Í nýlegri fjölþjóðlegri könnun, sem gerð var í nóvember síðastliðnum fyrir Eurobarometer, var fólk m.a. spurt hvort það teldi land sitt almennt séð á réttri eða rangri leið, um þessar mundir?
Niðurstöðurnar eru mjög athyglisverðar og uppörvandi fyrir Ísland.
Ísland er í öðru sæti á eftir Svíþjóð hvað snertir fjölda sem telur að landið sé á réttri leið, af öllum Evrópuríkjunum. Í flestum landann segir meirihlutinn að land þeirra sé á rangri leið (sjá mynd 1).
Mynd 1: Er land þitt á réttri leið? Mat almennings í einstökum Evrópulöndum á framvindu þjóðmála. (Heimild: Standard Eurobarometer 76 (nóvember 2011). Hlutfall íbúa 18 ára og eldri.)
Svíþjóð og Lúxemborg, sem eru á svipuðu róli og Ísland í könnuninni, hafa hvorugt fundið fyrir fjármálakreppunni svo heitið geti. Þetta er því góð einkunn fyrir Ísland, í ljósi hins óvenju mikla hruns sem hér varð.
Ef við lítum sérstaklega á þau ríki sem lentu illa í fjármálakreppunni þá er sérstaða Íslands enn meiri (sjá mynd 2).
Í flestum kreppuríkjunum er mikill meirihluti sem telur land sitt á rangri leið.
Í Grikklandi, á Ítalíu og Spáni segja frá 7% til 9% íbúa að landið sé á réttri leið en frá 65% til 80% segja að það sé á rangri leið. Á Íslandi eru hlutföllin 47% (rétt leið) og 41% (röng leið).
Mynd 2: Er land þitt á réttri leið? Mat almennings í helstu kreppulöndunum á framvindu þjóðmála. (Heimild: Standard Eurobarometer 76 (nóvember 2011). Hlutfall íbúa 18 ára og eldri.)
Á Írlandi eru aðeins 26% sem segja landið á réttri leið en 48% segja það á rangri leið og margir eru óvissir.
Af kreppuríkjunum helstu er það einungis Eistland sem nálgast Ísland.
Ísland kemur því óvenju vel út úr þessu mati þjóðarinnar sjálfrar á framvindu mála í landinu, í nóvember síðastliðnum, í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir.
Það er hins vegar athyglisvert að þjóðin skuli meta aðstæður og framvindu með svo jákvæðum hætti, samanborið við önnur Evrópuríki, í ljósi hinnar mjög svo neikvæðu umræðu sem hér hefur tíðkast. Einnig í ljósi lítils stuðnings við ríkisstjórnina.
Þýðir það að ríkisstjórnin hafi algerlega tapað áróðursstríðinu í þjóðmálaumræðunni? Hafa stjórnarandstaða og málgögn hennar verið svona miklu sterkari en málsvarar stjórnvalda?
Það er fróðleg spurning…
Fyrri pistlar