Föstudagur 3.4.2020 - 08:58 - FB ummæli ()

Kreppan: Lækkun tryggingagjalds vegi á móti launahækkun

 

Sumir hafa áhyggjur af því að fyrirtækjum reynist erfitt að taka á sig umsamdar launahækkanir frá 1. apríl í þeim þrengingum sem nú eru vegna sóttvarnaraðgerða.

Nefnd hefur verið sú hugmynd að launafólk gefi eftir hluta af lífeyrisréttindum sínum til að létta atvinnurekendum róðurinn. Það felur í reynd í sér að launafólk á almennum markaði greiði sér sjálf launahækkunina með skertum lífeyrisréttindum.

Innan Eflingar hefur einnig verið rætt um aðrar leiðir sem verja betur réttindi og kjör launafólks.

Ein er hugmyndin um tímabundna eftirgjöf tryggingagjaldsins sem leggst á launagreiðendur. Sú leið myndi létta fyrirtækjum að greiða umsamda launahækkun – og jafnvel ríflega það.

Ríkið hefur gott svigrúm til að gera þetta, bæði vegna góðrar fjárhagsstöðu og vegna þess að framkominn aðgerðapakki ríkisins er frekar lítill miðað við mörg grannríkin, þó hann sé annars ágætlega hannaður.

Tryggingagjaldið leggst á launagreiðendur og það mætti fella niður í 3 til 6 mánuði eða lækka það veglega til lengri tíma, eftir því hver framvinda kreppunnar verður.

Það er bæði sanngjarnari og virkari leið en skerðing lífeyrisréttinda launafólks á almennum markaði, þó báðar stefni að sama markmiði.

 

Eflum launadrifinn hagvöxt í kjölfar sóttvarna

Launahækkun í samdráttarkreppu eins og nú er verður afar mikilvægur liður í því að ná efnahagslífinu á flug á ný, þegar sóttvarnaraðgerðum lýkur.

Eftirfarandi eru rök fyrir því.

Stöðvun atvinnulífsins vegna sóttvarnaraðgerðanna verður tímabundin – vonandi aðeins nokkrar vikur eða örfáir mánuðir í viðbót, ef marka má reynslu Kínverja.

Í kjölfarið eru ágætar forsendur fyrir því að þeir hlutar atvinnulífsins sem ekki byggja að mestu á ferðaþjónustu geti snúið til sem næst eðlilegrar starfsemi.

Ferðaþjónustan verður í sérstöðu því lengri tíma mun taka að ná henni á flug aftur, vegna þess að útlendingar munu trauðla ferðast hingað í stórum stíl strax.

Við gætum þurft að bíða eftir að virk bóluefni eða lyf gegn veirunni komi fram til að skapa á ný eðlileg skilyrði fyrir alþjóðlega ferðaþjónustu. Svo skiptir einnig máli hvernig kreppan leikur kaupmátt þeirra þjóða sem hingað leita sem ferðamenn.

Í ferðaþjónustu og beintengdum greinum (fólksflutningar, flug, hótel, veitingahús og bílaleigur o.fl.) starfa um 12% vinnandi fólks á Íslandi. Aðrar greinar ættu að komast smám saman í þokkalegt horf eftir að sóttvarnaraðgerðum lýkur.

Það er því líklegt að fyrst eftir að sóttvarnaraðgerðum lýkur þurfum við að stóla á okkur sjálf að umtalsverðu leyti til að örva hagkerfið til uppsveiflu á ný.

Klassíska leiðin til þess er örvun eftirspurnar í anda hagfræðingsins John M. Keynes. Þar getur launadrifinn hagvöxtur leikið stórt hlutverk í að rífa einkaneysluna upp, ásamt auknum opinberum framkvæmdum við innviði, viðhald bygginga og fleira.

Launahækkun þegar hagkerfið er tilbúið í upsveiflu verður þannig vítamínssprauta fyrir þjóðarbúskapinn og gæti jafnvel mildað höggið sem ferðaþjónustan verður fyrir (aukin ferðalög innanlands, aukin notkun veitingastaða, aukin verslun o.fl.).

Aukin áhersla á notkun innlendrar framleiðslu verður líka gagnleg við svona aðstæður.

Það er því mjög mikilvægt að halda umsömdum launahækkunum til haga. Um það er enginn ágreiningur innan verkalýðshreyfingarinnar.

Ríkið getur greitt fyrir því að ofangreind örfun hagkerfisins komi að fullu til framkvæmda á næstunni, einmitt með því að létta enn frekar undir með launagreiðendum en þegar hefur verið gert.

Lækkun tryggingagjaldsins væri öflug og skjótvirk leið til þess.

Önnur leið gæti verið að auka við hlutabótaleiðina.

Æskilegt er að verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og stjórnvöld stilli saman strengi sína á uppbyggilegan hátt til að tryggja sem best kröftuga uppsveiflu að loknum sóttvarnaraðgerðum.

 

Síðasti pistill: Lífið eða hagvöxturinn: Hvort á að hafa forgang?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.3.2020 - 15:01 - FB ummæli ()

Lífið eða hagvöxturinn: Hvort á að hafa forgang?

Í Bandaríkjunum er nú risin hávær deila milli viðskiptajöfra og auðmanna annars vegar og lýðheilsu- og faraldursfræðinga hins vegar um viðbrögð við veirufaraldrinum.

Talsmenn lýðheilsu og forvarna hafa lagt til samskiptahömlur til að aftra útbreiðslu veirunnar og dauðsföllum. Þetta kemur niður á viðskiptalífinu.

Í flestum ríkjum eru þessi sjónarmið lækisfræðanna ríkjandi. Enda ekki betri leið þekkt til að verjast svo skæðri faraldurssótt, til að vernda líf.

Eftir þessu hefur verið farið í Bandaríkjunum í rúma viku, en þar þykja stjórnvöld þó hafa brugðist alltof seint við hættunni.

Forsetinn Trump gerði framanaf lítið úr ógninni og fullyrti að stjórnvöld hefðu stjórn á faraldrinum – ekkert væri að óttast. Það var augljóslega rangt!

Loks þann 16. mars gaf forsetinn út mild fyrirmæli um hömlur á samskiptum til að draga úr útbreiðslu veirunnar – sem skyldu þó einungis gilda til 15 daga.

 

Peningamenn gegn lýðheilsufólki í USA

Nú eftir rúma viku af gildistímanum hefur forsetinn komið fram með efasemdir um mikilvægi aðgerðanna og boðar afléttingu þeirra sem allra fyrst – helst ekki seinna en um páska.

Þetta er áður en veiran hefur náð hámarksútbreiðslu í Bandaríkjunum! Ekki er heldur séð fyrir hvenær toppi hættunnar verði náð.

Forsetinn er að hugsa um hagvöxtinn, peninga og gróða efnamanna. Þar á meðal eigin hag.

Aðrir auðmenn og nýfrjálshyggjuhagfræðingar í Bandaríkjunum taka undir með honum (þetta er áberandi á Fox sjónvarpsstöðinni). Sumir úr þessum hópum segja beinlínis að í lagi sé að fórna lífi eldri borgara til að tryggja betra efnahagslíf fyrir yngri kynslóðina.

Þetta gildismat endurspeglar bandaríska samfélagið, þar sem hagsmunir og gildi auðmanna eru alltaf ríkjandi en hagur almennings og sérstaklega þeirra sem höllum fæti standa er víkjandi.

Ráðandi öflum bandaríska samfélagsins finnst gróðinn til skemmri tíma mikilvægari en líf einstakra borgara.

 

Ísland er réttu megin í gildismatinu

Við sem búum á Íslandi og á Norðurlöndum almennt megum þakka fyrir að búa ekki við þessi bandarísku sjónarmið.

Enda auðkennum við samfélög okkar sem “velferðarríki” – en í Bandaríkjunum er það hugtak næstum skammaryrði.

Hér er lífið veigameira á vogaskálunum en gróði eignafólks – eða svo virðist vera hjá flestum.

Ég held að ef forsætisráðherra okkar myndi tala eins og Trump gerir um þessi mál þá myndi þjóðinni verða verulega misboðið.

Nýkynntar aðgerðir íslenskra stjórnvalda miða að því að fleyta atvinnulífi og heimilum í gegnum kreppuna, sem verður að öllum líkindum skammtímaáfall.

Við getum verið ósammála um stærð aðgerðanna og einstök einkenni á útfærslum, en markmiðið er rétt.

Hvergi er heldur slegið hér af kröfum lýðheilsufræðanna um aðgerðir til að spyrna gegn útbreiðslu og dauðsföllum og fagfólk látið sjá um forystuna.

Jafnvel seðlabankastjórinn, æðsti yfirmaður peningamálanna, er með rétt gildismat þegar hann segir í dag: “Við leggum á okkur kostnað til að bjarga lífum”.

Eftir því sem lengra líður á kreppuna tekur meira á og þá verður erfiðara en jafnframt mikilvægara að halda lýðheilsumarkmiðunum í hávegi – undir leiðsögn sérfræðinganna í heilbrigðisgeiranum.

Þannig dregur stór kreppa fram einkenni samfélaga og ekki síst hugarfar og gildismat ráðandi afla.

Við krefjandi aðstæður kemur best í ljós úr hverju menn eru gerðir og hvað fyrir þeim vakir.

 

Síðasti pistill: Atvinnulausir þurfa mest á aukinni vernd að halda

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 16.3.2020 - 10:40 - FB ummæli ()

Atvinnulausir þurfa mest á aukinni vernd að halda

Í skammtíma efnahagskreppu eins og nú gengur yfir vegna Covid-19 veirunnar verða þeir sem missa vinnuna fyrir mestum þrengingum.

Þeir verða fyrir minnst 30% kjaraskerðingu með því að fara á atvinnuleysisbætur sem eru einungis 70% af fyrri heildarlaunum viðkomandi. Þær bætur eru einungis veittar í 3 mánuði og þá fara þeir sem áfram eru atvinnulausir á flatar bætur, sem nú eru einungis 289.510 kr. á mánuði miðað við 100% bótarétt.

Þá verður kjaraskerðingin miklu meiri.

Sá sem er t.d. með 580 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun missir helming tekna sinna eftir fyrstu 3 mánuði í atvinnuleysi.

Það er gríðarlegt áfall sem setur framfærslu fjölskyldunnar í kreppu. Afborganir lána eða húsaleigu verða mikið vandamál.

Þeir sem missa vinnuna, að fullu eða að hluta, eru því alla jafna í mestum vanda. Þá þyrfti að verja betur en núverandi atvinnuleysistryggingakerfi býður uppá, ef menn vilja að þeir beri ekki hlutfallslega mestar byrðar af kreppunni, sem þeir eiga svo sannarlega ekki sök á.

Og hverjir eru alla jafna í mestri hættu á að missa vinnu á samdráttartíma?

Jú, atvinnuleysi eykst venjulega mest hjá láglaunafólki.

Þeir sem halda fullum launum sínum í gegnum kreppuna þurfa hins vegar enga aðstoð við afborganir lána eða annars í framfærslu sinni.

Nú þarf því ekki að huga sérstaklega að skuldabyrði hjá almenningi, ólíkt því sem var í kjölfar fjármálakreppunnar 2008. Líkur á miklu verðbólguskoti eru litlar. Vextir eru að auki óvenju lágir.

 

Hvað þarf að gera?

Það eru því fyrst og fremst þeir sem missa vinnuna sem eru í brothættri stöðu og þeir eiga að vera í forgangi.

Það er best gert með því að tryggja þeim betri atvinnuleysisbætur á meðan kreppan gengur yfir, sem færir þeim helst fullar tekjur áfram. Þá geta þeir og fjölskyldur þeirra haldið lífi sínu og skuldbindingum í eðlilegu horfi. Siglt áfallalaust í gegnum kreppuna – ef heilsan leyfir.

Til að þetta markmið náist þarf að hækka launahlutfall atvinnuleysisbóta fyrstu 3 mánuðina úr 70% af fyrri heildarlaunum í 100%. Einnig þarf að halda því opnu að lengja bótatímabilið á tekjutengdum bótum ef uppsveiflan eftir að faraldurinn er genginn yfir tefst eitthvað, t.d. úr 3 mánuðum í 5 eða 6. Loks mætti hækka þakið á tekjutengdu bótunum upp í jafnvirði meðallauna.

Þá væri einnig æskilegt að þeir sem þegar eru orðnir atvinnulausir fái hækkun á flötu atvinnuleysisbótunum, til dæmis úr 289.510 kr. í 317.000 krónur, til jafns við lágmarkslaunatrygginguna. Flötu bæturnar eru alltof lágar í dag.

Reynslan af áhrifum fjármálakreppunnar 2008 á fjárhagsþrengingar almennings í 30 Evrópulöndum sýnir skýrlega að þar sem atvinnuleysisbótakerfið var veikara fyrir þar jukust fjárhagsþrengingar almennings mest (sjá ítarlega umfjöllun um það hér). Það er því til mikils að vinna með því að efla atvinnuleysisbæturnar.

Íslenska atvinnuleysisbótakerfið í núverandi mynd er ekki nógu öflugt til að veita fullnægjandi vernd í atvinnuleysiskreppu.

Þegar um er að ræða skammtímakreppu er tiltölulega ódýrt fyrir ríkið að efla varnir atvinnuleysisbótanna til skamms tíma. Þar með væri launafólk varið á viðunandi hátt og samfélagið stæði sterkar eftir.

Slíkar verndaraðgerðir má vel tengja við heimild fyrirtækja til að færa fólk tímabundið í hlutastarf og fá það sem vantar uppá full laun greitt úr atvinnuleysistryggingasjóði, en slíkt úrræði ásamt lengingu bótatímabilsins gafst vel í kjölfar hrunsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.2.2020 - 14:13 - FB ummæli ()

Efling hefur þjóðina með sér!

Ný könnun á viðhorfi almennings til baráttu Eflingar fyrir sérstakri leiðréttingu á kjörum láglaunakvenna er starfa við barnauppeldi og umönnun er afgerandi (sjá hér).

 

Viðhorf til Leiðréttingarinnar

Um 59% styðja kröfur Eflingar að öllu eða miklu leyti og önnur 20% styðja þær í meðallagi.

Samtals taka um 79% þjóðarinnar undir kröfur Eflingar.

Einungis 21% segjast styðja þær bara að litlu eða engu leyti.

 

Viðhorf til verkfallsaðgerða Eflingar

Um 56% eru mjög eða frekar hlynnt verkfallsaðgerðum Eflingar.

Um 19% til viðbótar segjast styðja þær í meðallagi.

Samtals eru það um 75% sem styðja verkfallsaðgerðirnar.

 

Eflingu hefur tekist að koma málstað sínum á framfæri þannig að þjóðin tekur undir.

Borgaryfirvöld segjast hafa sama markmið og Efling.

Er þá ekki komið að því að framkvæma?

 

Síðasti pistill: Furðulegt vanmat starfa við barnauppeldi og umönnun

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 16.2.2020 - 08:54 - FB ummæli ()

Furðulegt vanmat starfa við barnauppeldi og umönnun

Í deilu Eflingar við Reykjavíkurborg eru leikskólar og umönnunarstörf í brennidepli.

Störf á þessu sviði eru lægst metin til launa af öllum störfum á íslenska vinnumarkaðinum (sjá nánar hér).

Þá er ég að tala um grunnlaun + reglubundnar aukagreiðslur (t.d. álög og yfirvinnu), það er heildarlaun í hverjum mánuði.

Í töflunni hér að neðan má sjá nokkur dæmi um hið brenglaða mat á störfum við barnauppeldi og umönnun.

Störf við sorphreinsun gefa að meðaltali 576.000 krónur á mánuði í heildarlaun (allt meðtalið).

Háskólamenntaðir leikskólakennarar eru lægri, með 543.000 krónur, en ófaglærðir sem starfa við barnagæslu eru með 375.000 krónur – lang lægstir allra á vinnumarkaðinum.

Ef ófaglærður starfsmaður leikskóla færi að vinna á kassa í Bónus fengi hann 130.000 krónum meira á mánuði og ef hann færi í sorphreinsun þá fengi hann 201.000 krónum meira á mánuði.

Þessi munur á heildarlaunum er að stórum hluta vegna mismunandi aðgengis að aukagreiðslum í þessum störfum.

Allir hafa meiri aukagreiðslur en starfsfólk á leikskólum og við umönnun, það er í starfstengd álög, bónusa, yfirvinnu o.fl.

Það er raunar ævintýralegt það mat sem liggur til grundvallar þessum mun heildarlauna sem er á störfum við barnauppeldi og ýmsum öðrum störfum í neðri helmingi launastigans – hjá faglærðum jafnt sem ófaglærðum.

 

Lausnin á kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar

Í töflunni er líka að finna lykilinn að lausn kjaradeilunnar.

Annað hvort er fyrir borgina að samþykkja tillögu Eflingar að leiðréttingu, sem er hönnuð þannig að hún hafi ekki fordæmisgildi fyrir höfrungahlaup. Hún felur í sér hækkun launaflokka frá þeim lægstu sem fjarar svo út undir 450 þús. kr. mánaðarlaunum.

Hins vegar er að bæta ofaná kjarabætur lífskjarasamningsins verulega auknum álagi fyrir þessi tilteknu störf. Fyrirmynd að því getur borgin einfaldlega fundið í aukagreiðslum sem tíðkast í öðrum starfsgreinum, t.d. í töflunni hér að ofan.

Störf við leikskóla og umönnun þurfa að vera samkeppnishæf.

Hvernig væri t.d. að starfsfólk á leikskólum fengi sambærilegt álag og bónusa og sorphreinsunarfólk er með? Það myndi hækka laun ófaglærðra  á leikskólunum um 201.000 krónur á mánuði.

Staðreyndin er þó sú, að vegna þess hversu hófleg krafa Eflingar er, þá myndi helmingurinn af aukagreiðslum sorphreinsunarmanna hugsanlega leysa deiluna á leikskólunum og í umönnuninni.

Slíkt endurmat afmarkaðra hópa hefur ekkert fordæmisgildi fyrir hærra launaða hópa – og því á ekki að vera nein hætta á höfrungahlaupi upp launastigann.

Hvers vegna skyldu störf á leikskólum og við umönnun bera minnst úr býtum og ekki njóta svipaðra aukagreiðslna og margar aðrar starfsgreinar?

Efast nokkur um að þetta eru í senn mjög erfið og mikilvæg störf?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 3.2.2020 - 08:43 - FB ummæli ()

Leiðrétting Eflingar: Rök og skýringar

Samtök atvinnulífsins (SA) stilltu upp mjög villandi mynd af kröfum Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg í Fréttablaðinu í vikunni.

Þar fór saman skökk talnameðferð og mikið heimsendaraus um hættu á höfrungahlaupi og eyðileggingu Lífskjarasamningsins.

Ástæða er til að leiðrétta þetta gönuhlaup SA-manna og ritstjóra markaðskálfs Fréttablaðsins.

Megininntak leiðréttingarinnar sem Efling hefur lagt til við Reykjavíkurborg felst í því að endurskoða starfsmat fyrir algeng láglaunastörf hjá Reykjavíkurborg, sem einkum er sinnt af konum.

Þetta myndi lyfta þeim í launatöflunni sem eru á lægstu launum með sérstakri taxtahækkun á bilinu 20 til 50 þúsund.

Mest fá þau sem eru á lægstu launum og síðan fjarar leiðréttingin út við 450 þús. kr. á mánuði.

Það er því ekki um að ræða neina stigmögnun upp launastigann, hvorki vegna höfrungahlaups né neinna annarra íþróttagreina.

Áfram er virkur stígandi í launatöflunni, en bara ekki alveg jafn mikill og nú er. Þannig er það einmitt sem á að leiðrétta þá sem eru neðst í launastigum.

En hvers vegna er ástæða til að leiðrétta þennan hóp sérstaklega?

Í fyrsta lagi vegna þess að það er mjög erfitt að ná endum saman á þessum lægstu launum, einkum í Reykjavík þar sem húsnæðisverð er langhæst á landinu öllu.

Í öðru lagi er ástæðan sú að grunnlaun fyrir sambærileg störf eru heldur hærri á almennum markaði en hjá Reykjavíkurborg. Auk þess er meira um aukatekjur á almennum markaði í formi bónusa, álagsgreiðslna og yfirvinnu.

 

Samanburður á borg og almennum markaði

Muninn á grunnlaunum í völdum störfum hjá borginni og á almennum markaði má sjá á töflunni hér að neðan (t.d. í dálki 3).

Tölurnar eru í grunninn frá Hagstofunni fyrir almenna markaðinn en fyrir Reykjavíkurborg koma þær úr starfsmati og launatöflu borgarinnar (Heimild: Ragnar Ólason, sérfræðingur hjá Eflingu).

Tölurnar eru settar fram eins og þær verða eftir að hækkanir Lífskjarasamningsins eru að fullu komnar fram. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum hækkunum desember- og orlofsuppbóta.

Eins og sjá má í dálki 3 eru grunnlaun í þessum störfum á bilinu 27 til 80 þúsund krónum hærri á almennum markaði. Þannig er það nú og verður áfram eftir að hækkanir Lífskjarasamningsins koma til – að öðru óbreyttu.

Með leiðréttingunni fara lægri störfin hjá borginni aðeins framúr grunnlaunum sambærilegra starfa á almennum markaði (7 til 18 þús. kr. á mán. – sbr. dálkur 4), en það er til að bæta fyrir meiri möguleika á aukatekjum á almennum markaði vegna bónusa, álagsgreiðslna og vakta- og yfirvinnu.

Vel þekkt er að starfsfólk sveitarfélaga hefur í mörgum tilfellum mjög takmarkaðan aðgang að slíkum aukatekjum og er það skýring þess að það mælist jafnan með lægstu heildartekjur allra á íslenskum vinnumarkaði.

Þetta er því bæði þörf og málefnaleg leiðrétting sem Efling fer fram á fyrir láglaunafólkið hjá borginni.

 

Er hætta á höfrungahlaupi?

Þar sem leiðréttingin er bundin við afmarkað launabil og stiglækkandi að auki á ekki að vera hætta á smitun launahækkunarinnar upp launastigann.

Hins vegar er ástæða til þess að leiðréttingin nái einnig til meðlima Sameykis sem eru í sambærilegum störfum hjá borginni á sambærilegum kjörum.

Það fólk á sömuleiðis rétt á að fá jöfnun gagnvart markaðslaunum.

Í þessari leiðréttingu felst hins vegar ekkert fordæmi fyrir aðra launahærri hópa.

Þessu til viðbótar má hins vegar benda á að ríkið hefur þegar samið við nokkra hópa háskólamenntaðs starfsfólks með hækkunum í hæstu töxtum sem eru talsvert umfram hækkanir Lífskjarasamningsins (sjá hér).

SA-menn og vanstillti skrifarinn á Fréttablaðinu (Hörður Ægisson) hafa ekki gert athugasemdir við þetta, enda virðast þeir hafa meiri samúð með hálaunafólki en þeim sem verst standa.

 

Hefur borgin efni á þessari leiðréttingu?

Reykjavíkurborg afgreiddi fjárhagsáætlun sína fyrir árið 2020 með 2,5 milljarða afgangi.

Ef leiðréttingin kæmi að fullu til framkvæmda á þessu ári myndi hún kosta um 1,2 milljarða fyrir Eflingarfélaga og svipað fyrir Sameykis-fólk.

Heildarkostnaður yrði innan rekstaraafgangsins og ekki þarf því að koma til hækkunar skatta eða gjalda vegna þessa.

Þá gerir borgin ráð fyrir mun meiri afgangi á seinni árum samningstímans, sem einmitt er ástæða til að láta skila sér að hluta til láglaunafólksins hjá borginni – ekki síst ef borgaryfirvöld eru hlynnt jafnaðarstefnu.

Þetta er því auðvelt fyrir borgina að framkvæma og mun hjálpa til við lausn á langvarandi mönnunarvanda á leikskólum og víðar hjá borginni.

Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu-stéttarfélgi

 

Síðasti pistill: Nýfrjálshyggju Miltons Friedman hafnað í USA og DAVOS

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 27.1.2020 - 10:11 - FB ummæli ()

Nýfrjálshyggju Miltons Friedman hafnað í USA og DAVOS

Árið 1970 skrifaði nýfrjálshyggju-hagfræðingurinn Milton Friedman grein í New York Times Magazine um hlutverk fyrirtækja í samfélaginu, sem eftir var tekið (sjá hér).

Boðskapurinn var sá, að eina hlutverk fyrirtækja væri það að skila eigendum þeirra (hluthöfum) sem mestum gróða.

Fyrirtæki hefðu engar skyldur gagnvart starfsmönnum sínum, viðskiptavinum, birgjum, neytendum eða samfélaginu almennt.

Allt tal um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja er einfaldlega sósíalismi, sagði Friedman!

Þó samfélagið skaffaði fyrirtækjum vegi, hafnir, flugvelli, menntað starfslið, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og veitti þeim aðgang að sameiginlegum auðlindum þá skipti það engu máli.

Gróðinn skyldi bara renna til “eigenda” fyrirtækjanna.

Þessi nýfrjálshyggjuboðskapur Friedmans náði smám saman útbreiðslu á Vesturlöndum og gekk undir nafninu „the shareholder view of capitalism“.

Þetta var kapítalismi fyrir ríkasta eina prósentið – og yfirleitt enga aðra.

Þarna voru komin hin hagfræðilegu rök fyrir græðgisvæðingunni sem fylgdi nýfrjálshyggjunni og sem gat af sér pólitískar breytingar er leiddu til verulega aukins ójafnaðar á síðustu 30-40 árum, eins og Piketty og félagar, OECD og fleiri alþjóðastofnanir og fræðimenn hafa ítrekað sýnt.

Þessar hugmyndir greiddu götu óheftari markaðshyggju, aukinna skattfríðinda fyrir hátekju- og stóreignafólk, aukinnar einkavæðingar og fjandsamlegri afstöðu gagnvart velferðarríkinu.

Hagsmunir auðmanna voru í fyrirrúmi. Og almenningi var talin trú um að vænar brauðmylsnur myndu falla niður til þeirra af veisluborðum auðmanna.

Það reyndist vera blekkingin ein.

Aukinn ójöfnuður var rökrétt afleiðing.

 

Viðskiptaráð Bandaríkjanna hafnar nú sjónarmiði Friedmans

Viðskiptaráð Bandaríkjanna (US Business Roundtable) gerðist snemma einn helsti fylgjandi og boðberi þessarar nýfrjálshyggju Friedmans þar vestra, frá og með árinu 1978.

Á Íslandi varð Viðskiptaráð Íslands sömuleiðis einn róttækasti talsmaður nýfrjálshyggjunnar, ásamt Samtökum atvinnulífsins og forystu Sjálfstæðisflokksins, einkum frá og með tíunda áratugnum.

Í ágúst sl. urðu þau miklu tíðindi að Viðskiptaráð Bandaríkjanna hafnaði loks þessari kreddu nýfrjálshyggjunnar og lagðist á sveif með talsmönnum samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja, sem kölluð er „the stakeholder view of capitalism“ (sjá hér).

Fyrirtæki eiga nú að þjóna öllum, en ekki bara fámennri yfirstétt hluthafa eða auðmanna, segir Viðskiptaráð Bandaríkjanna. Fyrirtæki skuli bera ábyrgð gagnvart starfsmönnum sínum, viðskiptavinum, birgjum, neytendum og einfaldlega samfélaginu öllu.

Þessi umsnúningur er merkilegur vegna þess að þarna er ekki um einhverja gagnrýnendur eða fræðimenn að ræða, heldur fulltrúa allra helstu stórfyrirtækja Bandaríkjanna. Fulltrúa ríkasta eina prósentsins.

Þetta er viðbragð elítunnar í atvinnulífinu við vaxandi tilfinningu almennings á Vesturlöndum fyrir því að kapítalisminn sé ekki lengur fyrir almenning heldur bara fyrir fámenna yfirstétt. Þetta tengist einnig vaxandi áhyggjum af umhverfismálum.

Þarna hafa því orðið mikil tímamót í höfuðvígi bandaríska kapítalismans.

 

Davos lokar líka á nýfrjálshyggju Friedmans

En vindurinn snýst nú víðar gegn nýfrjálshyggjunni en í Bandaríkjunum.

Í Davos í Sviss fundar nú heimselíta viðskipta og stjórnmála, eins og verið hefur sl. 50 ár, á ráðstefnu World Economic Forum.

Klaus Schwab, stofnandi og stjórnandi World Economic Forum, hefur lengi verið talsmaður „stakeholder capitalisma“, þó það sjónarmið hans hafi ekki verið ríkjandi í Davos til þessa, enda nýfrjálshyggjan yfirleitt efst í hugum þeirra viðskiptajöfra og stjórnmálamanna sem þar hafa mætt.

En nú er öldin önnur í Davos!

„Stakeholder capitalism“ með samfélagslega ábyrgð og almannahag að leiðarljósi er nú mjög áberandi á dagskránni og Klaus Schwab sjálfur skrifaði kröftuga grein gegn sjónarmiðum Miltons Friedman í tímaritið Foreign Affairs í síðustu viku (sjá hér).

Greinina kallar hann: “Kapítalisminn verður að breytast til að lifa af”. Með skýrum hætti hafnar hann sjónarmiði Friedmans og boðar félagslegri kapítalisma, sem betur þjóni hagsmunum almennings og samfélagsins.

Klaus Schwab talar opinskátt um að nýfrjálshyggjutími síðustu fjögurra áratuga hafi stóraukið ójöfnuð og skaðað bæði samfélög og umhverfi.

Þess vegna verði kapítalisminn að breytast – ekki seinna en strax!

 

Endalok nýfrjálshyggjutímans?

Þetta eru svo mögnuð umskipti í sjónarmiðum hjá þessum talsmönnum fyrirtækja og kapítalisma, elítu efnahagslífsins, að spyrja má hvort þetta sé bara fagurgali til að kaupa vinsældir og slá ryki í augu almennings?

Sjálfsagt er að hafa fyrirvara á þessu og spyrja um efndir. Yfirstéttin er líklega mest að hugsa um að bjarga kapítalismanum frá sjálfum sér – draga úr mesta óhófinu.

Hins vegar er það óneitanlega mikilvægt að rétttrúaðir nýfrjálshyggjumenn skuli nú viðurkenna opinberlega að þeir séu að ganga af trúnni.

Það er nýtt!

Og það er til marks um hve afleit reynslan af nýfrjálshyggjutímanum hefur verið fyrir almenning – aðra en elítuna.

Vinstri- og miðjustjórnmál og allir gagnrýnendur nýfrjálshyggjunnar þurfa nú að sigla skipinu alla leið í höfn og tryggja endalok þessara neikvæðu áhrifa Friedmans og söfnuða hans.

Menn geta gert það í nafni þess að innleiða á ný blandaða hagkerfið sem var ríkjandi á Vesturlöndum frá lokum seinni heimsstyrjaldar til um 1980 og sem þjónaði almenningi mun betur en hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar hefur gert.

Eða bara til að byggja betra og sjálfbært samfélag fyrir alla.

Til mikils er að vinna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 17.1.2020 - 09:48 - FB ummæli ()

Ekkert ógnar Guðna – nema helst fiskikóngurinn!

Það er mikil ánægja með störf Guðna forseta.

Um 80% kjósenda segjast vera ánægðir með störf hans.

Að öðru jöfnu ætti þetta að þýða að enginn gæti ógnað honum í forsetakjörinu í sumar.

Það væri þá helst ef fiskikóngurinn myndi gefa kost á sér.

Sá er með atkvæðamestu mönnum landsins.

Fulltrúi glaðværðar og hollustu og nálægur á hverjum degi í auglýsingatímum ríkisútvarpsins.

Hann yrði án efa sterkur frambjóðandi…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 11.1.2020 - 19:48 - FB ummæli ()

Strákarnir ævintýralega góðir!

Leikurinn við Dani í dag var alger draumaleikur.

Danir eru bæði Ólympíu- og heimsmeistarar í handbolta.

Þeir eru með eitt albesta lið heimsins um þessar mundir.

Þeir töpuðu ekki vegna þess að þeir hefðu brugðist eða verið lélegir.

Nei, þeir töpuðu vegna þess að íslenska liðið var frábært.

Sigur hefði svo sem geta fallið á hvorn veg sem var.

Það er út af fyrir sig gott fyrir Ísland.

En strákarnir náðu að sigra, sem er enn betra.

Voru frábærir út í gegn.

Fyrir Guðmund þjálfara, sem gerði Dani að því meistaraliði sem þeir eru, er þetta einstakur sigur.

Mér sýnist að þessi leikur fari mjög framarlega í sögubækurnar.

Og mikið rosalega var gaman að horfa á hann – frá byrjun til enda…

 

Og ekki var það síðra í Rússaleiknum…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 30.12.2019 - 11:51 - FB ummæli ()

Skattar lágtekjufólks lækka um áramótin

Það var ein af mikilvægustu forsendum Lífskjarasamningsins að stjórnvöld myndu lækka tekjuskatt láglaunafólks um a.m.k. 10.000 krónur á mánuði, eða um 120 þúsund krónur á ári.

Nú um áramótin kemur þriðjungur þessarar lækkunar til framkvæmda.

Í byrjun næsta árs verður lækkunin svo að fullu komin til framkvæmda.

Verkalýðshreyfingin lagði ríka áherslu á þetta.

Enda er þetta mikilvæg kjarabót, einkum fyrir lágtekjufólk, og raunar mun verðmætari en tíu þúsund króna launahækkun (af henni tekur ríkið strax staðgreiðslu uppá minnst 37%).

Í kjarasamningunum sem gerðir voru árið 2015 var samið um ágætar launahækkanir en þá rýrði ríkið persónuafsláttinn, árlega allan samningstímann (2015 til 2018).

Þetta jók skattbyrði allra, en þó langmest hjá þeim sem voru á lægstu laununum (sjá hér).

Þannig tók ríkið umtalsverðan hluta af kaupmáttaraukanum sem átti að renna til lágtekjufólks.

Slíkt mun ekki gerast á samningstíma Lífskjarasamningsins (2019-2022).

Þvert á móti bætist alvöru skattalækkun við kauphækkanir og aðrar kjarabætur sem í samningnum eru.

Mest kemur í hlut þeirra lægst launuðu. Skattalækkunin minnkar svo með hækkandi tekjum og skilar litlu sem engu til þeirra sem hafa meira en milljón í tekjur á mánuði.

Þannig er Lífskjarasamningurinn jafnaðarsamningur.

Tekjuskiptingin á Íslandi mun því jafnast á næstu þremur árum, að öðru óbreyttu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 10.12.2019 - 20:01 - FB ummæli ()

Æðsta ósk Sjálfstæðismanna að skaða RÚV

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sitt um stuðning við einkarekna fjölmiðla.

Eftir því hefur lengi verið beðið, enda er staða þessara fjölmiðla erfið.

Þegar þessum áfanga er nú náð vekur mikla athygli að Sjálfstæðismenn beita sér af krafti gegn framgangi málsins, og segja það jafnvel andvana fætt.

Hvers vegna skyldi það vera?

Ekki er það vegna þess að Sjálfstæðismenn séu andvígir því að ríkið styðji við einkarekstur af ýmsum toga. Slíkt hafa þeir sjálfir gert nær linnulaust í áratugi og í ýmsum myndum – frá landbúnaði til sjávarútvegs og ferðaþjónustu, svo örfá dæmi séu nefnd.

Nei, það er ekki þess vegna – og þeir tala alveg skýrt um raunverulegu ástæðuna.

Hún er sú, að þeir ætla að nota sér einhvers konar samningsstöðu um þetta mál til að veikja RÚV stórlega.

Helst vilja þeir taka RÚV alveg af auglýsingamarkaði og alls ekki bæta því tekjumissinn.

Þeir vilja sem sagt skera RÚV niður við trog og helst losna alveg við það.

Þetta segja þeir tæpitungulaust.

Hatur margra forystumanna Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins á RÚV hefur auðvitað ekki farið framhjá neinum.

Og ekki hafa uppljóstranir um Panama- og Samherjaskjölin dregið úr þeirri afstöðu Sjálfstæðismanna.

 

Hvað vill almenningur?

Það að Sjálfstæðismenn skuli vera reiðubúnir til að taka hið ágæta mál Lilju í gíslingu af þessari ástæðu segir margt.

Ekki er þetta gert í þágu almennings.

Nei! Almenningur vill gjarnan hafa öflugt RÚV með fjölþætt hlutverk.

Almenningur vill líka hafa þróttmikla einkarekna íslenska fjölmiðlaflóru, þ.m.t. vandaða netmiðla eins og t.d. Kjarnann, Vísi og Stundina.

Leið Lilju er að efla þá einkareknu núna en halda RÚV á svipuðu róli.

Hún vill styrkja íslenskt fjölmiðlaumhverfi almennt gegn samkeppni frá erlendum efnisveitum, sem taka nú sífellt stærri hluta af auglýsingatekjum sem héðan koma. Með leið Lilju er íslensk menning efld.

Það er örugglega sú leið sem flestum kjósendum hugnast.

Þetta er líka sú leið sem samtökum auglýsingastofa hugnast.

Sjálfstæðismenn eru hins vegar ekki að vinna fyrir almenning í þessu máli.

Tilgangur þeirra er allur annar og skuggalegri.

 

Síðasti pistill: Ójafnaðarmenn vega að Piketty

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.12.2019 - 14:16 - FB ummæli ()

Ójafnaðarmenn vega að Piketty

Breska tímaritið Economist sagði frá því í grein í síðustu viku að meðal fræðimanna sem rannsakað hafa ójöfnuð tekna og eigna á Vesturlöndum séu uppi deilur um einstakar mælingaraðferðir og að rætt sé um að slíkt geti breytt niðurstöðum sem hingað til hafi verið teknar sem gildar.

Því er sérstaklega slegið fram að niðurstöður Thomasar Piketty og samstarfsmanna hans um aukningu ójafnaðar í nútímasamfélögum séu ýktar og jafnvel ýjað að því að þær standist ekki.

Tímaritið bætir að vísu við fyrirvara um að raddir gagnrýnenda Pikettys og félaga séu ekki endilega réttar.

Hér uppi á Íslandi tók Morgunblaðið kipp og birti grein og svo leiðara um að nú stæði ekki lengur steinn yfir steini í niðurstöðum Pikettys og félaga og reifaði einnig þá skoðun að ójöfnuður gæti verið mjög gagnlegur í samfélaginu.

Mest er þetta þó stormur í vatnsglasi.

Sú umræða um álitamál í mælingum sem Economist segir frá er hvorki ný né heldur hefur hún velt neinum björgum í niðurstöðum rannsókna á ójöfnuði tekna og eigna.

Allar megin niðurstöður Piketty og félaga stranda lítt haggaðar.

 

Um hvað er rætt?

Um er að ræða eðlilegar tilraunir og umræðu um mælingar og athuganir í rannsóknarheiminum sem hafa komið upp á yfirborðið í kjölfar þess að hin áhrifamikla bók Pikettys, Capital in the Twenty-First Century, kom út árið 2014.

Menn velta fyrir sér hvort einstakar mælingaraðferðir séu þær heppilegust eða að einhverju leyti takmarkaðar og menn velta fyrir sér áreiðanleika gagna. Svo prufa menn aðrar aðferðir og önnur gögn og rýna niðurstöður upp á nýtt. Öll er slík endurskoðun sjálfsögð og af hinu góða.

Ef ekki væri tekið á svo áhrifamiklum rannsóknarverkum eins og Piketty og tugir samstarfsmanna hans um allan heim hafa komið fram með frá um 1993 til þessa árs þá væri eitthvað að í rannsóknarheiminum.

Það er jú ein af grundvallarforsendum hinnar vísindalegu aðferðar að menn sannreyni mælingar og niðurstöður hvers annars. Traustar niðurstöður þurfa til lengdar að standast slíkar gagnrýnar athuganir frá vísindasamfélaginu.

Allt hefur þetta þó verið samkvæmt áætlun. Efasemdaraddir og nýjar tilraunir hafa komið fram en meginmynstur niðurstaðna standa þó lítt breytt, þó annað megi ætla af umfjöllun  Morgunblaðsins.

Raunar hafa bæði Piketty og félagar og aðrir sérfræðingar á þessu sviði lengi fjallað um áhrif mismunandi mælingaraðferða og mismunandi gagna sem til grundvallar eru lögð.

Piketty og félagar hafa bæði svarað sumum af þessum atriðum sem Economist nefnir og jafnvel lagt til ýmis frekari nýmæli í rannsóknaraðferðum á allra síðustu árum (t.d. svokallaða „distributional national accounts“), sem fela í sér framfarir og aukinn áreiðanleika í þjóðhagsreikningaskilum og rannsóknum á tekjuskiptingu.

Þá hafa þessir aðilar lagt fram mikið af nýjum gögnum um áhrif skattkerfa og skattaskjóla á tekju- og eignadreifingu (einkum Gabriel Zucman og Emmanuel Saez), sem sömuleiðis auka áreiðanleika og skilning.

Ágætt yfirlit um almennar niðurstöður um þróun ójafnaðar í heiminum má finna í World Inequality Report 2018 (hér).

Rétt er líka að halda til haga að þó samstarfsmenn Pikettys séu stór hópur þekktra sérfræðinga á sviðinu frá öllum helstu löndum jarðarinnar, þá hafa aðrir marktækir aðilar og stofnanir komist að svipuðum niðurstöðum, til dæmis OECD, Congressional Budget Office í USA (óháð úttektarstofnun bandaríska þingsins), Luxembourg Incomes Study stofnunin (LIS) og Eurostat, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Mikið þarf því til ef takast á að snúa niðurstöðum Piketty og félaga á haus!

 

Tæknileg atriði

Skoðum lítillega atriði sem nefnd eru í ofangreindri grein í Economist.

Sagt er að með mismunandi tekjuhugtökum fáist ólíkar niðurstöður. Til dæmis mælist minni aukning ójafnaðar í sumum löndum ef miðað er við ráðstöfunartekjur eftir skatta og bætur en með heildartekjum fyrir skatta og bætur.

Flestir rannsakendur á sviðinu skoða hvoru tveggja og raunar fleiri tekjuhugtök (sjá t.d. bókina Ójöfnuður á Íslandi: Dreifing tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi, sem út kom 2017). Þetta hefur því alltaf verið inni í myndinni, bæði hjá Piketty og flestum öðrum.

Sagt er að öllu breyti hvort miðað sé við fjölskyldur eða einstaklinga, vegna breyttrar hjúskapartíðni í seinni tíð. Þetta hefur einnig alltaf verið inni í myndinni hjá mörgum rannsakendum (sjá t.d. umfjöllun um þetta í Ójöfnuður á Íslandi).

Sagt er að taka eigi tillit til velferðarþjónustu (t.d. Medicaid í USA). Það er að vísu ekki sjálfgefið að jafna eigi velferðarþjónustu við árlegar tekjur, en tilvist opinberra velferðarkerfa dregur úr ójafnaðarstigi í flestum löndum. Það breytir þó ekki meginmynstrum ójafnaðar. Sjá t.d. umfjöllun um þetta í bókinni Ójöfnuður á Íslandi.

Sagt er að skattaleg meðferð ólíkra tekjuþátta og eigna hafi áhrif. Þetta hefur alla jafna verið inni í rannsóknum á skiptingu tekna og eigna. Sjá t.d. ítarlega umfjöllun um þetta í tilviki Íslands í bókinni Ójöfnuður á Íslandi.

Sagt er að skattaundanskot og notkun skattaskjóla skipti máli fyrir ójafnaðarmælingar. Það er vissulega rétt og fáir hafa gert meira til að varpa ljósi á þessa þætti en samstarfsmenn Pikettys (einkum Zucman og Saez). Þau göt sem þessu tengjast fela reyndar oftast í sér mestar líkur á vanmati ójafnaðar því þeir tekjuhæstu og eignamestu eru helstu notendur skattaskjóla.

Sagt er að horft sé framhjá því í rannsóknum á tekjuskiptingu að tekjur fólks breytist yfir starfsferilinn og að fólk færist upp tekjustigann í samfélaginu. Rannsóknir á ójöfnuði draga sérstaklega fram mun milli efstu, mið og lægstu tekna. Breidd og einkenni skiptingarinnar á hverjum tíma. Því fylgir þó engin forsenda um að sömu einstaklingarnir séu á svipuðum stað í tekjustiganum til lengri tíma, þó það eigi reyndar við um flesta.

Raunar eru helstu tíðindi af hreyfanleika um tekjustigann þau, að úr tækifærum til að vinna sig upp hefur dregið mikið í Bandaríkjunum og Bretlandi í seinni tíð. Norrænu velferðarríkin koma betur út sem „lönd tækifæranna“ nú til dags.

Sagt er að niðurstöður um eignaskiptingu séu veikari og bjóði ekki upp á eins ábyggilegar niðurstöður og tekjugögn. Það er rétt og þess vegna þarf ætíð að hafa meiri fyrirvara um ójöfnuð eigna en ójöfnuð tekna, en enginn sérfræðingur á þessu sviði efast um að ójöfnuður eigna er mun meiri en ójöfnuður tekna.

Fáir hafa betur gert grein fyrir þessum tæknilegu vandamálum en einmitt Thomas Piketty og félagar. Um leið hafa þeir unnið þrekvirki í að auka aðgengi að mikilvægum opinberum gögnum um bæði tekjur og eignir, ekki síst gögnum um langtímaþróun ójafnaðar.

 

Niðurlag

Tímaritið Economist er gamalgróið og hefur lengst af átt samleið með fjármagnseigendum í skoðunum sínum. Það hefur í senn verið íhaldssamt og hægri sinnað í pólitík.

Það kom því á óvart fyrir nokkrum árum, í kjölfar fjármálakreppunnar sem hófst 2008, að tímaritið fór í auknum mæli að fjalla um neikvæð áhrif ójafnaðar á hagvöxt og mikilvægi þess að stemma stigu við auknum ójöfnuði.

Meðal annars birti tímaritið óvenju jákvæðan greinaflokk um farsæla sambúð jafnaðar og hagsældarþróunar í norrænum samfélaglögum.

Nú virðist gamli tíminn þó vera að snúa til baka hjá Economist tímaritinu.

Sennilega ræður mestu um það að nú eru vaxandi kröfur um aukna skattlagningu hæstu tekna og mestu eigna í Bandaríkjunum og Bretlandi og víðar. Þetta er oft réttlætt með tilvísunum til niðurstaðna um gríðarlegan vöxt ójafnaðar – og koma nöfn Pikettys og félaga þar oft við sögu.

Til dæmis vísa Bernie Sanders og Elisabeth Warren gjarnan til þessa í stefnumálum sínum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Hjarta Economist slær augljóslega enn að mestu til hægri. Umhyggjan fyrir hagsmunum fjármálaaflanna og elítunnar sem fleytt hefur rjómann ofanaf hagvaxtarkökunni á síðustu áratugum er augljóslega enn til staðar á ritstjórnarskrifstofum Economist (og Morgunblaðsins).

Flest af því sem nefnt hefur verið sem gagnrýni á niðurstöður Pikettys og félaga og annarra aðila á sviði ójafnaðarrannsókna hefur verið til umfjöllunar og breytir litlu sem engu um megin niðurstöður.

Þeir sem una því illa að almenningur í vestrænum löndum amist við vaxandi ójöfnuði þurfa að bíða þess að raunveruleg þróun tekjuójafnaðar snúist við áður en að þeim verður að ósk sinni um að ójöfnuður verði tekinn af dagskrá stjórnmálanna.

Ritstjórar Economist virðast átta sig á þessu, því undir lok greinar sinnar segja þeir, að jafnvel þó ójöfnuður hafi aukist eitthvað minna en Piketty og félagar segja, þá sé bilið milli ríkra og fátækra „óþægilega“ mikið og margt sé vissulega að í kapítalisma samtímans sem taka þurfi á.

Já, það hvessti aðeins í vatnsglasinu í síðustu viku, en engin alvöru viðvörun var þó gefin út!

Allir haldi því ró sinni og yfirvegun á aðventunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 24.11.2019 - 13:43 - FB ummæli ()

Kvótakerfið er bara fyrir stóra útvegsmenn

Það er ekki umdeilt að kvótakerfinu fylgdi aukin hagkvæmni.

Með því að fækka útvegsaðilum og stækka hlut hvers af heildarveiðum þá batnar hagur þeirra fyrirtækja sem fá að veiða.

Það segir sig sjálft.

Þetta fólst í kvótakerfinu.

Með því myndaðist mikill auður sem safnaðist hefur á sífellt færri hendur á tíma kvótakerfisins (1984 til nútímans).

Örfáir eigendur stærstu útvegsfyrirtækja fara í dag með meirihluta veiðiheimildanna.

Þetta er miklu meiri samþjöppun en nokkurn óraði fyrir við upphaf kvótakerfisins.

Kvóti hefur flust frá fjölda byggðarlaga sem liggja vel við sjósókn – með tilheyrandi tjóni fyrir íbúa og samfélag (sjá t.d. hér).

Á sama tíma hefur mikil auðsöfnun stærstu útvegsmanna aukið vald þeirra stórlega.

Eignamyndun og arðgreiðslur út úr sjávarútvegsfyrirtækjum hafa verið svo miklar eftir hrun að útvegsmenn eru í stórum stíl að kaupa upp áhrifamikil fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum (olíufélög, flutningafyrirtæki, verslanir, fjölmiðla o.fl.).

Með sama áframhaldi munu fáir útvegsmenn eignast flest sem máli skiptir í íslensku samfélagi – ásamt nokkrum fjáraflabröskurum (sjá t.d. hér).

Slík samþjöppun auðs og valds grefur undan lýðræði og eykur spillingu.

Þannig sprettur mikið ójafnvægi og óréttlæti af kvótakerfinu (sjá t.d. hér).

Það var hannað til að fáir einstaklingar gætu fengið stærri hluta af auðlindarentunni – og orðið vellauðugir.

Á þetta var bent á fyrstu árum kerfisins og það hefur svo sannarlega gengið eftir.

Þetta kallar á grundvallarbreytingar sem færa ávinning kvótakerfisins mun betur til þjóðarinnar en nú er.

Þrengja þarf að frelsi útvegsmanna og auka frelsi almennings.

Þrengja þarf að auðsöfnun útvegsmanna og bæta hag fjöldans.

Kvótakerfið í núverandi mynd er bara fyrir stóra og vellauðuga útvegsmenn.

 

Síðasti pistill: Samherji rannsakar sig sjálfur!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 15.11.2019 - 12:14 - FB ummæli ()

Samherji rannsakar sig sjálfur!

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnenda Samherja eftir að óvænt innsýn í starfshætti þeirra birtist almenningi í vandaðri umfjöllun Kveiks og Stundarinnar.

Fyrstu viðbrögð Samherja komu reyndar fram áður en gögn Kveiks og Stundarinnar birtust, í formi yfirlýsingar frá fyrirtækinu (sem augljóslega vissi hvað var í vændum).

Þau voru hvorki stórbrotin né veigamikil.

 

Fyrstu viðbrögð

Í yfirlýsingu Samherja var reynt að telja fólki trú um að uppljóstrarinn hefði verið einn að verki og bæri einn ábyrgðina á því ef eitthvað kynni að hafa misfarist í Namibíu.

Rétt eins og hann hefði haft heimildir til að greiða sjálfur út af reikningum Samherja hundruð milljóna króna inn á reikninga mútuþega í Dúbaí – án þess að stjórnendur Samherja tækju eftir slíkum sjóðaleka út úr fyrirtækinu!

Þetta gat aldrei orðið trúverðugt.

Birt gögn frá fundum forystumanna fyrirtækisins og tölvupóstum sáu um það.

Ekki bætti svo úr skák að mútugreiðslurnar héldu áfram af fullum krafti allt fram á þetta ár, löngu eftir að uppljóstrarinn hugrakki hafði verið rekinn frá fyrirtækinu.

Þetta var sem sagt misheppnuð magalending – beinlínis brotlending!

Skilaði fyrirtækinu engu og því ljóst að teikna yrði upp nýjan varnarleik.

 

Næstu viðbrögð

Þá var gripið til þess að leigja norska lögfræðistofu til að „rannsaka“ málið innan Samherja. Stjórn fyrirtækisins „myndi sjá til að það yrði gert“ og niðurstöður kynntar almenningi.

Þetta er auðvitað kostulegt. Að ætla að rannsaka sekt sína sjálfir!

Lögfræðistofur, hvort sem þær eru norskar eða íslenskar, eru ekki sjálfstæðar og óháðar rannsóknarstofnanir.

Menn kaupa þjónustu lögfræðistofa til að gæta hagsmuna sinna.

Þetta er sem sagt hönnun málsvarnarinnar – en ekki óháð úttekt.

Svo láta menn í fjölmiðlum eins og að þannig verði málið afgreitt og vona að með því takist að koma hneykslinu úr augsýn aftur.

Lægja öldurnar – eins og forstjórinn segir.

Þetta er væntanlega gert á forsendum langrar reynslu Samherja, sem hefur haft mikið vald og áhrif á stjórnvöld, hvort sem er í Namibíu eða á Íslandi.

Þeir reikna með að komast upp með þetta.

 

Fyrir hvern vinna stjórnvöld nú?

Maður óttast að vegna mikils áhrifavalds stórfyrirtækja eins og Samherja þá muni þetta mál hafa lágmarksafleiðingar í íslensku samfélagi.

Stjórnvöld eru nú að lækka veiðileyfagjöldin um nærri helming milli ára – þrátt fyrir að þau hafi verið alltof lág á gríðarlegum veltiárum sjávarútvegs eftir hrun.

Samherji og önnur stór sjávarútvegsfyrirtæki hafa byggt upp svo miklar eignir frá hruni að fyrir þeim liggur að kaupa smám saman allt sem máli skiptir á Íslandi.

Er það trúverðugt að stjórnvöld sem þannig beygja sig undir peningahagsmuni eigenda stórfyrirtækja muni tryggja faglega og ákveðna úttekt á mútugreiðslum og skattsvikum sem þessir aðilar stunda?

Ég nefni bara eitt dæmi til viðbótar um linkind stjórnvalda gagnvart slíkum aðilum eins og Samherji er.

Um árabil hefur kvóti Samherja og skyldra fyrirtækja verið yfir lögbundnu leyfðu hámarki heildarkvóta (sem lögum samkvæmt er í eigu þjóðarinnar).

Þetta hefur verið látið viðgangast í kyrrþey – eins og ekkert sé.

Fjölda skyldra dæma um linkind stjórnvalda má auðvitað nefna: óeðlileg verðmyndun á lönduðum afla; brottkast; brot á kjarasamningum; notkun erlendra skattaskjóla, óeðlilega lág skattheimta af fjármagnstekjum, o.s.frv.

Mikið mun þurfa til að á þessu hneyksli Samherja verði tekið á heilbrigðan hátt hér á landi.

Kannski Namibíu-menn taki fastar á þessu sín megin en við hér á Íslandi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.11.2019 - 15:27 - FB ummæli ()

Ratcliffe felur eignarhald sitt

Breski stóreignamaðurinn Jim Ratcliffe á um það bil helmingi fleiri laxveiðijarðir en áður var talið.

Þetta kom í ljós við athugum rannsóknarblaðamanna Kveiks á RÚV.

Menn vissu auðvitað að Ratcliffe hefur verið atkvæðamikill á norðaustur landi og töldu það að mestu bundið við Vopnafjörð.

Nú er sem sagt komið í ljós að hann er kominn mun lengra í uppkaupum hlunnindajarða en menn töldu, með um 40 jarðir á sínum vegum.

 

Hvers vegna er eignarhald jarða falið?

Það er sérstaklega athyglisvert að Ratcliffe felur eignarhald sitt, með því að skrá jarðir sínar í félög eða keðjur félaga.

Hann á nú nálægt 1,5% af Íslandi. Hugsanlega á hann enn meira, sem einfaldlega á eftir að koma úr felum.

Sú staðreynd að erlendur stóreignamaður skuli fela eignarhald sitt á íslenskum jarðareignum vekur auðvitað alvarlegar spurningar.

Hann virðist átta sig á því að þjóðin gæti haft eitthvað við mikla uppsöfnun landareigna á fáar erlendar hendur að athuga.

Það er að segja ef þjóðin vaknar áður en of langt er gengið…

 

Hverjir eiga Ísland í dag?

Stóreignamenn, erlendir sem innlendir, kaupa auðvitað jarðir víðar en á Vopnafjarðarsvæðinu.

Við vitum bara lítið um það hvernig eignarhaldi á Íslandi er nú háttað.

Kanski vöknum við upp við það eftir nokkur ár að fámennur hópur stóreignamanna eigi allt það sem álitlegast er á Íslandi.

Þjóðin gæti orðið landlaus leiguliði í því sem áður var land íslensku þjóðarinnar!

Aðstæður eru nú þannig að slíkt getur gerst á tiltölulega skömmum tíma.

Pælið í því!

Væri slík þróun ekki ógn við frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar