgarkortum). Leiðtoginn á að spyrja liðsmenn sína: „Getum við sleppt því að breyta götunöfnum og þar með kostnaðinum sem af því hlýst?“ Svarið er vitaskuld já. Ónauðsynlegri breyting er vandfundin.

Ömmuhagfræði er einmitt eitthvað svona. Brjóstvit sem hvert mannsbarn hefur og getur skilað umtalsverðum árangri ef á það er hlustað.

Þessvegna kemur svo á óvart að fólk sem valdist til forystu og hafði á takteinum að með ömmuhagfræði mætti spara og gæta hagsýni, skuli ekki standa við þau fögru fyrirheit. Eina sem þeim dettur í hug er að hækka skattana. Það er ekki ömmuhagfræði, það er uppgjöf.

Borgarstarfsmenn skipta um peru

Fann þessa mynd á netinu af borgarstarfsmönnum að skipta um peru.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 30.11.2010 - 22:26 - FB ummæli ()

ESB taki upp kvótakerfi og krónu

Ef Ísland á að ganga í Evrópusambandið væri eðlilegast að gera þá kröfu að sambandið innleiði íslenska kvótakerfið í sjávarútvegi. Evrópskur sjávarútvegur er, eins og landbúnaðurinn hér, á opinberu framfæri. Það tíðkaðist á öldum áður að ríki styrktu sjávarútveginn með fjárframlögum vegna þess að sjómenn voru fyrirtaks hermenn; kunnu að sigla skútum. Þetta óheilbrigða ríkisstyrkjakerfi festist svo í sessi.

Önnur krafa Íslendinga á að vera sú að sambandið taki upp íslensku krónuna. Krónan er jú öllu að bjarga hér, eftir því sem manni skilst af færustu sérfræðingum, hví skyldi hún ekki geta bjargað öðrum ríkjum?

Samninganefnd Íslands um aðlögun Evrópusambandsins að landinu hefur þá eitthvað að semja um. „Gott og vel, við föllum frá því að þið takið upp krónuna, en hvikum ekki frá þeirri kröfu að þið takið upp kvótakerfið.“

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 21.11.2010 - 10:04 - FB ummæli ()

Lög um lén taki tillit til mannréttinda

Þótt það hljómi undarlega, þá sér Isnic ástæðu til að taka sérstaklega fram í athugasemdum við drög að frumvarpi um .is lénið að þau taki tillit til mannréttinda. Og vitaskuld er lagt til í frumvarpsdrögunum að lagður verði skattur á það og að starfsleyfi sé aðeins til fimm ára.

Drögin vega að tjáningar- og atvinnufrelsis á Íslandi.

Athugasemdirnar má lesa hér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 16.11.2010 - 18:06 - FB ummæli ()

Íslenska í iPhone

Í tilefni af degi okkar tungu vil ég benda öllum á að keyboardið á iPhone er íslenskt. Mest af sms sem poppa upp á mínum skjá eru með síró séríslenskum stöfum. Og messitsið er? Jú, messitsið er að aðrir símaframleiðendur hafa ekki meikað að setja séríslensku stafina í símana sína. Það er frekar leim. Af hverju virðist Apple vera eina kompaníið sem meikar íslenskuna? Not só að ég ætli að vera að prómótera það hérna, ó nó. Maður verður bara að hæla því sem vel er gert.

Er þessi texti ekki bara nokkuð nálægt því máli sem talað er á Íslandi í dag? Ég held það.

Áfram íslensk tunga!

Flokkar: Dægurmál

Fimmtudagur 11.11.2010 - 14:49 - FB ummæli ()

Einkabílismaviðbjóðurinn

Mikið er „Nú er lag“ greinin hans Ármanns Jakobssonar góð. Ekkert minna en frábær! Ég er hjartanlega sammála honum.

Skoðanakannanir sýna svo ekki verður um villst að almenningssamgöngur eiga sér mikið fylgi. Nú er lag að láta almenning standa við stóru orðin og beina honum rétta leið.

Eitt helsta sameiningartákn okkar vinstrimanna, almenningssamgöngur, hefur ávallt verið mér hugleikið. Við viljum vel flestir af fullri einlægni koma öllum í strætó eða lestir og leggja einkabílnum fyrir fullt og allt. Ég blæs á allt tal um að þetta sé birtingarmynd á stjórnlyndi, eða frekju, eða tilætlunarsemi. það er bara kjaftæði runnið undan rifjum frjálshyggjumanna. Gatnakerfið er að sliga þetta þjóðfélag. Það fer ekki framhjá neinum. Og ég styð Katrínu systur hans heilshugar í staðfastri viðleitni hennar við að taka einkabílnum 1600 grafir í Reykjavíkurhöfn. Það er viðeigandi fyrir þetta járnarusl.

Ég á mér draum. Sé fyrir mér hóp af glöðum borgarbúum á leið upp í strætó. Svo ekur strætóinn sína leið um bæinn, stóran hring og slaufur til að taka upp fleiri farþega á nokkurra mínútna fresti. Allir taka lagið saman. Þetta er svo falleg sýn! Verst er að fáir deila þessari sýn með okkur í verki.

Bölvaður skríllinn vill ekki ferðast með strætó! Eins og þetta er nú hagkvæmur og umhverfisvænn kostur. Gerir fólk sér ekki grein fyrir að klukkutími aukalega á dag í ferð í og úr vinnu er lífsgæði sem eru stórlega vanmetin? Það má til dæmis lesa í bók meðan maður líður áfram á fráteknum akreinum framhjá pöpulnum í einkabílagildrunni. Gargandi krakkarnir og karlinn heima geta vel verið án mömmunnar aðeins lengur á hverjum degi.

Samverustundir fjölskyldunnar sem allir þessir fræðingar keppast um að mæra, er bara blaður. Strætó gefur manni kost á að hugsa aðeins meira um sjálfan sig. Ekki veitir af í firringu nútímans.

Nóg pláss er í strætó fyrir alla þá Bónuspoka sem við getum borið. Svo það er engin afsökun að bera við óþægindum við að nota strætó í verslunarferðir. Það er heldur engin afsökun að bera við óþægindum við að skutla börnunum í skóla og tómstundaiðju. Senda þau í strætó, þau hafa gott af því vera innan um raunverulegt fólk. Sagt er að einkabíllinn sé úlpa Íslendinga. Ekkert smá dýr úlpa! Þá kýs ég heldur gömlu góðu Álafossúlpuna. Hún er með hettu og stroffi. Vissirðu það?

Svo er nú ályktun Ármanns um að vond bílalán séu bílum að kenna eins og töluð úr mínu hjarta. Auðvitað! Ef enginn væri einkabíllinn, væru engin vond bílalán til. Aðeins ódýr strætókort. Rangar ákvarðanir í fjármálum væru ekki til á Íslandi frekar en hommar í Íran ef enginn væri einkabíllinn. Hugsa sér! Og ef það væru engir einkabílar þá væru engar götur nema götur fyrir strætó. Hm… væri gatnakerfið minna umfangs ef það væri eingöngu fyrir strætó? Ja, það má allavega fullyrða að það væri ekki gjaldþrota og plássfrekt eins og gatnakerfi einkabílsins sannarlega er!

Ekki er annað hægt en klappa fyrir tillögum Ármanns um að hækka enn frekar skatta á einkabílismann. Tær snilld, eins og einhver sagði.

Nú ætla lífeyrissjóðirnir að fjármagna gatnaframkvæmdir fyrir milljarða fyrir gjaldþrota þjóð á gjaldþrota gatnakerfi í gjaldþrota einkabílum! Þjóðhagslegur sparnaður af því að vörur og fólk komist á sem skemmstum tíma milli staða er ofmetinn. Þjóðarlíkaminn getur vel verið án þessa súrefnis svo notað sé líkingamál. Hver þarf súrefni þegar maður getur tekið strætó? Ekki ég, svo mikið er víst.

Nú þarf ég að rjúka, klukkan er orðin þrjú, verð að ná upp í Norðlingaholt fyrir sex.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 20.10.2010 - 08:49 - FB ummæli ()

Kófsveitt

Fréttir eru í eðli sínu meira vondar en góðar. Góðar fréttir eru einhvern veginn léttvægari, finnst mörgum, en fréttir af óförum eða hörmungum. Ég er mikill aðdáandi góðra frétta og les þær iðulega á undan hinum vondu. Hjarta mitt tók gleðikipp í síðustu viku þegar ég sá baksíðu Moggans. Þar var mjög góð frétt. Frétt um að fólk kæmi kófsveitt úr leikfimi. En hvað það var nú ánægjulegt. Kófsveitt fólk sem kemur úr leikfimi getur aðeins þýtt duglegt, samviskusamt og heilbrigt fólk sem tekur virkilega á því í líkamsræktinni og hlífir sér hvergi, svíkst ekki undan með því að lyfta léttari lóðum og taka færri æfingar. En gleði mín dvínaði nokkuð þegar ég sá undirfyrirsögnina. Engar sturtur í einhverjum skólanum. Það er virkilega slæm frétt og meira í takt við eðli frétta. Þrátt fyrir það huggaði ég mig við þá staðreynd að hvað sem sturtumálum þessa skóla líður, taka krakkarnir á því í leikfiminni. Því ber að fagna vegna þess að síðast þegar ég vissi fór æska landsins stækkandi á þverveginn. Æsku landsins er þá viðbjargandi. Stórkostlegt!

Kófsveittir krakkar

Fáar fyrirsagnir og fréttir hafa í sér eins miklar dramatískar sviptingar eins og þessi. Fyrst er maður virkilega glaður fyrir hönd þeirra sem stunda leikfimi, svo kemur í ljós að þau komast ekki í sturtu, þá er maður sorgmæddur. Svo gleðst maður aftur yfir þeirri óvæntu gleðifrétt að þau taki hraustlega á því í leikfiminni en mæta ekki með vottorð eða neita hreinlega að hreyfa sig fyrr en sturturnar eru komnar í lag.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · Íþróttir

Fimmtudagur 7.10.2010 - 12:16 - FB ummæli ()

Framtíðarsýn reynist rétt, sprengir upp verð á gömlum bol!

Við tiltekt í vöruskemmu Egozentric®© París, London, Washington, Hannover, kom í ljós bolur sem talið var að væri uppseldur fyrir löngu. Bolurinn var gerður fyrir viðskiptavin sem hafði ákaflega fallega framtíðarsýn og vildi tryggja að fleiri nytu hennar með honum. Framtíðarsýnin var ekki bara falleg, heldur líka sönn og rétt. Svona djúpvitrir spakvitringar eru vandfundnir; viðskiptavinir sem SKILJA að nokkur lykilatriði þarf að leysa svo smjör drjúpi af hverju strái á Íslandi og hafa bæði kjark og þor til að segja það upphátt.

Góðæri ef Davíð verður rekinn

Aðeins fundust nokkur rauð eintök af stærðinni 50. Vegna óbeins kostnaðar við gerð bolarins, þrældóms barna, kvenna og gamalmenna á Madagaskar, viðbjóðslegra efna sem runnu út í umhverfið við vinnslu tausins  og gróðurhúsagassins sem varð til þegar saumakonurnar fretuðu eftir rúgbrauðið sem þær fengu í hádeginu, verður að stilla verðinu í sannkallað óhóf, eða aðeins 55.600 krónur stykkið óplastað. Plastaður kostar bolurinn litlar 78.232 krónur. Tilboð! Ef þú kaupir tvo færðu þá á 245.000 krónur. 0,0001% af pökkunarkostnaði rennur óskiptur í gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands.

Flokkar: Óflokkað · Menning og listir

Þriðjudagur 5.10.2010 - 19:00 - FB ummæli ()

Hvar eru mínar afskriftir?

Egozentric Designs®©, París, London, New York, Róm er stolt af því að kynna nýjasta bolinn sinn. Hann er að þessu sinni ekki hannaður fyrir viðskiptavin, heldur stofuna sjálfa, enda fór stofan, eins og svo margir aðrir, fremur geyst á árunum fyrir hrun og tók lán sem nutu gengistryggingar. En svo virðist sem stofan hafi ekki verið nógu stórtæk. Aðalhönnuðurinn hefði mátt segja sér það sjálfur, maðurinn sem á mannamótum þuldi jafnan spekina „skuldirðu lítið á bankinn þig, skuldirðu mikið átt þú bankann,“ til að sýnast gáfulegur.

Bolurinn er þýðing á hönnun sem stofan hefur gert fyrir erlenda viðskiptavini (Where is my bailout?).

Vertu harður á þínu og sýndu stjórnvöldum og bankavöldum enga miskunn. Stærð 1-100. Litur: Rauður. Bolurinn er sem fyrr úr óviðjafnanlegri bómull, þrælatíndri með berum, blóðugum höndum á Madagaskar. Verð aðeins 19900 krónur. 0,05% af sendingarkostnaði rennur óskipt til afskriftasjóðs Íslandsbanka.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur