Föstudagur 28.8.2020 - 11:00 - FB ummæli ()

Hvers vegna gerir ríkið ekki meira?

Ein af afleiðingum Kóvid-kreppunnar er sú að skuldastaða ríkja versnar. Þar sem verst hefur gengið að halda veirunni í skefjum þar munu skuldir aukast mest.

Til dæmis telur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að skuldir bandaríska ríkisins hækki um meira en 20% af landsframleiðslu, úr 109% í fyrra upp í um 131% í lok yfirstandandi árs.

 

Óvenju létt skuldastaða íslenska ríkisins

Til samanburðar telur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að skuldir íslenska ríkisins aukist einungis úr um 35% í um 41%, eða rétt um 6 %-stig. Staða Íslands er þannig öll önnur og betri en staða Bandaríkjanna, sem hafa haldið illa á málum í baráttunni við veiruna. Raunar stöndum við óvenju vel miðað við önnur vestræn hagsældarríki.

Myndin hér að neðan sýnir samanburð á þróun skuldastöðu íslenska ríkisins við meðaltöl helstu hópa ríkja: hagsældarríkin; nýmarkaðsríkin og lágtekjuríki þróunarlandanna. Gögnin koma frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og eru samræmd. Þau ná aðeins til ríkisskulda en ekki til sveitarfélaga. Skuldir eru sýndar sem hlutfall af landsframleiðslu.

Ríkisskuldir Íslands höfðu verið á niðurleið áratuginn fram að fjármálahruninu 2008. Við hrunið og á fyrstu árunum eftir það stórjukust skuldir ríkisins, einkum vegna mikils kostnaðar við endurreisn seðlabankans og viðskiptabanka, vegna tekjufalls og vegna aukinna útgjalda til atvinnuleysisbóta. Á uppsveiflunni eftir 2011 lækkuðu skuldirnar svo aftur stórlega og voru með því lægsta sem sást í hópi hagsældarríkjanna áður en Kóvid-kreppan skall á.

Á myndinni má svo sjá hvernig aukning ríkisskulda vegna Kóvid-kreppunnar er lítil hér á landi í samanburði við það sem almennt tíðkast í hagsældarríkjunum (efsta línan á myndinni), sem almennt eru á miklu hærra skuldastigi en við.

Þetta þýðir að Ísland er með ríkisfjármál í góðri stöðu sem skapar góða möguleika á að milda áhrif efnahagskreppunnar stórlega, sem og að byggja upp á skynsamlegum nótum. Lærdómur af fyrri kreppum sögunnar er sá, að ríkisvaldið þarf að vera í lykilhlutverki ef vel á til að takast.

Ríkisvaldið brást vissulega við með mótvægisaðgerðum 21. mars. Stærð aðgerðanna var þá metin á 230 milljarða, en minnihluti þess voru bein útgjöld ríkisins. Sumt var frestun á skattgreiðslum, annað úttektir almennings á séreignasparnaði (sem jók skatttekjur ríkisins). Fleiri aðgerðir bættust síðar við.

Á heildina litið er útgjaldabyrði og tekjutap íslenska ríkisins þó hóflegt að umfangi samanborið við önnur vestræn hagsældarríki, eins og sést af hóflegri aukningu ríkisskuldanna hér á landi.

Ríkið hefur það þess vegna í hendi sér að taka fastar á og milda áhrif kreppunnar enn betur.

 

Það sem gera þarf í kreppunni

Með vaxandi atvinnuleysi í vetur er brýnast að grípa til eftirfarandi aðgerða:

 • Bæta tryggingavernd atvinnuleysisbótanna, með hækkun grunnbóta og lengingu tímabils á tekjutengdum bótum úr 3 í 6 mánuði (sjá hér https://kjarninn.is/skodun/2020-05-30-atvinnuleysisbaetur-eru-alltof-lagar/). Þetta þarf til að létta byrðar helstu fórnarlamba kreppunnar og styðja við eftirspurn og einkaneyslu í hagkerfinu (sem er gott fyrir atvinnustigið).
 • Efla hvers konar stuðnings- og virkniúrræði við atvinnulausa (sem kostar lítið).
 • Skapa ný störf
  • Með aukinni nýsköpun
  • Með mikilli fjölgun starfa við umönnun
  • Með auknum innviða- og viðhaldsframkvæmdum
  • Með auknum aðgerðum til orkuskipta
  • Með aukinni grænni starfsemi við sjálfbæra matvælaframleiðslu

Þetta eru einungis dæmi (sjá nánar í bæklingi ASÍ “Rétta leiðin – Frá kreppu til lífsgæða” https://www.asi.is/um-asi/hlutverk-og-saga/stefna/retta-leidin/).

Ferðaþjónustan óx of hratt á síðustu árum og var vart sjálfbær, enda stólaði hún á skattfríðindi, erlent skammtímavinnuafl í láglaunastörfum og ofnotkun á náttúrugæðunum. Það er því hæpið að hægt sé að halda öllum fyrirtækjum greinarinnar á lífi í gegnum veturinn með beinum ríkisstuðningi, umfram það sem þegar er orðið.

Þess vegna þarf nýjar áherslur í atvinnustefnu. Þeim mun fastar sem ríkið tekur á örvunaragerðum þeim mun minni verða afleiðingar Kóvid-kreppunnar fyrir þjóðina.

 

Skuldirnar greiðist niður á löngum tíma

Hin góða fjárhagsstaða ríkisins þýðir einnig að jafnvel þó fastar sé tekið í efnahags- og velferðarárarnar þá verður skuldastaða ríkisins ekki stórt vandamál, eins og t.d. varð eftir hrunið 2008.

Það þýðir líka að skuldir ríkisins mun ekki þurfa að greiða niður með neinu offorsi, eins og sumir talsmenn Sjálfstæðisflokksins og atvinnurekenda hafa krafist undanfarið. Við eigum einfaldlega að láta hagvöxtinn létta byrðarnar af skuldunum á löngum tíma og allar beinar niðurgreiðslur skulda eiga að koma í hægum skrefum af afgangi á uppsveiflutíma.

Engin þörf er á skattahækkunum eða launalækkunum vegna Kóvid-kreppunnar. Það er raunveruleikinn á Íslandi í dag – og fyrir það má þakka.

En það þýðir líka að engin ástæða er til að bíða með öflugri mótvægisaðgerðir ríkisins gegn kreppunni, meðal annars í anda þeirra sem að ofan eru nefndar.

———————

Stefán Ólafsson er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hja Eflingu-stéttarfélagi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 5.7.2020 - 11:24 - FB ummæli ()

Lífsgæði almennings: Er meiri hagvöxtur alltaf betri?

Í nýjasta hefti af SÍBS blaðinu eru áhugaverðar greinar um velmegun og vellíðan, í ritstjórn Páls Kr. Pálssonar. Hér er grein sem ég skrifaði í blaðið um samband hagvaxtar og lífsgæða almennings:

Við sem búum í hagsældarríkjunum erum flest mikið efnishyggjufólk. Við erum yfirleitt mjög upptekin af efnislegum lífsgæðum og hagvexti. Hér áður fyrr var gjarnan talað um “lífsgæðakapphlaupið” (“rat race” á ensku) sem helsta viðfangsefni fólks í lífinu, með skírskotun til eltingarleiksins við efnahagslegu gæðin. Hugsunin var oft sú, að efnahagslegu gæðin ein skiptu öllu máli fyrir hamingjuleitina. Meiri hagvöxtur og meiri kaupmáttur áttu sem sagt að færa okkur nær æðsta hamingjustiginu.

photo-1577563682708-4f022ec774fb.jpgLengst af á tuttugustu öldinni var í samræmi við þetta algengast að mæla árangur þjóða í framfaraleitinni með hagvaxtartölum þjóðhagsreikninganna. Þær þjóðir sem höfðu mesta þjóðarframleiðslu á mann voru taldar fremstar í lífsgæðakapphlaupi þjóðanna. Þær voru ríkastar eða “hagsælastar”. Orðið hagsæld vísar raunar bæði til efnahags og sældar og endurspeglar þannig vel þennan gamla skilning um að hagvöxturinn skili meiri hamingju eða ánægju með lífið.

Félagsvísindamenn þráttuðu þó um langt árabil um hvort hagvöxturinn skilaði í raun aukinni hamingju. Bandaríski hagfræðingurinn Richard Easterlin setti fram það sem síðar var kallað Easterlin-þversögnin í nokkrum greinum frá 1973 til 2005. Grundvöllurinn að þessari þversögn var sú niðurstaða Easterlins að þó hagvöxturinn í Bandaríkjunum væri sífellt að bæta í þjóðarframleiðsluna þá væri hamingjustig þjóðarinnar ekki að hækka í sama mæli og fyrr. Hann taldi því að hagvöxturinn skilaði meiri hamingjuauka einungis á fyrri stigum hagsældarþróunarinnar, en síðan hætti bættur efnahagur að auka hamingju þjóðarinnar, að minnsta kosti í sama mæli og áður.

Easterlin taldi þetta almennt eiga við í samanburði milli þjóða sem og í samanburði tekjuhópa innan einstakra þjóða. Kenningar Easterlins hafa menn síðan dregið í efa með nýrri gögnum (sjá t.d. Wolfers og Sachs 2010).

Nú til dags er þetta ekki sérstaklega lifandi umræða, þó af henni megi draga einhvern lærdóm. Nýrri og ítarlegri gögn styðja almennt þá niðurstöðu Easterlins að ekki sé um að ræða sjálfvirkt og skilyrðislaust samband milli hagvaxtar og aukinnar hamingju eða ánægju með lífið.

Það sem blasir við í samtímanum er að hátt hagsældarstig leiðir ekki sjálfkrafa til meiri ánægju borgaranna með líf sitt – en hagvöxturinn getur þó hjálpað til.

Útkoman er þannig ýmsu háð. En hver eru helstu skilyrði þess að hagvöxtur auki lífsgæði almennings?

 • Hvernig hagsældin er notuð skiptir öllu máli, ekki síst hvernig þjóðarkökunni er skipt milli verkefna í samfélaginu, milli stétta, þjóðfélagshópa og einstaklinga. Skipting tekna og eigna er þannig mjög mikill áhrifavaldur þess hvort stækkandi þjóðarkaka skilar sér í aukinni ánægju þjóðarinnar eða ekki. Þá skiptir auðvitað öllu hvort hagvöxturinn skilar sér í hærri tekjum og auknum kaupmætti fjöldans, alls þorra almennings. Ef hagvöxturinn fer að stórum hluta einungis í að auka tekjur fámennrar yfirstéttar en gerir lítið fyrir alla aðra þá er ekki líklegt að hagvöxtur skili sér í aukinni ánægju þjóðarinnar með lífið eða aukinni hamingju (Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson 2017).
 • Hversu mikið er lagt í velferðarkerfið og hversu vel tekst með því að jafna tækifæri og draga úr fátækt í samfélaginu eru einnig mjög mikilvægir áhrifaþættir. Ef velferðarkerfið er veikburða og gerir lítið til að bæta hag þess helmings sem lægri tekjurnar hefur þá skilar hagvöxtur sér síður í aukinni ánægju þegnanna.
 • Einnig skiptir miklu máli hversu fagleg og lýðræðisleg stjórnvöld eru og hversu vel þeim tekst að halda aftur af spillingu og byggja upp traust í samfélaginu. Þar sem saman fara fagleg stjórnsýsla og traust almennings á opinberum stofnunum og á samborgurum sínum, í þróttmiklu umhverfi lýðræðis, þar eru meiri líkur á að hagvöxturinn skili sér í aukinni hamingju þegnanna (Stefán Ólafsson 2013).

Allt á þetta sér samnefnara í því hvort samfélaginu er stýrt og þjóðarkökunni skipt í þágu almannahags eða sérhagsmuna og forréttinda fámennrar yfirstéttar.

Góðar vísbendingar um hið breytilega samband milli hamingju og hagsældarstigs í nútímanum má sjá á myndinni hér að neðan, en hún sýnir ánægju borgaranna með líf sitt og hagsældarstigið sem ríkir í samfélögum þeirra. Norðurlöndin eru hér borin saman við ýmis ríkustu samfélög heimsins (gögnin koma úr World Happiness Report 2020).

Samband.JPGÞannig eru margar af þjóðunum sem eru með minni ánægju með lífið með meiri þjóðarframleiðslu á mann en ánægðustu norrænu þjóðirnar. Þarna höfum við dæmi um nokkrar þjóðir sem búa við hátt hagsældarstig (þjóðarframleiðslu á íbúa) en sem eru ekkert sérstaklega ánægðar með líf sitt.

Auðlegðin í þeim löndum er einfaldlega ekki að skila sér nógu vel í betri skilyrðum fyrir hamingju almennings, þó efni til þess séu klárlega fyrir hendi. Stjórnvöld og valdastéttirnar í þessum löndum hafa aðra forgangsröðun, oft einmitt þá að hirða sjálf drjúgan hluta af þjóðarkökunni í eigin vasa.

Ste.JPG

Tökum Bandaríkin sem dæmi

Bandaríkin hafa um langt árabil verið í hópi auðugustu ríkja heims. Þau nutu mikils hagvaxtar lengst af á tuttugustu öldinni og ágæts vaxtar einnig fram á síðustu ár. Tuttugasta öldin hefur oft verið kölluð “Ameríska öldin”, vegna þess einmitt að Bandaríkin þóttu forysturíki í hagþróun og lýðræðisvæðingu langt frameftir öldinni.

Frá því um 1980 breyttu Bandaríkin hins vegar um stefnu, í átt aukinnar nýfrjálshyggju og alþjóðavæðingar. Síðan þá hefur hagvöxturinn í markvert minni mæli skilað sér í bættum hag almennings, en stóraukið tekjur og eignir ríkasta eina prósentsins í landinu. Kaupmáttur láglaunafólks og millistéttarfólks hefur ýmist staðið í stað eða jafnvel rýrnað. Samhliða hafa skuldir heimila aukist og skólagjöld í háskólum stórhækkað, sem aftur bætir í skuldabaggann.

Slík þróun er ekki til þess fallin að létta almenningi byrðar og lund, enda sér þess ekki merki að hagvöxturinn á síðustu áratugum tengist aukinni ánægju almennings með lífið í Bandaríkjunum. Fátækt er viðvarandi á háu stigi og tækifæri til að vinna sig upp í bandaríska samfélaginu eru minni en á áratugunum fyrir 1980. Norðurlöndin eru nú í mun meiri mæli lönd tækifæranna en Bandaríkin (sjá nánar í Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson 2017).

Viðvarandi og djúpstæð mannréttindabrot og mismunun gagnvart lituðu fólki og lök kjör innflytjenda eiga svo sinn þátt í að halda hamingju bandarísku þjóðarinnar á lægra stigi en almennt er á Norðurlöndum.

Segja má að Bandaríkin hafi verið á ágætu róli frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar til um 1980 en síðan farið illa afvega. Hagvöxturinn hætti að umtalsverðu leyti að skila þorra almennings bættum kjörum.

Skipan bandaríska samfélagsins nú á dögum er sem sagt vel til þess fallin að viðhalda eða auka hamingju ríkasta eina prósentsins, elítunnar í viðskiptalífinu, og annars hátekjufólks. En þorri almennings nýtur nú á dögum frekar lítils ábata af viðvarandi hagvexti í landinu.

Tökum Hong Kong sem dæmi

Borgríkið Hong Kong var í áratugi talið einstakt fyrirmyndarríki nýfrjálshyggjunnar. Umhverfið var einstaklega vinsamlegt fjárfestum og viðskiptum, eins konar paradís auðmanna. Lítið hefur breyst hvað þetta snertir eftir að Hong Kong varð hluti af kínverska alþýðulýðveldinu.

Skattar voru og eru enn almennt mjög lágir. Söluhagnaður af hlutabréfabraski er skattfrjáls. Arðgreiðslur úr fyrirtækjum eru skattfrjálsar. Enginn skattur er á erfðafé. Allt skattkerfið og viðskiptaumhverfið tekur fyrst og fremst mið af hagsmunum fjárfesta en almenningur mætir afgangi. Hlutverk hans er að vera samviskusamt og skyldurækið vinnuafl á lágum launum.

Ójöfnuður í tekjuskiptingu er með almesta móti í hópi vestrænna hagsældarríkja. Allur þorri íbúa býr í óhemju dýru leiguhúsnæði, sem oft er afar þröngt. Útgjöld hins opinbera til velferðarmála er með allra minnsta móti í hópi vestrænna ríkja. Hlutverk ríkisins var lengst af skilgreint í anda frjálshyggjunnar sem vörður eignaréttarins, eins konar næturvarðarríki eignastéttarinnar.

Hagvöxtur hefur lengi verið mikill í Hong Kong og þjóðarframleiðsla á íbúa er með mesta móti. Þarna er hins vegar að finna dæmi um að hagvöxturinn hafi að verulegu leyti farið til að bæta hag fámennrar yfirstéttar. Íbúarnir hafa því lítið fundið fyrir frelsinu sem fjármálaöflin búa við og hafa þess vegna lengi mælst með frekar lágt stig ánægju með lífið.

Hong Kong er því gott dæmi um samfélagsskipulag sem þjónar einkum hagsmunum fámennrar yfirstéttar. Hagvöxturinn skilar því almenningi lítilli velferð og lítilli lífsánægju.

Mótmælin sem hafa verið algeng í seinni tíð í Hong Kong eiga sér að mestu leyti rætur í þeim mikla ójöfnuði sem ríkir í samfélaginu í þessu sérstaka eyríki. Breytingin á framkvæmd réttarfars sem kínversk stjórnvöld hafa nýlega staðið fyrir eru meira eins og neistinn sem kveikir í púðrinu sem ójöfnuðurinn hefur getið af sér.

Rannsóknir Piketty og félaga

Thomas Piketty og félagar hafa brotið blað með rannsóknum sínum á þróun ójafnaðar í heiminum, bæði til lengri og skemmri tíma. Þær rannsóknir hafa sýnt á ítarlegan hátt hvernig ójöfnuður hefur verið að aukast í flestum ríkjum jarðarinnar á síðustu 30 til 40 árum. Misjafnlega mikið þó milli ríkja.

Þetta er mikilvægt því svo víðtækar breytingar á tekjuog eignaskiptingu sem um ræðir benda til að sömu áhrifa gæti í alþjóðahagkerfinu. Böndin berast því að aukinni alþjóðavæðingu og sérstakri tengingu nýfrjálshyggjuhugmynda við þá þróun.

Alþjóðavæðingin er að umtalsverðu leyti nátengd úrbreiðslu markaðs- og afskiptaleysisstefnu nýfrjálshyggjunnar. Sú stefna hefur sýnt sig að setja hagsmuni fjárfesta, hátekju- og stóreignafólks í forgang um leið og vegið er að hlutverki lýðkjörinna stjórnvalda og velferðarríkinu. Það á einmitt stóran þátt í almennri aukningu ójafnaðar í heiminum.

Þessi stefna sem breiddist út upp úr 1980 fól í sér veruleg frávik frá stefnu blandaða hagkerfisins og velferðarríkisins sem var við lýði í vestrænum ríkjum frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Sú stefna fól í sér mun betri skilyrði fyrir lífskjarabata almennings. Í millistétt fjölgaði um leið og mörgum í verkalýðsstétt buðust tækifæri til að flytja sig í störf með betri kjörum og tækifærum. Jöfnuður var meiri. Hagvöxturinn á þeim árum skilaði sér því mun betur til almennings en síðar varð.

Niðurstöður

Hagvöxtur er gagnlegur svo langt sem hann nær. Hann er til marks um aukna efnislega verðmætasköpun í samfélaginu, sem skapar aukna möguleika á að bæta efnisleg lífsgæði fólks. En það er hins vegar ekki sjálfgefið að aukinn hagvöxtur skili sér í bættum lífsgæðum alls þorra almennings. Síðan hefur hagvöxturinn auðvitað neikvæð umhverfisáhrif á plánetunni, sem sporna þarf við.

Hvort hagvöxturinn skili sér í bættum lífsgæðum almennings er öðru fremur háð skiptingu þjóðarkökunnar sem þjóðin bakar í sameiningu og sem menn gjarnan kalla þjóðarframleiðslu. Þegar mikill ójöfnuður ríkir í samfélagi fer hagvöxturinn í of miklum mæli til fámennrar yfirstéttar eða skilur of stóran hluta þegnanna eftir í fátækt.

Umfang jafnandi velferðarríkis, lýðræðis og faglegrar stjórnsýslu sem nær að hemja spillingu skiptir einnig miklu máli í þessu sambandi.

Norrænu þjóðirnar hafa lengi haft nokkra yfirburði í heiminum, ásamt örfáum öðrum ríkjum, í að skapa góð lífsgæði fyrir allan þorra almennings, langt umfram það sem er í Bandaríkjunum, Hong Kong og arabísku olíuríkjunum sem öll státa þó af háu hagsældarstigi.

Jöfnuður, velferðarríki, lýðræði og traust eru lyklarnir að góðum árangri norrænu þjóðanna. Það er ekki nóg að auka efnislega verðmætasköpun með hagvexti. Hvað verður um verðmætin innan samfélaganna er það sem mestu máli skiptir fyrir lífsgæði almennings.

Helstu heimildir
 • Easterlin, R. (1995). Will raising the incomes of all increase the happiness of all? Journal of Economic Behaviour and Organization, 27(1), 35–47.
 • Daniel Sachs og Justin Wolfers (2010), “Debunking the Easterlin Paradox, Again”. Brookings Instiotution (https://www.brookings.edu/opinions/ debunking-the-easterlin-paradox-again/).
 • Stefán Ólafsson (2013), Well-being in the Nordic Countries: An International Comparison, í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla, árg. 9, nr. 2, bls. 345- 371.
 • Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson (2017), Ójöfnuður á Íslandi: Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi (Háskólaútgáfan).
 • John Helliwell, Richard Layard, Jeffrey D. Sachs, and Jan Emmanuel De Neve (2020), World Happiness Report 2020.
 • Oxfam, Hong Kong Inequality Report (https://www.oxfam.org.hk/tc/f/news_- and_publication/16372/Oxfam_inequality%20report_Eng_FINAL.pdf).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 23.6.2020 - 22:09 - FB ummæli ()

Bandaríkin: Hnignandi heimsveldi?

Fyrir um þremur árum skrifaði bandaríski stjórnmálafræðingurinn Richard Haass bókina World in Disarray (Heimsskipan í upplausn).[1] Þar færði hann margvísleg rök fyrir því að staða Bandaríkjanna sem forysturíkis í heiminum hafi veikst. Heimsskipanin sem mótaðist í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar, öðru fremur undir forystu Bandaríkjanna og vestrænna samherja þeirra, væri nú í vaxandi upplausn.

Í tíð Trump-stjórnarinnar hafa Bandaríkin svo dregið sig enn meira út úr virkri þátttöku í alþjóðasamfélaginu og hirt lítt um langtíma samherja, hvort sem er á vettvangi NATO, Sameinuðu þjóðanna, eða annarra alþjóðlegra samstarfs- og samráðsstofnana. Þessu fylgir aukið tómarúm sem skapar meiri tækifæri fyrir ólýðræðisleg stjórnvöld, eins og Kína og Rúsland o.fl., til að gera sig fyrirferðameiri á alþjóðavettvangi.

Alþjóðlega samráðskerfið virkar ekki eins vel og oft áður. Samt eru einstök þjóðríki nú meira háð alþjóðlegum áhrifaöflum vegna alþjóðavæðingarinnar. Geta til að taka á sameiginlegum vandamálum, svo sem hnattrænni hlýnun, hættulegum smitsjúkdómum, fjármálakreppum, hryðjuverkum og alþjóðlegum glæpum hefur rýrnað að sama skapi.

Í apríl síðastliðnum og nú í byrjun júní hefur Richard Haass skrifað greinar í tímaritið Foreign Affairs þar sem hann fjallar enn frekar um þessi mál og hvernig Covid-19 faraldurinn og efnahagskreppan sem honum fylgir hefur áhrif á þessa undirliggjandi þróun sem hann fjallaði um í ofangreindri bók sinni (sjá t.d. hér).

Oft hafa djúpar kreppur, eins og sú sem nú gengur yfir, verið rótin að breyttri stefnu í heiminum. Þannig leiddi seinni heimsstyrjöldin í kjölfar Kreppunnar miklu til nýrrar heimsskipanar á alþjóðavísu (valdajafnvægi í kalda stríðinu), sem og nýrrar skipanar þjóðmála innan vestrænna landa (einkum með tilkomu blandaða hagkerfisins og vexti velferðarríkisins). Richard Haass á ekki vona á slíkum grundvallarbreytingum núna, heldur því að undirliggjandi þróun í heimskerfinu muni áfram vera á sömu upplausnarleiðinni – en þó á meiri hraða en áður.

Lakur árangur Bandaríkjanna í glímunni við veiruna, víðtæk mótmæli vegna kynþáttamisréttis, óreiðukennd stefna og vægast sagt óvenjulegir starfshættir ríkisstjórnar Donalds Trump hafa orðið Bandaríkjunum álitshnekkir, sem veikir stöðu þeirra á heimsvettvangi enn frekar, segir Haass. Hugsanlega gætu Bandaríkjamenn tekið sig á og breytt um kúrs, en það verður hægara sagt en gert. Demókratar virðast heldur ekki til stórræðanna um þessar mundir.

En Haass talar einnig um að bandaríska samfélagsmódelið njóti almennt minnkandi aðdáunar í heiminum og að það veiki einnig stöðu þeirra sem heimsveldis. Rótgróin mannréttindabrot gegn svörtum og veikt velferðarkerfi tengjast miklum samfélagsmeinum sem aðrar vestrænar þjóðir hafa leyst með betri árangri en Bandaríkin. Covid-veiran hefur svo opinberað þessa veikleika enn frekar en áður var – með meiri smithættu og hærri dánartölum svartra og fátækra almennt.

Þetta er allt í beinni útsendingu fyrir heiminn allan að sjá og það lítur ekki vel út fyrir Bandaríkin, segir Richard Haass.

Fleiri nafntogaðir fræðimenn hafa nýlega fært rök í þessa veru, svo sem Francis Fukuyama, Joseph Stiglitz, Daron Acemoglu, Joseph S. Nye og Christopher R. Hill (sjá nýlegar greinar í Foreign Affairs og á Project Syndicate).

 

Fölnandi fyrirmynd – misheppnuð samfélagsstefna

Bandaríkin voru almennt talin fyrirmyndarríki á fyrstu áratugunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Þau voru helstu sigurvegarar stríðsins, kyndilberi vestræns lýðræðis, frjálsra viðskipta og hagsældar fyrir alla; rísandi millistéttarsamfélag sem veitti almenningi og innflytjendum tækifæri til að bæta hag sinn og komast áfram í lífinu.

Ameríski draumurinn stóð fyrir þá ímynd.

Upp úr 1980 fór nýfrjálshyggjan að breiðast út, en hvergi var henni fylgt jafn langt og í Bandaríkjunum. Sú stefna var umtalsvert frávik frá þjóðfélagssáttmála eftirstríðsáranna og jók hún ójöfnuð og veikti velferðarríkið enn frekar. Í stað þess að hagvöxturinn færi í að bæta hag allra rann hann nú að stærstum hluta til fámennrar ofurríkra yfirstéttar, sem einnig naut aukinna skattalækkana um leið og skuldir hins opinbera og alþýðuheimila jukust. Ekkert lát er á þeirri þróun, eins og Thomas Piketty og félagar hafa sýnt.

Blár skuggi féll á ameríska drauminn.

Nýfrjálshyggjan varð síðan í vaxandi mæli hluti af alþjóðavæðingunni sem tengd hefur verið hnignun iðnaðar í vestrænum ríkjum, aukinni fjármálavæðingu og óstjórn í fjármálakerfum (með aukinni hættu á fjármálakreppum) og vexti skattaskjóla. Þetta hefur allt falið í sér aukinn ójöfnuð, aukna skuldasöfnun og veikara ríkisvald í mörgum löndum (sjá t.d. hér).

Bandaríkin eru auðvitað enn mesta herveldi plánetunnar og búa enn að miklum efnahagslegum styrk, þó þeim gæðum sé meira misskipt en annars staðar á Vesturlöndum. Vegna stærðar sinnar er Kína hins vegar nú þegar komið með stærri hluta heimsframleiðslunnar en Bandaríkin. Því fylgir aukið pólitískt og samfélagslegt vægi í heiminum. Kína er þó ekki freistandi fyrirmynd vestrænna lýðræðissinna né norrænna velferðarsinna

Eftir því sem samfélagsmeinin í Bandaríkjunum hafa orðið sýnilegri hefur staða Bandaríkjanna sem fyrirmyndarríkis og heimsveldis orðið léttvægari, segja ofangreindir fræðimenn. Það er verðugt umhugsunarefni.

 

Bandaríska leiðin var og er leið Sjálfstæðisflokksins

Bandaríkin höfðu auðvitað mikil áhrif hér á landi, bæði sem heimsveldi í kalda stríðinu og sem fyrirmynd að “frjálslyndu lýðræðissamfélagi”. Sjálfstæðisflokkurinn mótaði stefnu sína mjög í anda bandarísku leiðarinnar. Bandaríkin voru höfuðbólið og Ísland hjáleiga þess.

Þegar nýfrjálshyggjan breiddist út upp úr 1980 fylgdu helstu boðberar hennar í Sjálfstæðisflokknum bandarískum útfærslum kenningarinnar – og gengu langt í því. Sú stefna náði hámarki í taumlausri græðgisvæðingu yfirstéttarinnar í aðdraganda fjármálakreppunnar 2008 og féll svo endanlega í hruninu. Samt hafa talsmenn hennar látið eins og ekkert sé og róa enn á sömu miðum.

Frá þessum hugmyndafræðingum heyrist lítið nú um augljósar meinsemdir bandarísku leiðarinnar, þar sem lýðræði er undirlagt af auðræði, mannréttindi minnihlutahópa eru gróflega brotin, fátækt við hlið ofurríkidæmis sker í augu og forsetinn beitir ríkisvaldinu ítrekað í þágu sinna eigin persónulegu hagsmuna – svo fátt eitt sé nefnt. Hið meinta gagnvirka aðhald í bandaríska stjórnkerfinu (e: checks and balances) virðist léttvægt þegar á reynir.

Hvernig er hægt að hafa sem fyrirmynd samfélag sem nær ekki máli sem mannréttindasamfélag, sem beygir lýðræðið undir peningaöflin og viðheldur ójöfnuði og fátækt sem myndi aldrei líðast á Norðurlöndum?

En eins og sjá má af skrifum hins virta sérfræðings um alþjóðamál, Richards Haass, sem ég hef hér greint frá, sem og margra annarra fræðimanna, þá sjá menn þar vestra nú æ betur hvernig gallar bandarísku leiðarinnar eru farnir að skaða heimsveldisstöðu Bandaríkjanna. Það eru tíðindi, svo ekki sé meira sagt.

Sjálfstæðismenn neituðu að horfast í augu við afleiðingar af nýfrjálshyggjustefnu sinni í kjölfar hrunsins og brenndu skýrslu endurskoðunarnefndar flokksins, með eftirminnilegum hætti. Skyldu þeir endurskoða sín stefnumál núna, í ljósi afleitrar reynslu af bandarísku leiðinni á höfuðbólinu sjálfu?

————————–

[1] Richard Haass er virtur sérfræðingur í alþjóðamálum og fyrrverandi ráðgjafi tveggja ríkisstjórna Repúblikana, undir forystu Bush feðganna, um utanríkismál (sjá hér). Hann er nú forstöðumaður hlutlausrar stofnunar, Council on Foreign Relations, og telst ekki til andstæðinga Repúblikana (flokks Trumps forseta). Gagnrýni hans er sérstaklega athyglisverð í þessu ljósi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 20.5.2020 - 13:14 - FB ummæli ()

Bjartsýna sviðsmyndin fyrir Ísland

 

Við erum náttúrulega í talsverðri óvissu um framhaldið, bæði framvindu veirufaraldursins og efnahagslífsins.

Samt spá menn í þróun hagvaxtar og atvinnuleysis næstu mánuði og misseri, jafnvel upp á prósentubrot.

Bankar, hagsmunasamtök og opinberar stofnanir hafa sett fram formlegar spár um þetta fyrir árið og það næsta.

Útkomurnar eru nokkuð breytilegar – raunar mjög breytilegar.

Þau svartsýnustu spá allt að 18% samdrætti þjóðarframleiðslu á árinu en þau bjartsýnni eru nær 7-9%.

Erlendis óttast svartsýnismenn að kreppuþróunin geti orðið eftirfarandi: Heilsukreppa> Efnahagskreppa> Fjármálakreppa.

Eftir að sóttvörnum lýkur ríki djúp efnahagskreppa sem gæti leitt af sér enn meiri skuldavanda en þegar var orðinn, sem geti svo af sér greiðsluþrot banka og stjórnvalda í fjármálakreppu, bæði í þróunarlöndum og í hagsældarríkjunum (sjá hér).

Þá færi sannarlega allt á versta veg, með langvarandi og ófyrirséðum afleiðingum.

Undirstöður alþjóðlega kapítalismans eru veikari en menn grunaði. Þetta þarf þó ekki að fara á alversta veg.

En ef við beinum sjónum eingöngu að Íslandi þá sýnist mér að svigrúm sé fyrir nokkra bjartsýni – þrátt fyrir allt.

 

Ýkjur Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins (SA)

Þegar svartsýnasta spáin er skoðuð, sú sem kom nýlega frá Viðskiptaráði og SA upp á 18% samdrátt í ár, þá virðist hún byggð á veikari forsendum en hófsamari spárnar (sjá hér).

Þar gætir kanski líka þess að þetta eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem eru að þrýsta á stjórnvöld um styrkveitingar og aðstoð til fyrirtækja.

Þau sjá sér hag í að dekkja myndina til að auka slagkraft sinn á bónbjargarveginum sem liggur til ríkisins – sem þau sjá þó gjarnan í líki andskotans í venjulegu árferði!

Við höfum því ríka ástæðu til að hafna spá Viðskiptaráðs og SA.

Landsbanki, Íslandsbanki og fjármálaráðuneytið hafa spáð djúpri en skammvinnri samdráttarkreppu, upp á í kringum 9%. Góður vöxtur taki svo við strax á næsta ári. Atvinnuleysið gæti þó orðið að meðaltali allt að 11% á árinu, segja þau.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði spáð 7,2% samdrætti og meðalatvinnuleysi um 8% í ár. Hann spáði líka mjög örum uppgangi á næsta ári, eða allt að 6% hagvexti og að atvinnuleysi fari þá niður í um 7% hér á landi.

Seðlabankinn er með nýja spá 20. maí og gerir þar ráð fyrir 8% samdrætti á árinu og góðum vexti á næsta ári – og er þar í takti við hinar hófsamari spárnar.

Ég held að forsendur þessara hófsamari spáa eða sviðsmynda séu líklegri til að rætast.

Það kemur meðal annars í ljós þegar við förum betur ofaní nærmyndina á Íslandi.

 

Ísland: Almenn kreppa breytist í kreppu ferðaþjónustunnar

Eftir vel heppnaðar sóttvarnaraðgerðir erum við að opna atvinnulífið – skref fyrir skref. Þegar er farið að draga úr atvinnuleysi, samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar.

Atvinnuleysi fór í 17,8% í apríl (samtals á atvinnuleysisskrá og í hlutabótaleið). Á fyrstu tveimur vikunum í maí fækkaði um 7500 manns í hlutabótaleið (sjá hér). Það mun halda áfram.

Vinnumálastofnun spáir nú að atvinnuleysi í maí fari niður í 14,8%.

Með enn meiri opnun fer atvinnuleysis síðan neðar. Gæti orðið á bilinu 10-12% í júní og síðan lækkað frekar.

Það sem gerist er að með meiri opnun fer meginhluti atvinnulífsins aftur á þokkalegt ról. Ekkert góðæri en starfsemi ætti víða að vera alveg viðunandi.

Ferðaþjónusta og greinar beintengdar henni verða áfram í vanda, raunar í sérstöðu. Skoðum það nánar í samhengi.

Á myndinni hér að neðan má sjá samhengi ferðaþjónustunnar í atvinnulífinu á Íslandi, út frá skiptingu vinnuafls milli atvinnugreina (heimild: Hagstofa Íslands).

Í lok árs 2019 var ferðaþjónusta og tengdar greinar með um 14,4% af vinnuaflinu á Íslandi. Það hafði lækkað lítillega frá 2018. Gisti- og veitingastaðir voru með um 7,5% vinnuaflsins.

Um 85% vinnandi fólks var í öðrum greinum en ferðaþjónustu. Megnið af því fólki ætti að geta verið í þokkalegri stöðu. Stærstur hluti íslenska atvinnulífsins ætti því að geta verið kominn á þokkalegan skrið í sumar.

En ef ferðaþjónusta og tengdar greinar verða áfram í djúpri kreppu eigum við þá að búast við að allt starfslið þeirra greina, 14-15% vinnuaflsins, verði áfram atvinnulaust, eins og svartsýnustu spárnar gera ráð fyrir?

Nei, það er ólíklegt og órökrétt.

Ferðaþjónusta og tengdar greinar munu ekki deyja alveg út.

Íslendingar munu nota einhvern hluta ferðaþjónustu og veitingastaða í sumar og síðan losnar smám saman um flug milli landa. Einhver hluti ferðaþjónustunnar mun hafa einhverja starfsemi í sumar. Ríkisstuðningurinn mun einnig tryggja það.

Annað sem léttir róðurinn er eftirfarandi:

Í venjulegu árferði stólar ferðaþjónustan í stórum stíl á erlent skammtímavinnuafl. Allt að helmingur starfsfólks á hótelum, veitingastöðum og bílaleigum er af þeim toga.

Það sem meira er, stór bylgja af erlendu skammtímavinnuafli hefur á síðustu árum verið flutt til landsins í mars til maí til að vinna við ferðaþjónustuna á háannatímanum. Síðan hverfur drjúgur hluti þess fólks aftur á brott yfir vetrartímann.

Það fólk hefur ekki komið inn til landsins núna í vor og því þarf ekki að greiða þeim atvinnuleysisbætur í sumar.

Með öðrum orðum, atvinnuleysisvandinn tengdur ferðaþjónustu verður ekki eins stór og hefði orðið ef kreppan hefði byrjað í júlí eða ágúst. Þetta léttir róðurinn í sumar.

Mikil not ferðaþjónustunnar á erlendu skammtímavinnuafli endurspeglar mikinn sveigjanleika sem gerði þann ofurvöxt sem varð hér í ferðaþjónustu á skömmum tíma mögulegan.

Ferðaþjónusta er viðkvæm atvinnugrein og ekki heppileg undirstaða atvinnulífs í of mikilli stærð. Við blasir að hún mun dragast saman til skemmri tíma og sennilega er skynsamlegt að hafa meira hóf á vexti hennar í framtíðinni.

Því þarf nú að flytja vinnuafl þaðan að einhverju leyti til annarra greina, með skynsamlegri atvinnustefnu, eins og ASÍ hefur bent á (sjá hér)

 

Þetta verður viðráðanlegt

Ef allt ferð á besta veg og veiran losar tökin á heimshagkerfinu þá gæti atvinnuleysi hér verið komið niður í 6-8% í haust.

En ef veiran nær sér á nýtt flug með haustinu, hér eða í heiminum almennt, þá getur þetta auðvitað orðið verra.

Læknar segja þó að nýr farandur verði viðráðanlegri í heilbrigðiskerfinu, meðferð hafi batnað með aukinni þekkingu og einhver lyf finnast sem að gagni koma. Úr dánarlíkum dregur.

Það verður því varla þörf fyrir jafn víðtækar lokanir í seinni bylgju faraldursins.

Á næsta ári gæti bólusetning komið til sögunnar og gjörbreytt stöðunni til hins betra – jafnvel leyst vandann meira og minna.

Á Íslandi er augljóslega útlit fyrir þokkalega endurreisn í sumar og vonandi enn frekar á næsta ári.

 

Síðasti pistill: Vaxandi kreppur kapítalismans

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 28.4.2020 - 08:40 - FB ummæli ()

Vaxandi kreppur kapítalismans

Stórar kreppur hafa oft verið vendipunktar í þróun kapítalismans – sumar þó meira en aðrar.

Þannig leiddi Kreppan mikla á fjórða áratugnum til grundvallarbreytinga á efnahags- og stjórnmálaskipan vestrænna samfélaga. Kreppan sú var af flestum talin til marks um að óheftur frjálshyggju-kapítalismi hefði brugðist illa og fara yrði nýja leið.

Niðurstaðan var blandaða hagkerfið, grundvallað á hagstjórnarspeki John Meynard Keynes. Það færði ríkisvaldinu stærra hlutverk en áður, með aukinni reglun og aðhaldi að markaðsskipulaginu – fínstillingu efnahagslífsins í þágu almannahags.

Þessi skipan var við lýði í um 3 áratugi, frá lokum seinni heimsstyrjaldar fram á fyrri hluta áttunda áratugarins. Hluti af kerfinu var Bretton Woods skipan gjaldeyrismála, með höftum á flæði fjármagns milli landa og Bandaríkjadal sem kjölfestu í milliríkjaviðskiptum.

Upp úr 1970 losnaði um þessa skipan, vegna nýrra vandamála í vestrænum hagkerfum og skapaði það nýtt svigrúm fyrir sjónarmið nýfrjálshyggju, eða óheftari kapítalisma, eins og tíðkast hafði fyrir seinni heimsstyrjöld.

Er Margrét Thatcher og Ronald Reagan komu til valda í kringum 1980 fékk nýfrjálshyggjan mikinn byr í seglin og varð upp frá því ríkjandi hagstjórnarspeki, ekki bara í vestrænum samfélögum heldur meira og minna um allan heim. Alþjóðavæðingin varð að miklu leyti frjálshyggjuvæðing markaðshátta, fjármála og skattaskjóla.

Tímabil blandaða hagkerfisins (1945-1973) var sem sagt tímabil mikilla framfara: mikils hagvaxtar, nútímavæðingar, aukins jafnaðar og fjárhagslegs stöðugleika.

Tímabil nýfrjálshyggjunnar (1980 til nútímans) hefur hins vegar verið tímabil hægari hagvaxtar, alþjóðavæðingar, aukins ójafnaðar og tíðari fjármálakreppa.

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan. Fyrir seinni heimsstyrjöldina var mikið um fjárhagslegan óstöðugleika og kreppur. Síðan tók við stöðugleiki til áttunda áratugarins og loks vaxandi krepputilhneigingar aftur á síðustu áratugum.

Við þetta bætist nú Kóvid-19 kreppan, sem óvíst er hversu stór verður, en sumir hafa spáð því að hún verði á stærð við þær stærstu: Kreppuna miklu 1929-1939 og Fjármálakreppuna sem hófst 2008.[i]

Reynslan er því sú, að óheftari kapítalisma í anda frjálshyggju fylgi meiri hætta á fjármálakreppum og auknum ójöfnuði. Frjálshyggjuskipanin þjónar best hagsmunum fámennrar yfirstéttar atvinnurekenda og fjárfesta, en blandaða hagkerfið bætti kjör lægri og milli stétta (alls þorra almennings) mun betur.[ii]

Eins og myndin sýnir glögglega þá hefur tíðni fjármálakreppa aukist verulega eftir að Bretton Woods skipanin leið undir lok, með auknum frjálshyggjuáhrifum.

 

Vaxandi skuldasöfnun veldur nú áhyggjum

Áður en Kóvid-19 kreppan skall á voru sumir hagfræðingar farnir að verða uggandi um að senn styttist í nýja fjármálakreppu, til dæmis Nouriel Rubini, sem spáði fyrir um fjármálakreppuna 2008, eins og frægt er. Kenneth Rogoff og Carmen Reinhart, áhrifamiklir sérfræðingar í fjármálakreppum, sömuleiðis.[iii]

Megin ástæða þessa er sú, að skuldir hafa verið að aukast í heimshagkerfinu jafnt og þétt. Of mikil uppsöfnun skulda í spákaupmennsku-umhverfi er yfirleitt helsta orsök fjármálakreppa.

Alþjóðabankinn birti nýlega athyglisverða skýrslu um skuldaþróunina í heimshagkerfinu, Global Waves of Debt: Causes and Consequences (2020). Sjá mynd úr skýrslunni hér að neðan er sýnir þessa þróun.

Höfundar skýrslunnar benda á að síðustu 50 árin, frá 1970, hafi gengið yfir fjórar bylgjur aukinnar skuldasöfnunar. Þrjár þær fyrstu enduðu allar í fjármálakreppu og sú fjórða stendur yfir og hefur undanfarið verið með einna örasta aukningu skulda, mest í einkageirum samfélaganna.

Nú þegar ljóst er að Kóvid-19 kreppan mun leika fjárhag hagkerfa heimsins grátt, vægast sagt, þá er ljóst að hugsanlega muni heimsfarandurinn ekki aðeins leiða af sér efnahagskreppu heldur geti hún að auki breyst yfir í fjármálakreppu, með þjóðargjaldþrotum í kjölfar verulega aukinnar skuldasöfnunar, þessu öllu til viðbótar (sjá grein Carmen Reinhart, This time truly is different, í Project Syndicate).

 

Hættuleg hnattræn farsótt og loftslagskreppa í ofanálag!

Ofangreindar vaxandi kreppur kapítalismans eru svo að fara fram í umhverfi hnattrænnar hlýnunar, sem rekja má til mengandi framleiðslu og ofnotkunar lífrænna orkugjafa. Þjóðum heimsins hefur ekki beint gengið vel að glíma við þann vanda til þessa.

Fyrir skömmu voru fjölmiðlar heimsins fullir af myndum af slökkviliðsmönnum að glíma við risavaxna skógarelda, andlit hlýnunarinnar, og nú hafa fjölmiðlar fyllst af myndum af örvæntingarfullu heilbrigðisstarfsfólki að glíma á hetjulegan hátt við afleiðingar veirusóttarinnar, sem einnig setur efnahags- og fjármálalífið á hliðina.

Raunir mannkyns er því vaxandi, eftir almennt gott tímabil frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Það blasir einnig við að umskiptin til nýfrjálshyggjutímans eftir 1980 hafa gert illt verra – svo um munar.

Eftir að frjálshyggjan varð ríkjandi skipan alþjóðavæðingarinnar hefur hún leitt til vaxandi fjármálaóstöðugleika, aukins ójafnaðar og veikingar velferðarríkja, sem einmitt eru best til þess fallin að verja almenning á válegum tímum eins og nú ríkja (sjá um það hér).

Heimurinn hefur þannig verið á rangri leið á síðustu áratugum, sem vonandi verður leiðrétt þegar við komum út úr núverandi kreppu, líkt og gerðist í kjölfar Kreppunnar miklu á fjórða áratugnum.

————————–

[i] Myndin er tekin úr grein Agnars Freys Helgasonar, The Political Economy of Crisis Responses, í bók Stefáns Ólafssonar o.fl., Welfare and the Great Recession: A Comparative Study (Oxford University Press 2019).

[ii] Sjá um það í nýrri bók Thomas Piketty (2020), Capital and Ideology (Harvard University Press).

[iii] Sjá t.d. nýlegar greinar eftir Rogoff og Reinhart á Project Syndicate vefsvæðinu.


Síðasta grein: Bestu velferðarríkin verja lífskjörin í kreppum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 20.4.2020 - 19:54 - FB ummæli ()

Bestu velferðarríkin verja lífskjör í kreppum

Velferðarríkið er eitt allsherjar tryggingarkerfi til að verja fólk fyrir áföllum. Í venjulegu árferði tryggir það lífsviðurværi í atvinnuleysi, þegar heilsan og starfsgetan bilar og þegar aldur færist yfir. Það dregur úr fátækt og ójöfnuði með því að bæta sérstaklega hag þeirra sem minna hafa.

Öflugt velferðarkerfið er þó meira en afkomutryggingakerfi og jöfnunartæki. Það veitir öllum heilbrigðisþjónustu, menntun og tækifæri, ásamt því að leitast við að tryggja viðunandi húsaskjól.

En í kreppum fær velferðarkerfið aukið hlutverk við að tryggja almenning gegn tímabundnum skerðingum lífskjara.

 

Lærdómur af fjármálakreppunni í Evrópu

Reynslan frá fjármálakreppunni sem hófst árið 2008 sýndi með skýrum hætti hvernig velferðarríkin stóðu sig misjafnlega vel í að verja almenning gegn kjaraskerðingum.

Þær þjóðir sem bjuggu við öflugri velferðarríki fundu almennt minna fyrir fjárhagsþrengingum af völdum kreppunnar en þær þjóðir sem bjuggu við veikari velferðarríki.

Þetta er sýnt í nýlegri bók sem ég og átta erlendir samstarfsmenn skrifuðum, ásamt tveimur íslenskum rannsóknarmönnum.[1] Bókin heitir Welfare and the Great Recession: A Comparative Study og kom úr hjá Oxford University Press á síðasta ári (sjá nánar um bókina hér).

Með kerfisbundnum samanburði á umfangi fjármálakreppunnar og afleiðingum hennar fyrir lífskjör íbúa í 30 Evrópulöndum gátum við sýnt hvernig ólík velferðarríki skiluðu mismunandi árangri í að verja lífskjör almennings í þessum löndum.

En við sýndum einnig hvernig aðgerðir stjórnvalda skiptu máli – ýmist til góðs eða ills. Hvoru tveggja skipti máli (gæði velferðarríkisins og stjórnvaldsaðgerðir), að teknu tilliti til umfangs fjármálaáfallsins sem upphaflega leiddi til kreppunnar.

Í fjármálakreppunni skipti velferðarríkið einna mestu máli fyrir þá sem misstu vinnuna. En atvinnuleysisbótakerfin voru misjafnlega víðtæk og misjafnlega rausnarleg og því mismunandi fær um að verja lífskjör fólks.

Þannig guldu Grikkir t.d. fyrir það að atvinnuleysisbótakerfi þeirra náði bara til hluta af vinnandi fólki og réttur til bóta varði einungis í skamman tíma. Þegar leið á kreppuna þá var stór meirihluti atvinnulausra Grikkja án atvinnuleysisbóta og þeir áttu heldur ekki rétt á neinni lágmarksafkomutryggingu (samsvarandi fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hér á landi).

Þá var einungis eftir að stóla á ættingja, sem margir hverjir voru einnig í vanda. Þrengingar þjóðarinnar urðu því óheyrilega miklar og mestar fyrir þá sem voru tekjulægri til að byrja með.

Írar og Íslendingar urðu fyrir álíka djúpri efnahagskreppu en fjárhagsþrengingar almennings jukust meira á Írlandi. Þar munaði mestu um að íslenska velferðarkerfið veitti þrátt fyrir allt betri vörn en það írska.

Þrátt fyrir að bæði Finnar og Svíar fyndu fyrir talsverðum efnahagssamdrætti, og að atvinnuleysi yrði meira hjá þeim en Íslendingum, þá gætti ekki aukinna fjárhagsþrenginga að ráði meðal almennings í Finnlandi og Svíþjóð.

Velferðarkerfin þar veittu viðunandi vörn gegn kreppuáfallinu. Atvinnuleysisbætur þeirra voru nógu víðtækar og rausnarlegar.

Á Íslandi hrundi gengið með bankakerfinu og verðbólga rauk upp í um 20%. Það rýrði kaupmátt launa óvenju mikið og jók síðan skuldavanda sem við vorum ekki nógu vel í stakk búin að glíma við.

Þó margt væri vel gert í úrvinnslu fjármálakreppunnar hér þá réð velferðarkerfið ekki nógu vel við áfall af þeirri stærðargráðu sem varð í hruninu. Varnir gegn verðbólgu og skuldavanda voru sérstaklega ófullnægjandi og atvinnuleysisbætur voru of lágar.

Nú er staðan með öðrum hætti.

 

Lærdómur fyrir núverandi kreppu

Kórónukreppan er önnur tegund af kreppu en fjármálakreppan sem hófst 2008. Nú stöðvast efnahagslíf þjóða með óvenju afgerandi hætti vegna sóttvarnaraðgerða, en síðast var skuldavandi banka og fyrirtækja helsta orsök kreppunnar.

Að þessu sinni reynir öðru fremur á heilbrigðiskerfi þjóðanna til að fækka dauðsföllum af völdum faraldursins og á atvinnuleysisbótakerfin til að tryggja framfærslu þeirra sem missa vinnuna.

Þjóðir sem búa við altækar sjúkratryggingar og öflug heilbrigðiskerfi standa að öðru jöfnu betur að vígi gegn veirunni. Nú munu t.d. Bandaríkjamenn líða fyrir það að umtalsverður hluti þjóðarinnar býr við ófullnægjandi sjúkratryggingar.

Þegar láglaunafólk þar í landi missir vinnuna missir það um leið sjúkratrygginguna (ef það var ekki án hennar fyrir). Það hefur þá oft ekki efni á að leita lækninga ef það veikist, freistast til að mæta veikt og smitandi til vinnu og dreifir veirunni meðal vinnufélaga sem eru í álíka veikri stöðu. Þetta er vítahringur fátæktar og ófullnægjandi velferðartrygginga.

Ríka fólkið í Bandaríkjunum býr hins vegar við hágæða heilbrigðisþjónustu. Dánartíðni verður því mun hærri í láglaunahópunum þar í landi (sjá um það hér).

Þjóðirnar við Miðjarðarhaf fóru margar mjög illa út úr fjármálakreppunni og þurftu að taka á sig mikinn niðurskurð velferðarútgjalda í kjölfarið, vegna mikilla opinberra skulda. Þær voru ekki búnar að jafna sig þegar kórónukreppan skall á og hefur hún nú þegar leikið sumar þeirra afar illa, t.d. Ítali og Spánverja.

Þar verða miklar neikvæðar afleiðingar af núverandi kreppu sem geta orðið langvinnar. Velferðarkerfi þessara þjóða eru að auki mun veikari en við eigum að venjast á Norðurlöndum.

 

Geta og vilji stjórnvalda skiptir líka máli

En það reynir líka á viðbrögð stjórnvalda í framkvæmd sóttvarnaraðgerða. Samkomubönn og samskiptareglur sem hamla útbreiðslu veirunnar eru félagslegar aðgerðir, stýring hegðunar frá áhættu.

Stjórnlynd og vel skipulögð stjórnvöld og hlýðnar þjóðir geta náð góðum árangri í baráttu við skæðar farsóttir, eins og mörg dæmi eru um frá Asíu (t.d. Kína, Singapore, Taiwan, Suður-Kórea og Hong Kong).

Lausatök á sviði sóttvarna leiða til meiri útbreiðslu sýkinnar sem leggur svo ofurálag jafnvel á öflugustu heilbrigðiskerfi.

Þar sem saman fer öflug stjórnun sóttvarna og öflugt heilbrigðiskerfi verður manntjónið af völdum veirunnar hvað minnst (t.d. í Þýskalandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og á Íslandi).

Þar sem saman fara veik stjórnvöld og ófullburða velferðarkerfi er hætta á verri afleiðingum fyrir lífskjör almennings (t.d. í þróunarlöndum).

Hvað efnahagslegar afleiðingar Covid-kreppunnar varðar skiptir lágmörkun umfangs atvinnuleysis og framfærsla atvinnulausra mestu máli.

Það þýðir ekki að biðja markaðinn eða frjálshyggjumenn um lausnir á þeim vanda.

Ríkisvaldið eitt er til bjargar – rétt eins og var í fjármálakreppunni eftir 2008.

Sumar ríkisstjórnir standa þó illa að vígi, meðal annars vegna baráttu frjálshyggjumanna fyrir niðurskurði velferðarútgjalda og veikingu ríkisvaldsins á síðustu fjórum áratugum.

Of mikill árangur þeirra á þessum sviðum hefur því miður gert það að verkum að viðnám gegn núverandi kreppu er víða of veikburða. Miklar skuldir stjórnvalda eftir síðustu kreppu þyngja stöðuna líka.

Þar sem stjórnvöld geta síður stutt við atvinnulífið til að halda aftur af auknu atvinnuleysi (með Keynesískum örvunaraðgerðum) og þar sem atvinnuleysisbótakerfin eru lakari þar mun kreppan koma harðar niður á lífskjörum almennings. Þar mun ójöfnuður aukast í kjölfarið.

Áhrif frjálshyggjunnar hafa þannig öll verið á versta veg hvað þetta snertir.

 

Staða Íslendinga nú – það sem bæta þarf

Við Íslendingar njótum þess nú að búa við öflugt heilbrigðiskerfi sem nær til allra og er vel faglega mannað. Stjórnvöld hafa einnig haldið vel á málum við framkvæmd sóttvarnaraðgerða, undir leiðsögn fagfólks.

Útbreiðslu sóttarinnar er því haldið í lágmarki og dánartíðni virðist ætla að verða með minnsta móti hér á landi.

Það verður seint fullþakkað, en sýnir mikilvægi þess að búa við góða stjórnarhætti og öflugt velferðarkerfi sem nær til allra íbúa landsins.

Það sem er tvísýnast hjá okkur nú er atvinnuleysisvandinn. Hann getur orðið mikill og nokkuð langvinnur, einkum í sumum greinum ferðaþjónustunnar. Hversu vel atvinnuleysisbótakerfið tryggir kjör atvinnulausra verður lykilatriði fyrir lífskjörin í landinu á næstu mánuðum.

Í grunninn eru atvinnuleysisbæturnar hér á landi of naumt skammtaðar: atvinnulausir halda einungis 70% af fyrri heildarlaunum í fyrstu 3 mánuðina og síðan fer fólk á flatar atvinnuleysisbætur sem eru aðeins 289.510 kr. á mánuði, miðað við fullan bótarétt.

Þeir sem lenda í langtímaatvinnuleysi eru því mjög illa varðir gegn kjaraskerðingu. Að lágmarki lenda atvinnulausir í 30% kjaraskerðingu. Þau sem voru á meðallaunum fá t.d. meira en 50% kjaraskerðingu við að fara á flötu atvinnuleysisbæturnar (eftir 3 mánuði í atvinnuleysi).

Stjórnvöld hafa þó bætt úr með innleiðingu hlutabótaleiðarinnar. Hagur þeirra sem geta notað hana (þ.e. halda minnst 25% starfshlutfalli hjá vinnuveitanda sínum) er mun betur tryggður en þeirra sem missa vinnuna að fullu.

Fólk með allt að 400 þús. krónur í laun heldur þeim til fulls á meðan það er á hlutabótum og hlutfallið er einnig hærra en 70% hjá þeim sem voru með tekjur um 700 þúsund kr. á mánuði.

Útfærsla hlutabótaleiðarinnar hefur þannig bætt atvinnuleysisbótakerfið svo um munar. En ekki geta allir notið þess. Þau sem fá beinar uppsagnir fara á verri kjörin í almenna atvinnuleysisbótakerfinu.

Ef við munum búa við langvarandi atvinnuleysi, sem verður nær örugglega hjá stórum hluta starfsfólks í ferðaþjónustu, þá þarf að efla atvinnuleysisbótakerfið enn frekar til að verja atvinnulausa betur.

Það er best gert með hækkun flötu bótanna, lengingu tímabilsins á bótum sem eru hlutfall fyrri launa og/eða með hækkun bótahlutfallsins fyrir tekjulægri hópa, úr 70% í t.d. 90%. Þannig yrðu viðkvæmustu hóparnir betur varðir gegn of miklum kjaraskerðingum. Það er bæði réttlátt og skynsamlegt að gera.

Mikið veltur auðvitað líka á aðgerðum stjórnvalda og seðlabanka til að halda á floti fyrirtækjum sem ekki geta snúið að fullu til eðlilegrar starfsemi strax á næstu mánuðum. Það sama gildir um varnir gegn verðbólgu, sem seðlabankinn hefur nú mikla burði til að tryggja, ef vilji er til.

Fyrstu skref stjórnvalda voru mikilvæg, en betur má ef duga skal. Mikilvægur kostur í stöðu Íslands í þessari kreppu er að fjárhagur ríkisins og seðlabankans er góður, ólíkt því sem var eftir fjármálakreppuna 2008. Geta ríkisvaldsins til að brúa gjánna sem er í veginum er því mikil.

Þegar heilbrigðisyfirvöld verða tilbúin í afléttingu sóttvarnaraðgerða verður mikilvægt að veita efnahagslífinu örvun með öflugri einkaneyslu landsmanna sjálfra, því bið verður væntanlega á að erlendir ferðamenn snúi hingað í miklum mæli.

Þá mun kaupmáttur launa og atvinnuleysisbóta leika stórt hlutverk í eflingu einkaneyslunnar hér innanlands.

Íslendingar hafa góðar forsendur til að komast þokkalega frá þessari kreppu.

——————————————

[1] Samstarfsaðilarnir voru Mary Daly við Oxford háskóla í Englandi, Joakim Palme við Uppsala háskóla í Svíþjóð, Olli Kangas við Turku háskóla í Finnlandi, Jon Erik Dölvik við FaFo rannsóknarstofnunina í Noregi, Jörgen Goul-Andersen við Álaborgarháskóla í Danmörku, Fran Bennett við Oxford háskóla, Manos Matsaganis við tækniháskólann í Mílanó á Ítalíu og Ana R. Guillen við Oviedó háskólann á Spáni. Íslensku rannsóknarmennirnir voru Agnar Freyr Helgason lektor við Háskóla Íslands og Kolbeinn Stefánsson sérfræðingur á Hagstofu Íslands.

——————————————-

Síðasti pistill: Viðbrögð við kreppunni – tékklisti launafólks

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 18.4.2020 - 11:27 - FB ummæli ()

Viðbrögð við kreppunni – tékklisti launafólks

Kóvid-kreppan er ólík fjármálakreppunni sem hófst 2008. Viðbrögðin þurfa því að vera með öðrum hætti.

Nú stöðvast efnahagslífið vegna tímabundinna sóttvarnaraðgerða. Fjármálakreppan varð vegna djúpstæðs skuldavanda banka, fyrirtækja og heimila.

Allsherjarlokun samfélaga nú leiðir til fordæmalausrar aukningar atvinnuleysis, en hún er tímabundin. Það er lykilatriði.

Þegar sóttvarnaraðgerðum linnir mun atvinnulífið fara í meiri virkni, stig af stigi. Þá mun aftur draga úr atvinnuleysi, eins og gert er ráð fyrir í nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir umheiminn (sjá hér) og í spá Vinnumálastofnunar hér á landi (sjá hér).

Meðaltal atvinnuleysis á árinu 2020 verður því mun lægra en er nú á meðan sóttvarnaraðgerðir eru í hámarki.

Ferðaþjónustutengdar greinar verða hins vegar í verstu stöðu hér á landi. Þar mun kreppan vara lengst. Ferðaþjónustan þarf því að vera í gjörgæslu um hríð.

Hvað snertir það stóran hluta vinnumarkaðarins?

Í ferðaþjónustutengdum greinum störfuðu fyrir kreppu um 12-14% vinnandi fólks. Þó greinin sé mikilvæg fyrir störf og gjaldeyrisöflun þá er hún eftir sem áður minnihluti vinnumarkaðarins og efnahagslífsins.

Eftir að sóttvarnaraðgerðum linnir mun meirihluti atvinnugreina geta snúið til þokkalegra starfsskilyrða á ný. Vandi ferðaþjónustunnar er því ekki vandi alls atvinnulífsins í sama mæli.

Fyrirtæki í byggingariðnaði, sjávarútvegi, framleiðsluiðnaður, verslun, sem og landbúnaður og opinber þjónusta, eiga öll þokkalega góðar líkur á að ná tiltölulega fljótt upp viðunandi starfsemi – að óbreyttu háttarlagi veirunnar.

Þetta er einmitt forsenda spár AGS um að árið verði mun skárra en staðan er nú í miðjum sóttvarnaraðgerðum.

Menn ættu því ekki að ýkja stærð áfallsins.

Því til viðbótar er staða fjármála ríkisins og seðlabankans mjög góð og getan til að taka á skammtímavanda því mikil.

Stærstu álitamálin nú snúast um útfærslur viðbragða við kreppunni.

 

Það sem gera þarf – frá sjónarhóli launafólks

Mikilvægast er að tryggja afkomu launafólks í gegnum kreppuna og verja betur þá sem missa vinnuna að hluta eða fullu. Efna þarf alla þætti lífskjarasamningsins til að tryggja viðspyrnu í uppsveiflunni og stöðugleika í framhaldinu.

Eftirfarandi eru lykilatriði til að ná ofangreindum markmiðum:

 • Skila kaupmætti lífskjarasamningsins til fulls svo hægt verði að efla einkaneyslu innanlands í kjölfar sóttvarnaraðgerða.
 • Hækka flatar atvinnuleysisbætur úr 289.510 kr. á mán. til samræmis við lágmarkslaun (341.000 kr. á mánuði frá 1. apríl sl.).
 • Lengja tímabil atvinnulausra á hlutfalli fyrri heildarlauna úr 3 mánuðum í 6.
 • Hækka hámarksviðmið atvinnuleysisbóta úr 456.404 kr. á mánuði í átt að meðallaunum (um 650.000).
 • Útvíkka og framlengja hlutabótaleiðina svo hún nái markmiðum sínum til fulls.
 • Tryggja afkomu þeirra sem ekki geta stundað vinnu til fulls vegna smithættu (t.d. vegna undirliggjandi sjúkdóma eða vegna skertrar þjónustu leikskóla og grunnskóla o.fl.). Þessir hópar falli undir lög um laun í sóttkví.
 • Skila öllum úrræðum í húsnæðismálum sem lofað var í lífskjarasamningi (hlutdeildarlán, aukning almennra íbúða, leigubremsa o.fl.).
 • Seðlabankinn tryggi að verðbólga fari ekki yfir markmið (2,5%), svo kaupmáttur lífskjarasamningsins sé tryggður og að skuldakreppu verði aftrað.
 • Lífeyrir almannatrygginga hækki að lágmarki til samræmis við lágmarkslaun á vinnumarkaði.
 • Í kjölfar sóttvarnaraðgerða verði virkni- og stuðningsúrræði fyrir langtímaatvinnulausa efld.
 • Aðgerðir stjórnvalda stuðli að jöfnuði, líkt og lífskjarasamningurinn.
 • Eigendur fyrirtækja sem njóta opinbers stuðnings í kreppunni undirgangist skilyrði um að greiða ekki út arð eða kaupa hlut í sjálfum sér næstu tvö árin.

Vegna þess að lengri tíma mun taka að fá erlenda ferðamenn aftur til landsins í nægjanlegum mæli þarf uppsveiflan í kjölfar sóttvarnaraðgerða að byggja öðru fremur á aukinni innlendri eftirspurn, þ.e. einkaneyslu almennings og auknum opinberum framkvæmdum.

Ofangrein kjaraatriði munu leika lykilhlutverk í að ná því markmiði.

Um þessi sjónarmið er víðtæk samstaða innan hreyfingar launafólks (sjá t.d. hér og hér).

Stuðningsaðgerðir stjórnvalda og seðlabanka við fyrirtæki í tímabundnum vanda skipta einnig miklu máli.

Að verja kjör almennings og líf mikilvægra lífvænlegra fyrirtækja í þessum aðstæðum er bæði réttlátt og efnahagsleg hagkvæmt (í anda Keynes).

Saman munu þessar aðgerðir auka líkur á farsælli framvindu þjóðarbúskaparins eftir að sóttvarnaraðgerðum linnir – uns bóluefni verða tiltæk.

 

Síðasti pistill: Lækkun tryggingagjalds vegi á móti launahækkun

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 3.4.2020 - 08:58 - FB ummæli ()

Kreppan: Lækkun tryggingagjalds vegi á móti launahækkun

 

Sumir hafa áhyggjur af því að fyrirtækjum reynist erfitt að taka á sig umsamdar launahækkanir frá 1. apríl í þeim þrengingum sem nú eru vegna sóttvarnaraðgerða.

Nefnd hefur verið sú hugmynd að launafólk gefi eftir hluta af lífeyrisréttindum sínum til að létta atvinnurekendum róðurinn. Það felur í reynd í sér að launafólk á almennum markaði greiði sér sjálf launahækkunina með skertum lífeyrisréttindum.

Innan Eflingar hefur einnig verið rætt um aðrar leiðir sem verja betur réttindi og kjör launafólks.

Ein er hugmyndin um tímabundna eftirgjöf tryggingagjaldsins sem leggst á launagreiðendur. Sú leið myndi létta fyrirtækjum að greiða umsamda launahækkun – og jafnvel ríflega það.

Ríkið hefur gott svigrúm til að gera þetta, bæði vegna góðrar fjárhagsstöðu og vegna þess að framkominn aðgerðapakki ríkisins er frekar lítill miðað við mörg grannríkin, þó hann sé annars ágætlega hannaður.

Tryggingagjaldið leggst á launagreiðendur og það mætti fella niður í 3 til 6 mánuði eða lækka það veglega til lengri tíma, eftir því hver framvinda kreppunnar verður.

Það er bæði sanngjarnari og virkari leið en skerðing lífeyrisréttinda launafólks á almennum markaði, þó báðar stefni að sama markmiði.

 

Eflum launadrifinn hagvöxt í kjölfar sóttvarna

Launahækkun í samdráttarkreppu eins og nú er verður afar mikilvægur liður í því að ná efnahagslífinu á flug á ný, þegar sóttvarnaraðgerðum lýkur.

Eftirfarandi eru rök fyrir því.

Stöðvun atvinnulífsins vegna sóttvarnaraðgerðanna verður tímabundin – vonandi aðeins nokkrar vikur eða örfáir mánuðir í viðbót, ef marka má reynslu Kínverja.

Í kjölfarið eru ágætar forsendur fyrir því að þeir hlutar atvinnulífsins sem ekki byggja að mestu á ferðaþjónustu geti snúið til sem næst eðlilegrar starfsemi.

Ferðaþjónustan verður í sérstöðu því lengri tíma mun taka að ná henni á flug aftur, vegna þess að útlendingar munu trauðla ferðast hingað í stórum stíl strax.

Við gætum þurft að bíða eftir að virk bóluefni eða lyf gegn veirunni komi fram til að skapa á ný eðlileg skilyrði fyrir alþjóðlega ferðaþjónustu. Svo skiptir einnig máli hvernig kreppan leikur kaupmátt þeirra þjóða sem hingað leita sem ferðamenn.

Í ferðaþjónustu og beintengdum greinum (fólksflutningar, flug, hótel, veitingahús og bílaleigur o.fl.) starfa um 12% vinnandi fólks á Íslandi. Aðrar greinar ættu að komast smám saman í þokkalegt horf eftir að sóttvarnaraðgerðum lýkur.

Það er því líklegt að fyrst eftir að sóttvarnaraðgerðum lýkur þurfum við að stóla á okkur sjálf að umtalsverðu leyti til að örva hagkerfið til uppsveiflu á ný.

Klassíska leiðin til þess er örvun eftirspurnar í anda hagfræðingsins John M. Keynes. Þar getur launadrifinn hagvöxtur leikið stórt hlutverk í að rífa einkaneysluna upp, ásamt auknum opinberum framkvæmdum við innviði, viðhald bygginga og fleira.

Launahækkun þegar hagkerfið er tilbúið í upsveiflu verður þannig vítamínssprauta fyrir þjóðarbúskapinn og gæti jafnvel mildað höggið sem ferðaþjónustan verður fyrir (aukin ferðalög innanlands, aukin notkun veitingastaða, aukin verslun o.fl.).

Aukin áhersla á notkun innlendrar framleiðslu verður líka gagnleg við svona aðstæður.

Það er því mjög mikilvægt að halda umsömdum launahækkunum til haga. Um það er enginn ágreiningur innan verkalýðshreyfingarinnar.

Ríkið getur greitt fyrir því að ofangreind örfun hagkerfisins komi að fullu til framkvæmda á næstunni, einmitt með því að létta enn frekar undir með launagreiðendum en þegar hefur verið gert.

Lækkun tryggingagjaldsins væri öflug og skjótvirk leið til þess.

Önnur leið gæti verið að auka við hlutabótaleiðina.

Æskilegt er að verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og stjórnvöld stilli saman strengi sína á uppbyggilegan hátt til að tryggja sem best kröftuga uppsveiflu að loknum sóttvarnaraðgerðum.

 

Síðasti pistill: Lífið eða hagvöxturinn: Hvort á að hafa forgang?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.3.2020 - 15:01 - FB ummæli ()

Lífið eða hagvöxturinn: Hvort á að hafa forgang?

Í Bandaríkjunum er nú risin hávær deila milli viðskiptajöfra og auðmanna annars vegar og lýðheilsu- og faraldursfræðinga hins vegar um viðbrögð við veirufaraldrinum.

Talsmenn lýðheilsu og forvarna hafa lagt til samskiptahömlur til að aftra útbreiðslu veirunnar og dauðsföllum. Þetta kemur niður á viðskiptalífinu.

Í flestum ríkjum eru þessi sjónarmið lækisfræðanna ríkjandi. Enda ekki betri leið þekkt til að verjast svo skæðri faraldurssótt, til að vernda líf.

Eftir þessu hefur verið farið í Bandaríkjunum í rúma viku, en þar þykja stjórnvöld þó hafa brugðist alltof seint við hættunni.

Forsetinn Trump gerði framanaf lítið úr ógninni og fullyrti að stjórnvöld hefðu stjórn á faraldrinum – ekkert væri að óttast. Það var augljóslega rangt!

Loks þann 16. mars gaf forsetinn út mild fyrirmæli um hömlur á samskiptum til að draga úr útbreiðslu veirunnar – sem skyldu þó einungis gilda til 15 daga.

 

Peningamenn gegn lýðheilsufólki í USA

Nú eftir rúma viku af gildistímanum hefur forsetinn komið fram með efasemdir um mikilvægi aðgerðanna og boðar afléttingu þeirra sem allra fyrst – helst ekki seinna en um páska.

Þetta er áður en veiran hefur náð hámarksútbreiðslu í Bandaríkjunum! Ekki er heldur séð fyrir hvenær toppi hættunnar verði náð.

Forsetinn er að hugsa um hagvöxtinn, peninga og gróða efnamanna. Þar á meðal eigin hag.

Aðrir auðmenn og nýfrjálshyggjuhagfræðingar í Bandaríkjunum taka undir með honum (þetta er áberandi á Fox sjónvarpsstöðinni). Sumir úr þessum hópum segja beinlínis að í lagi sé að fórna lífi eldri borgara til að tryggja betra efnahagslíf fyrir yngri kynslóðina.

Þetta gildismat endurspeglar bandaríska samfélagið, þar sem hagsmunir og gildi auðmanna eru alltaf ríkjandi en hagur almennings og sérstaklega þeirra sem höllum fæti standa er víkjandi.

Ráðandi öflum bandaríska samfélagsins finnst gróðinn til skemmri tíma mikilvægari en líf einstakra borgara.

 

Ísland er réttu megin í gildismatinu

Við sem búum á Íslandi og á Norðurlöndum almennt megum þakka fyrir að búa ekki við þessi bandarísku sjónarmið.

Enda auðkennum við samfélög okkar sem “velferðarríki” – en í Bandaríkjunum er það hugtak næstum skammaryrði.

Hér er lífið veigameira á vogaskálunum en gróði eignafólks – eða svo virðist vera hjá flestum.

Ég held að ef forsætisráðherra okkar myndi tala eins og Trump gerir um þessi mál þá myndi þjóðinni verða verulega misboðið.

Nýkynntar aðgerðir íslenskra stjórnvalda miða að því að fleyta atvinnulífi og heimilum í gegnum kreppuna, sem verður að öllum líkindum skammtímaáfall.

Við getum verið ósammála um stærð aðgerðanna og einstök einkenni á útfærslum, en markmiðið er rétt.

Hvergi er heldur slegið hér af kröfum lýðheilsufræðanna um aðgerðir til að spyrna gegn útbreiðslu og dauðsföllum og fagfólk látið sjá um forystuna.

Jafnvel seðlabankastjórinn, æðsti yfirmaður peningamálanna, er með rétt gildismat þegar hann segir í dag: “Við leggum á okkur kostnað til að bjarga lífum”.

Eftir því sem lengra líður á kreppuna tekur meira á og þá verður erfiðara en jafnframt mikilvægara að halda lýðheilsumarkmiðunum í hávegi – undir leiðsögn sérfræðinganna í heilbrigðisgeiranum.

Þannig dregur stór kreppa fram einkenni samfélaga og ekki síst hugarfar og gildismat ráðandi afla.

Við krefjandi aðstæður kemur best í ljós úr hverju menn eru gerðir og hvað fyrir þeim vakir.

 

Síðasti pistill: Atvinnulausir þurfa mest á aukinni vernd að halda

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 16.3.2020 - 10:40 - FB ummæli ()

Atvinnulausir þurfa mest á aukinni vernd að halda

Í skammtíma efnahagskreppu eins og nú gengur yfir vegna Covid-19 veirunnar verða þeir sem missa vinnuna fyrir mestum þrengingum.

Þeir verða fyrir minnst 30% kjaraskerðingu með því að fara á atvinnuleysisbætur sem eru einungis 70% af fyrri heildarlaunum viðkomandi. Þær bætur eru einungis veittar í 3 mánuði og þá fara þeir sem áfram eru atvinnulausir á flatar bætur, sem nú eru einungis 289.510 kr. á mánuði miðað við 100% bótarétt.

Þá verður kjaraskerðingin miklu meiri.

Sá sem er t.d. með 580 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun missir helming tekna sinna eftir fyrstu 3 mánuði í atvinnuleysi.

Það er gríðarlegt áfall sem setur framfærslu fjölskyldunnar í kreppu. Afborganir lána eða húsaleigu verða mikið vandamál.

Þeir sem missa vinnuna, að fullu eða að hluta, eru því alla jafna í mestum vanda. Þá þyrfti að verja betur en núverandi atvinnuleysistryggingakerfi býður uppá, ef menn vilja að þeir beri ekki hlutfallslega mestar byrðar af kreppunni, sem þeir eiga svo sannarlega ekki sök á.

Og hverjir eru alla jafna í mestri hættu á að missa vinnu á samdráttartíma?

Jú, atvinnuleysi eykst venjulega mest hjá láglaunafólki.

Þeir sem halda fullum launum sínum í gegnum kreppuna þurfa hins vegar enga aðstoð við afborganir lána eða annars í framfærslu sinni.

Nú þarf því ekki að huga sérstaklega að skuldabyrði hjá almenningi, ólíkt því sem var í kjölfar fjármálakreppunnar 2008. Líkur á miklu verðbólguskoti eru litlar. Vextir eru að auki óvenju lágir.

 

Hvað þarf að gera?

Það eru því fyrst og fremst þeir sem missa vinnuna sem eru í brothættri stöðu og þeir eiga að vera í forgangi.

Það er best gert með því að tryggja þeim betri atvinnuleysisbætur á meðan kreppan gengur yfir, sem færir þeim helst fullar tekjur áfram. Þá geta þeir og fjölskyldur þeirra haldið lífi sínu og skuldbindingum í eðlilegu horfi. Siglt áfallalaust í gegnum kreppuna – ef heilsan leyfir.

Til að þetta markmið náist þarf að hækka launahlutfall atvinnuleysisbóta fyrstu 3 mánuðina úr 70% af fyrri heildarlaunum í 100%. Einnig þarf að halda því opnu að lengja bótatímabilið á tekjutengdum bótum ef uppsveiflan eftir að faraldurinn er genginn yfir tefst eitthvað, t.d. úr 3 mánuðum í 5 eða 6. Loks mætti hækka þakið á tekjutengdu bótunum upp í jafnvirði meðallauna.

Þá væri einnig æskilegt að þeir sem þegar eru orðnir atvinnulausir fái hækkun á flötu atvinnuleysisbótunum, til dæmis úr 289.510 kr. í 317.000 krónur, til jafns við lágmarkslaunatrygginguna. Flötu bæturnar eru alltof lágar í dag.

Reynslan af áhrifum fjármálakreppunnar 2008 á fjárhagsþrengingar almennings í 30 Evrópulöndum sýnir skýrlega að þar sem atvinnuleysisbótakerfið var veikara fyrir þar jukust fjárhagsþrengingar almennings mest (sjá ítarlega umfjöllun um það hér). Það er því til mikils að vinna með því að efla atvinnuleysisbæturnar.

Íslenska atvinnuleysisbótakerfið í núverandi mynd er ekki nógu öflugt til að veita fullnægjandi vernd í atvinnuleysiskreppu.

Þegar um er að ræða skammtímakreppu er tiltölulega ódýrt fyrir ríkið að efla varnir atvinnuleysisbótanna til skamms tíma. Þar með væri launafólk varið á viðunandi hátt og samfélagið stæði sterkar eftir.

Slíkar verndaraðgerðir má vel tengja við heimild fyrirtækja til að færa fólk tímabundið í hlutastarf og fá það sem vantar uppá full laun greitt úr atvinnuleysistryggingasjóði, en slíkt úrræði ásamt lengingu bótatímabilsins gafst vel í kjölfar hrunsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.2.2020 - 14:13 - FB ummæli ()

Efling hefur þjóðina með sér!

Ný könnun á viðhorfi almennings til baráttu Eflingar fyrir sérstakri leiðréttingu á kjörum láglaunakvenna er starfa við barnauppeldi og umönnun er afgerandi (sjá hér).

 

Viðhorf til Leiðréttingarinnar

Um 59% styðja kröfur Eflingar að öllu eða miklu leyti og önnur 20% styðja þær í meðallagi.

Samtals taka um 79% þjóðarinnar undir kröfur Eflingar.

Einungis 21% segjast styðja þær bara að litlu eða engu leyti.

 

Viðhorf til verkfallsaðgerða Eflingar

Um 56% eru mjög eða frekar hlynnt verkfallsaðgerðum Eflingar.

Um 19% til viðbótar segjast styðja þær í meðallagi.

Samtals eru það um 75% sem styðja verkfallsaðgerðirnar.

 

Eflingu hefur tekist að koma málstað sínum á framfæri þannig að þjóðin tekur undir.

Borgaryfirvöld segjast hafa sama markmið og Efling.

Er þá ekki komið að því að framkvæma?

 

Síðasti pistill: Furðulegt vanmat starfa við barnauppeldi og umönnun

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 16.2.2020 - 08:54 - FB ummæli ()

Furðulegt vanmat starfa við barnauppeldi og umönnun

Í deilu Eflingar við Reykjavíkurborg eru leikskólar og umönnunarstörf í brennidepli.

Störf á þessu sviði eru lægst metin til launa af öllum störfum á íslenska vinnumarkaðinum (sjá nánar hér).

Þá er ég að tala um grunnlaun + reglubundnar aukagreiðslur (t.d. álög og yfirvinnu), það er heildarlaun í hverjum mánuði.

Í töflunni hér að neðan má sjá nokkur dæmi um hið brenglaða mat á störfum við barnauppeldi og umönnun.

Störf við sorphreinsun gefa að meðaltali 576.000 krónur á mánuði í heildarlaun (allt meðtalið).

Háskólamenntaðir leikskólakennarar eru lægri, með 543.000 krónur, en ófaglærðir sem starfa við barnagæslu eru með 375.000 krónur – lang lægstir allra á vinnumarkaðinum.

Ef ófaglærður starfsmaður leikskóla færi að vinna á kassa í Bónus fengi hann 130.000 krónum meira á mánuði og ef hann færi í sorphreinsun þá fengi hann 201.000 krónum meira á mánuði.

Þessi munur á heildarlaunum er að stórum hluta vegna mismunandi aðgengis að aukagreiðslum í þessum störfum.

Allir hafa meiri aukagreiðslur en starfsfólk á leikskólum og við umönnun, það er í starfstengd álög, bónusa, yfirvinnu o.fl.

Það er raunar ævintýralegt það mat sem liggur til grundvallar þessum mun heildarlauna sem er á störfum við barnauppeldi og ýmsum öðrum störfum í neðri helmingi launastigans – hjá faglærðum jafnt sem ófaglærðum.

 

Lausnin á kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar

Í töflunni er líka að finna lykilinn að lausn kjaradeilunnar.

Annað hvort er fyrir borgina að samþykkja tillögu Eflingar að leiðréttingu, sem er hönnuð þannig að hún hafi ekki fordæmisgildi fyrir höfrungahlaup. Hún felur í sér hækkun launaflokka frá þeim lægstu sem fjarar svo út undir 450 þús. kr. mánaðarlaunum.

Hins vegar er að bæta ofaná kjarabætur lífskjarasamningsins verulega auknum álagi fyrir þessi tilteknu störf. Fyrirmynd að því getur borgin einfaldlega fundið í aukagreiðslum sem tíðkast í öðrum starfsgreinum, t.d. í töflunni hér að ofan.

Störf við leikskóla og umönnun þurfa að vera samkeppnishæf.

Hvernig væri t.d. að starfsfólk á leikskólum fengi sambærilegt álag og bónusa og sorphreinsunarfólk er með? Það myndi hækka laun ófaglærðra  á leikskólunum um 201.000 krónur á mánuði.

Staðreyndin er þó sú, að vegna þess hversu hófleg krafa Eflingar er, þá myndi helmingurinn af aukagreiðslum sorphreinsunarmanna hugsanlega leysa deiluna á leikskólunum og í umönnuninni.

Slíkt endurmat afmarkaðra hópa hefur ekkert fordæmisgildi fyrir hærra launaða hópa – og því á ekki að vera nein hætta á höfrungahlaupi upp launastigann.

Hvers vegna skyldu störf á leikskólum og við umönnun bera minnst úr býtum og ekki njóta svipaðra aukagreiðslna og margar aðrar starfsgreinar?

Efast nokkur um að þetta eru í senn mjög erfið og mikilvæg störf?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 3.2.2020 - 08:43 - FB ummæli ()

Leiðrétting Eflingar: Rök og skýringar

Samtök atvinnulífsins (SA) stilltu upp mjög villandi mynd af kröfum Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg í Fréttablaðinu í vikunni.

Þar fór saman skökk talnameðferð og mikið heimsendaraus um hættu á höfrungahlaupi og eyðileggingu Lífskjarasamningsins.

Ástæða er til að leiðrétta þetta gönuhlaup SA-manna og ritstjóra markaðskálfs Fréttablaðsins.

Megininntak leiðréttingarinnar sem Efling hefur lagt til við Reykjavíkurborg felst í því að endurskoða starfsmat fyrir algeng láglaunastörf hjá Reykjavíkurborg, sem einkum er sinnt af konum.

Þetta myndi lyfta þeim í launatöflunni sem eru á lægstu launum með sérstakri taxtahækkun á bilinu 20 til 50 þúsund.

Mest fá þau sem eru á lægstu launum og síðan fjarar leiðréttingin út við 450 þús. kr. á mánuði.

Það er því ekki um að ræða neina stigmögnun upp launastigann, hvorki vegna höfrungahlaups né neinna annarra íþróttagreina.

Áfram er virkur stígandi í launatöflunni, en bara ekki alveg jafn mikill og nú er. Þannig er það einmitt sem á að leiðrétta þá sem eru neðst í launastigum.

En hvers vegna er ástæða til að leiðrétta þennan hóp sérstaklega?

Í fyrsta lagi vegna þess að það er mjög erfitt að ná endum saman á þessum lægstu launum, einkum í Reykjavík þar sem húsnæðisverð er langhæst á landinu öllu.

Í öðru lagi er ástæðan sú að grunnlaun fyrir sambærileg störf eru heldur hærri á almennum markaði en hjá Reykjavíkurborg. Auk þess er meira um aukatekjur á almennum markaði í formi bónusa, álagsgreiðslna og yfirvinnu.

 

Samanburður á borg og almennum markaði

Muninn á grunnlaunum í völdum störfum hjá borginni og á almennum markaði má sjá á töflunni hér að neðan (t.d. í dálki 3).

Tölurnar eru í grunninn frá Hagstofunni fyrir almenna markaðinn en fyrir Reykjavíkurborg koma þær úr starfsmati og launatöflu borgarinnar (Heimild: Ragnar Ólason, sérfræðingur hjá Eflingu).

Tölurnar eru settar fram eins og þær verða eftir að hækkanir Lífskjarasamningsins eru að fullu komnar fram. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum hækkunum desember- og orlofsuppbóta.

Eins og sjá má í dálki 3 eru grunnlaun í þessum störfum á bilinu 27 til 80 þúsund krónum hærri á almennum markaði. Þannig er það nú og verður áfram eftir að hækkanir Lífskjarasamningsins koma til – að öðru óbreyttu.

Með leiðréttingunni fara lægri störfin hjá borginni aðeins framúr grunnlaunum sambærilegra starfa á almennum markaði (7 til 18 þús. kr. á mán. – sbr. dálkur 4), en það er til að bæta fyrir meiri möguleika á aukatekjum á almennum markaði vegna bónusa, álagsgreiðslna og vakta- og yfirvinnu.

Vel þekkt er að starfsfólk sveitarfélaga hefur í mörgum tilfellum mjög takmarkaðan aðgang að slíkum aukatekjum og er það skýring þess að það mælist jafnan með lægstu heildartekjur allra á íslenskum vinnumarkaði.

Þetta er því bæði þörf og málefnaleg leiðrétting sem Efling fer fram á fyrir láglaunafólkið hjá borginni.

 

Er hætta á höfrungahlaupi?

Þar sem leiðréttingin er bundin við afmarkað launabil og stiglækkandi að auki á ekki að vera hætta á smitun launahækkunarinnar upp launastigann.

Hins vegar er ástæða til þess að leiðréttingin nái einnig til meðlima Sameykis sem eru í sambærilegum störfum hjá borginni á sambærilegum kjörum.

Það fólk á sömuleiðis rétt á að fá jöfnun gagnvart markaðslaunum.

Í þessari leiðréttingu felst hins vegar ekkert fordæmi fyrir aðra launahærri hópa.

Þessu til viðbótar má hins vegar benda á að ríkið hefur þegar samið við nokkra hópa háskólamenntaðs starfsfólks með hækkunum í hæstu töxtum sem eru talsvert umfram hækkanir Lífskjarasamningsins (sjá hér).

SA-menn og vanstillti skrifarinn á Fréttablaðinu (Hörður Ægisson) hafa ekki gert athugasemdir við þetta, enda virðast þeir hafa meiri samúð með hálaunafólki en þeim sem verst standa.

 

Hefur borgin efni á þessari leiðréttingu?

Reykjavíkurborg afgreiddi fjárhagsáætlun sína fyrir árið 2020 með 2,5 milljarða afgangi.

Ef leiðréttingin kæmi að fullu til framkvæmda á þessu ári myndi hún kosta um 1,2 milljarða fyrir Eflingarfélaga og svipað fyrir Sameykis-fólk.

Heildarkostnaður yrði innan rekstaraafgangsins og ekki þarf því að koma til hækkunar skatta eða gjalda vegna þessa.

Þá gerir borgin ráð fyrir mun meiri afgangi á seinni árum samningstímans, sem einmitt er ástæða til að láta skila sér að hluta til láglaunafólksins hjá borginni – ekki síst ef borgaryfirvöld eru hlynnt jafnaðarstefnu.

Þetta er því auðvelt fyrir borgina að framkvæma og mun hjálpa til við lausn á langvarandi mönnunarvanda á leikskólum og víðar hjá borginni.

Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu-stéttarfélgi

 

Síðasti pistill: Nýfrjálshyggju Miltons Friedman hafnað í USA og DAVOS

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 27.1.2020 - 10:11 - FB ummæli ()

Nýfrjálshyggju Miltons Friedman hafnað í USA og DAVOS

Árið 1970 skrifaði nýfrjálshyggju-hagfræðingurinn Milton Friedman grein í New York Times Magazine um hlutverk fyrirtækja í samfélaginu, sem eftir var tekið (sjá hér).

Boðskapurinn var sá, að eina hlutverk fyrirtækja væri það að skila eigendum þeirra (hluthöfum) sem mestum gróða.

Fyrirtæki hefðu engar skyldur gagnvart starfsmönnum sínum, viðskiptavinum, birgjum, neytendum eða samfélaginu almennt.

Allt tal um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja er einfaldlega sósíalismi, sagði Friedman!

Þó samfélagið skaffaði fyrirtækjum vegi, hafnir, flugvelli, menntað starfslið, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og veitti þeim aðgang að sameiginlegum auðlindum þá skipti það engu máli.

Gróðinn skyldi bara renna til “eigenda” fyrirtækjanna.

Þessi nýfrjálshyggjuboðskapur Friedmans náði smám saman útbreiðslu á Vesturlöndum og gekk undir nafninu „the shareholder view of capitalism“.

Þetta var kapítalismi fyrir ríkasta eina prósentið – og yfirleitt enga aðra.

Þarna voru komin hin hagfræðilegu rök fyrir græðgisvæðingunni sem fylgdi nýfrjálshyggjunni og sem gat af sér pólitískar breytingar er leiddu til verulega aukins ójafnaðar á síðustu 30-40 árum, eins og Piketty og félagar, OECD og fleiri alþjóðastofnanir og fræðimenn hafa ítrekað sýnt.

Þessar hugmyndir greiddu götu óheftari markaðshyggju, aukinna skattfríðinda fyrir hátekju- og stóreignafólk, aukinnar einkavæðingar og fjandsamlegri afstöðu gagnvart velferðarríkinu.

Hagsmunir auðmanna voru í fyrirrúmi. Og almenningi var talin trú um að vænar brauðmylsnur myndu falla niður til þeirra af veisluborðum auðmanna.

Það reyndist vera blekkingin ein.

Aukinn ójöfnuður var rökrétt afleiðing.

 

Viðskiptaráð Bandaríkjanna hafnar nú sjónarmiði Friedmans

Viðskiptaráð Bandaríkjanna (US Business Roundtable) gerðist snemma einn helsti fylgjandi og boðberi þessarar nýfrjálshyggju Friedmans þar vestra, frá og með árinu 1978.

Á Íslandi varð Viðskiptaráð Íslands sömuleiðis einn róttækasti talsmaður nýfrjálshyggjunnar, ásamt Samtökum atvinnulífsins og forystu Sjálfstæðisflokksins, einkum frá og með tíunda áratugnum.

Í ágúst sl. urðu þau miklu tíðindi að Viðskiptaráð Bandaríkjanna hafnaði loks þessari kreddu nýfrjálshyggjunnar og lagðist á sveif með talsmönnum samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja, sem kölluð er „the stakeholder view of capitalism“ (sjá hér).

Fyrirtæki eiga nú að þjóna öllum, en ekki bara fámennri yfirstétt hluthafa eða auðmanna, segir Viðskiptaráð Bandaríkjanna. Fyrirtæki skuli bera ábyrgð gagnvart starfsmönnum sínum, viðskiptavinum, birgjum, neytendum og einfaldlega samfélaginu öllu.

Þessi umsnúningur er merkilegur vegna þess að þarna er ekki um einhverja gagnrýnendur eða fræðimenn að ræða, heldur fulltrúa allra helstu stórfyrirtækja Bandaríkjanna. Fulltrúa ríkasta eina prósentsins.

Þetta er viðbragð elítunnar í atvinnulífinu við vaxandi tilfinningu almennings á Vesturlöndum fyrir því að kapítalisminn sé ekki lengur fyrir almenning heldur bara fyrir fámenna yfirstétt. Þetta tengist einnig vaxandi áhyggjum af umhverfismálum.

Þarna hafa því orðið mikil tímamót í höfuðvígi bandaríska kapítalismans.

 

Davos lokar líka á nýfrjálshyggju Friedmans

En vindurinn snýst nú víðar gegn nýfrjálshyggjunni en í Bandaríkjunum.

Í Davos í Sviss fundar nú heimselíta viðskipta og stjórnmála, eins og verið hefur sl. 50 ár, á ráðstefnu World Economic Forum.

Klaus Schwab, stofnandi og stjórnandi World Economic Forum, hefur lengi verið talsmaður „stakeholder capitalisma“, þó það sjónarmið hans hafi ekki verið ríkjandi í Davos til þessa, enda nýfrjálshyggjan yfirleitt efst í hugum þeirra viðskiptajöfra og stjórnmálamanna sem þar hafa mætt.

En nú er öldin önnur í Davos!

„Stakeholder capitalism“ með samfélagslega ábyrgð og almannahag að leiðarljósi er nú mjög áberandi á dagskránni og Klaus Schwab sjálfur skrifaði kröftuga grein gegn sjónarmiðum Miltons Friedman í tímaritið Foreign Affairs í síðustu viku (sjá hér).

Greinina kallar hann: “Kapítalisminn verður að breytast til að lifa af”. Með skýrum hætti hafnar hann sjónarmiði Friedmans og boðar félagslegri kapítalisma, sem betur þjóni hagsmunum almennings og samfélagsins.

Klaus Schwab talar opinskátt um að nýfrjálshyggjutími síðustu fjögurra áratuga hafi stóraukið ójöfnuð og skaðað bæði samfélög og umhverfi.

Þess vegna verði kapítalisminn að breytast – ekki seinna en strax!

 

Endalok nýfrjálshyggjutímans?

Þetta eru svo mögnuð umskipti í sjónarmiðum hjá þessum talsmönnum fyrirtækja og kapítalisma, elítu efnahagslífsins, að spyrja má hvort þetta sé bara fagurgali til að kaupa vinsældir og slá ryki í augu almennings?

Sjálfsagt er að hafa fyrirvara á þessu og spyrja um efndir. Yfirstéttin er líklega mest að hugsa um að bjarga kapítalismanum frá sjálfum sér – draga úr mesta óhófinu.

Hins vegar er það óneitanlega mikilvægt að rétttrúaðir nýfrjálshyggjumenn skuli nú viðurkenna opinberlega að þeir séu að ganga af trúnni.

Það er nýtt!

Og það er til marks um hve afleit reynslan af nýfrjálshyggjutímanum hefur verið fyrir almenning – aðra en elítuna.

Vinstri- og miðjustjórnmál og allir gagnrýnendur nýfrjálshyggjunnar þurfa nú að sigla skipinu alla leið í höfn og tryggja endalok þessara neikvæðu áhrifa Friedmans og söfnuða hans.

Menn geta gert það í nafni þess að innleiða á ný blandaða hagkerfið sem var ríkjandi á Vesturlöndum frá lokum seinni heimsstyrjaldar til um 1980 og sem þjónaði almenningi mun betur en hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar hefur gert.

Eða bara til að byggja betra og sjálfbært samfélag fyrir alla.

Til mikils er að vinna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 17.1.2020 - 09:48 - FB ummæli ()

Ekkert ógnar Guðna – nema helst fiskikóngurinn!

Það er mikil ánægja með störf Guðna forseta.

Um 80% kjósenda segjast vera ánægðir með störf hans.

Að öðru jöfnu ætti þetta að þýða að enginn gæti ógnað honum í forsetakjörinu í sumar.

Það væri þá helst ef fiskikóngurinn myndi gefa kost á sér.

Sá er með atkvæðamestu mönnum landsins.

Fulltrúi glaðværðar og hollustu og nálægur á hverjum degi í auglýsingatímum ríkisútvarpsins.

Hann yrði án efa sterkur frambjóðandi…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar