Miðvikudagur 27.06.2012 - 17:49 - FB ummæli ()

Óheilindi í Icesave-málinu?

Það verður ljósara með hverjum degi sem líður að þjóðin var gróflega blekkt með málflutningi sumra andstæðinga samningaleiðarinnar í Icesave-málinu.

Forsetinn gerði einnig alvarleg mistök þegar hann vísaði Icesave III (Buchheit-samningnum) í þjóðaratkvæðagreiðslu, á röngum forsendum og gegn mjög rúmum meirihluta á Alþingi.

Hver eru rökin fyrir þessum fullyrðingum mínum?

  • Kostnaður sem var líklegur til að falla á ríkissjóð vegna Icesave var stórlega ýktur af andstæðingum samningaleiðarinnar á öllum stigum málsins.
  • Tap Seðlabanka Davíðs Oddssonar var mun stærra en kostnaður af báðum Svavars-samningunum og Buchheit-samningnum.
  • Þjóðinni var talin trú um að hún gæti valið um að greiða ekki reikninginn, sem aldrei stóð þó til. Valið var um samningaleið eða dómstólaleið.
  • Þeir sem hvöttu til að Icesave III samningur Buchheit-nefndarinnar yrði felldur og dómstólaleið farin lögðu þjóðina í gríðarlega áhættu – að ástæðulausu.
  • Einn leiðtoga þeirra segir nú að við munum tapa málinu, vegna þess að Bretar og Hollendingar séu valdameiri en við! Það voru þeir líka þegar hann hvatti til að samningurinn yrði felldur.

Hér eru nýjustu tölur fjármálaráðuneytisins um kostnaðinn fyrir ríkissjóð við hina ólíku Icesave-samninga, ásamt samanburði við tap Seðlabankans:

 

Dýrasti samningurinn var sá sem lagður var upp á vegum ríkisstjórnar Geirs Haarde og sem Bjarni Benediktsson mælti fyrir á Alþingi fyrir árslok 2008 (um 13,4% af vergri landsframleiðslu).

Kostnaður fyrri Svavars-samningsins, sem ýmsir hægri róttæklingar hafa útmáð sem “afleik aldarinnar”, var rétt rúmlega helmingur af Haarde-Mathiesen samningnum, en Baldur Guðlaugsson var formaður þeirrar samninganefndar.

Icesave IIB (seinni samningur Svavars-nefndarinnar) kostaði minna en helming af tapi Seðlabanka Davíðs, vegna ástarbréfa-lánanna til banka, sem hann sagðist eftirá hafa vitað að væru á leið í þrot.

Buchheit-samningurinn hefði einungis kostað ríkissjóð 2,8% af vergri landsframleiðslu eins árs. Hann var gerður af bestu mönnum með samráðum við stjórnarandstöðu, bauð upp á siðlega lausn á milliríkjadeilu með samningi og viðráðanlegum kostnaði.

Við gátum lokið málinu með sæmd.

Dómstólaleiðin sem farin var með því að fella hann í þjóðaratkvæðagreiðslu (þar sem almenningi var ranglega talin trú um að verið væri að kjósa um að “greiða ekki þessa skuld einkabanka”) fól hins vegar í sér gríðarlega áhættu fyrir þjóðina. Þrotabúið átti eðli máls samkvæmt að greiða megnið af kostnaðinum.

Nú gætum við, íslenskir skattgreiðendur, þurft að greiða miklu hærri upphæðir en náðust í Buchheit- samningnum. Ef málið tapast fyrir dómstólum.

Í gær upplýsti Hannes Hólmsteinn, einn af baráttumönnum fyrir því að fella samninginn, að hann teldi að Hollendingar og Bretar myndu vinna dómsmálið, enda valdameiri en við. Það voru þeir líka þegar hann, Davíð Oddsson, Björn Bjarnason og margir aðrir hvöttu til að samningurinn yrði felldur.

Skyldu fleiri í hirð Davíðs hafa viljað fella samninginn þó þeir hafi trúað því að við myndum tapa dómsmálinu? Voru fleiri en Hannes svona óheilir í afstöðu sinni?

Eða voru þeir bara að berjast gegn ríkisstjórninni, sama þó það fæli í sér að hagsmunum þjóðarinnar yrði gróflega fórnað? Það var jú strategían sem Davíð beitti alltaf, að eigin sögn (þ.e. að berjast líka gegn góðum málum sem andstæðingar hans ynnu að, jafnvel þó hann væri þeim sammála).

Kanski var hið mikla andóf Davíðs Oddssonar og félaga gegn Buchheit-samningnum fyrst og fremst til að draga athyglina frá tjóninu sem Davíð sjálfur olli í Seðlabankanum?

Það var í reynd mun stærra en kostnaðurinn af þremur seinni Icesave samningunum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar