Í gær sagði góður maður á bloggi mínu að Ísland ætti næstum því heimsmet í skattpíningu.
Það er kanski ekki nema von að menn segi þetta, því þessu hefur verið slegið fram af aðilum sem ættu að vera vandir að virðingu sinni, eins og ýmsum samtökum atvinnulífsins og nokkrum stjórnmálamönnum.
En hvað segja staðreyndirnar um þetta?
Algengasta mæling á skattbyrði samfélaga er mæling OECD samtakanna á heildarskattbyrði, sem eru allar skatttekjur hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þessa mælingu má sjá á mynd 1.
Mynd 1: Heildarskattbyrði í OECD-ríkjum 2007 og 2010 (heimild: OECD).
Þessi mæling OECD er hin venjulega mæling á heildarskattbyrði þjóða og er iðuglega vísað til hennar sem slíkrar.
Myndin sýnir að Ísland var árið 2010 í þrettánda sæti af þessum þjóðum, rétt fyrir ofan meðallag OECD-ríkjanna. Allar norrænu þjóðirnar eru með meiri skattbyrði en við og margar þjóðanna á meginlandi Evrópu.
Skattbyrðin hér hafði lækkað mikið frá árinu 2007, eða úr um 41% í rúmlega 36%, eins og sjá má líka á myndinni.
Það eru einungis minna þróaðar þjóðir sem eru með minni skattbyrði en við og svo Bandaríkin og nokkrar enskumælandi þjóðir, sem þekktar eru fyrir lága skattheimtu og veikburða velferðarríki.
Það er því verulega ofmælt að segja að Ísland eigi heimsmet í skattpíningu.
Annað sem er líka staðreynd er það, að heildarskattbyrðin á Íslandi var meiri fyrir hrun en núna. Bæði gætti þar áhrifa af skattastefnu (rýrnun skattleysismarka frá 1995 til 2004 jók til dæmis skattbyrði hér verulega, þrátt fyrir lækkaða álagningu á hærri tekjur) og áhrifa af breytilegri stærð skattstofna.
Þessa þróun skattbyrðarinnar á Íslandi má sjá á mynd 2, ásamt samanburði við meðalskattbyrði OECD-ríkjanna.
Mynd 2: Þróun heildarskattbyrði á Íslandi og í OECD-ríkjum frá 1995 til 2010 (heimild: OECD).
Heildarskattbyrðin á Íslandi hafði verið vel undir meðallagi OECD-ríkjanna i marga áratugi þar til á árinu 1998 og síðar. Rýrnun skattleysismarka, barnabóta og vaxtabóta átti mikinn þátt í þeirri þróun, enda jók það skattgreiðslur venjulegs fólks eins og ég sýndi í fyrri færslun (sjá hér). Skattbyrði hátekjufólks lækkaði hins vegar á árunum fyrir hrun (sjá hér).
Ísland var vel fyrir ofan meðaltal OECD-ríkjanna til 2001-2 og síðan aftur frá 2003 til 2008. Eftir hrun dróst skattbyrðin hins vegar mikið saman og varð aftur jöfn meðaltali OECD-ríkja á árinu 2009, en hækkaði síðan lítillega 2010.
Rýrnun skattstofna, lægri tekjur og minni neysla í kreppunni áttu stóran þátt í minnkaðri skattbyrði eftir hrun, en hækkun skattleysismarka og annarra frádráttarliða (ekki síst vaxtabóta) dró einnig úr skattbyrðinni hjá heimilum með lægri og milli tekjur. Um 60% heimila á Íslandi fengu í reynd lækkaða skattbyrði eftir hrun.
Skattpíningin á Íslandi er því alls ekki sú hæsta sem þekkist í heiminum. Öðru nær.
Heildarskattbyrðin eftir hrun varð umtalsvert minni en áður hafði verið. Hún hafði hins vegar hækkað verulega frá um 1990 til 2007. Það segja ábyggilegar tölur OECD og Hagstofu Íslands.
Almenningur þarf að varast áróður hagsmunaaðila um skattamál, eins og samtaka atvinnulífsins og hægri róttæklinga. Þeir aðilar ýkja iðuglega mikið og afbaka staðreyndir.
Alþjóðlegar hagskýrslustofnanir, eins og OECD, vinna hins vegar vandaðar upplýsingar sem hægt er að treysta á.
Fyrri pistlar