Föstudagur 24.08.2012 - 14:48 - FB ummæli ()

Hafa lífskjörin virkilega skánað?

Í gær birti ég niðurstöður úr fjölþjóðlegri könnun frá nóvember síðastliðnum, sem sýndi svör almennings við spurningunni um hvort land þeirra væri á réttri leið, almennt séð.

Ísland var í næst efsta sæti með fjölda svarenda sem segja landið vera á réttri leið, næst á eftir Svíþjóð og fyrir ofan hina hagsælu Lúxemborg.

Athyglisvert var að sjá ummæli við pistlinum, því nær allir voru efins eða neikvæðir. Bölmóðurinn á sér greinilega marga og sterka talsmenn. Auðvitað er það líka svo að margir hafa undan ýmsu að kvarta eftir hrunið, sem vissulega lék þjóðina grátt.

Er þá ástæða til að efast um að umtalsverðar framfarir hafi orðið?

Varla. Nær allir helstu hagvísar sýna jákvæða þróun á áunum 2011 og 2012. Þjóðarkakan stækkar, kaupmátturinn eykst á ný, einkaneyslan vex umtalsvert, atvinnuleysi minnkar og úrræðin til að létta skuldabyrðina eru í meiri mæli að skila sér til heimilanna.

Ein athyglisverð vísbending um hag almennings er könnun sem Capacent Gallup hefur gert reglulega hér á landi á lífsánægju fólks. Könnunin var fyrst gerð í sumarbyrjun 2010 og síðan vikulega.

Niðurstöðurnar sýna stærð þeirra hópa svarenda sem eru mjög ánægðir eða óánægðir með lífið og bjartsýnir eða svartsýnir fyrir framtíðin. Þeir ánægðustu eru kallaðir fólkið sem “dafnar”, þeir sem eru óánægðastir eru kallaðir fólk “í þrengingum” og hinir sem eru hvorki ánægðir né sérstaklega óánægðir eru sagðir “í basli” (mælikvarðinn er skýrður nánar hér að neðan).

Myndin sýnir stærð þessara hópa á þremur tímapunktum (sumarbyrjun 2010, nóvember 2011 og nú í ágúst 2012).

Mynd 1: Kannanir Capacent Gallup á lífsánægju Ísendinga

Niðurstöðurnar eru mjög sláandi.

Þeir sem dafna (eru mjög ánægðir með lífið og bjartsýnir á framtíðina) voru 43% svarenda 2010 en eru nú 65%. Þeim hefur fjölgað um meira en 50%.

Þeim sem eru í basli (hvorki ánægðir né óánægðir) fækkaði á sama tíma úr 53% í 32% svarenda. Þeir sem eru í verstu stöðu (í þrengingum) voru um 5% í byrjun könnunartímans en hefur fækkað í tæplega 3% núna.

Í nóvember þegar könnun Eurobarometer, sem ég kynnti í gær var gerð, þá voru þeir sem dafna um 59% og hefur staðan því batnað frá þeim tíma til dagsins í dag. Sú könnun væri væntanlega með betri útkomu fyrir Ísland ef hún væri gerð aftur í dag.

Allt ber því að sama brunni. Íslandi hefur miðað verulega áfram.

Hrunið var hins vegar svo gríðarlegt að meira þarf til. Mikilvægt er því að stjórnvöld haldi fast við þá stefnu sína að bæta einkum hag milli og lægri tekjuhópa, t.d. með hækkun barnabóta á næsta ári. Það mun líka styrkja hagvöxtinn.

Niðurskurðarstefna sem hægri menn vilja er stærsta ógnin við kjör almennings við núverandi aðstæður.

 

Skýring Gallup á mælingunni: „Mælikvarði lífsmats byggir á svörum við tveimur spurningum Cantril Lífsánægjustigans. Fólk er beðið um að ímynda sér stiga með þrepum sem eru númeruð frá 0 neðst í stiganum, sem lýsi versta mögulega lífi og upp í 10 efst í stiganum sem lýsir besta mögulega lífi. Í flokkinn „Dafna“ eru þeir sem sjá sig fyrir sér í 7. þrepi eða ofar og áætla að eftir 5 ár muni þeir muni standa í þrepi 8 eða ofar. Í flokknum „Í þrengingum“ eru þeir sem núna sjá sig fyrir sér í þrepum 0 til 4 á Cantril Lífsánægjustiganum og búast við að vera í þrepum 0 til 4 eftir 5 ár. Þeir sem hvorki „Dafna“ né eru „Í þrengingum“ eru sagðir vera „Í basli“. Spurningarnar eru lagðar fyrir í netkönnun hjá Viðhorfahópi Gallup þar sem um 400 manns eru spurðir í viku hverri.  Niðurstöður byggja á rúllandi 2 vikna meðaltali.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar