Eftir miklar þrengingar og umrót í kjölfar hrunsins virðist nú margt vera á uppleið á Íslandi og landinn að taka gleði sína á ný.
Einhverjir gætu haldið að það væri vegna sumarkomunnar – en svo er ekki.
Nýbirt könnun Eurobarometer, sem framkvæmd var í nóvember síðastliðnum í öllum Evrópuríkjunum, sýnir að Íslendingar voru þá þegar komnir í næstefsta sæti á lista yfir ánægðustu þjóðirnar, næst á eftir Dönum.
Um 56% Íslendinga sögðust vera mjög ánægðir með lífið og önnur 40% voru frekar ánægðir. Þannig voru 96% Íslendinga ánægðir með lífið í nóvember. Kannski hefur það hækkað í 97% með sumarkomunni!
Við erum sem sagt komin á þann stað sem við vorum á fyrir hrun, með ánægðustu þjóðum heims. Það er góðs viti.
Þetta er auðvitað í hrópandi mótsögn við þá síbylju bölmóðs og þrugls sem ríður húsum í íslenskum fjölmiðlum, ekki síst á netinu. Kanski fer því brátt að linna…
Fyrri pistlar