Þriðjudagur 28.08.2012 - 14:42 - FB ummæli ()

Gagnslaus neytendavernd?

Um daginn skrifaði ég um þá furðulegu þróun að verðmerkingar unninna matvæla eru að leggjast af í verslunum hér á landi. Í staðinn er neytendum ætlað að setja vörur í skanna og finna þannig út hvert verðið er.

Þetta er bæði óaðgengilegt og tímafrekt og hamlar eðlilegum neytendaháttum. Fólk þarf að geta séð í flýti hvert verðið er.

Öll vara er merkt með límmiða með upplýsingum um viðkomandi stykki. Þar eru upplýsingar um innihald, lýsing vöru, einingaverð og strikamerki – allt nema söluverðið sjálf á viðkomandi stykki. Hvers vegna má ekki láta tölvuna setja söluverðið inn á miðann?

Sumir neytendur þurfa að geta haldið útgjöldum sínum í skefjum. Ef það á að vera hægt með góðu móti þarf að vera auðvelt að sjá verðið á hverju stykki í hillunum. Er það ekki augljóst?

Þarf ekki að efla verðskyn neytenda? Gerist það með því að leggja beinar verðmerkingar af? Eða er markmiðið að deyfa verðskyn neytenda?

Framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna var í sjónvarpinu í gær að tala um þetta.

Hún sagðist hafa óljósar hugmyndir um að samkeppni milli framleiðenda hefði aukist eftir að verðmerkingar voru aflagðar og verðkannanir ASÍ virtust einnig benda til þess. Kemur það í staðinn fyrir verðmerkingar?

Framkvæmdastjórinn segir að fólk sé að venjast verðskönnum og gefur sér augljóslega að þetta sé komið til að vera – og bara í fínu lagi. En ég sé nær aldrei nokkurn mann nota skannana í þeim búðum sem ég versla við!

Stefnan er sem sagt sú, að festa þessa ófremd í sessi og auka vinnu og óþægindi neytenda við innkaupin.

Neytendasamtökunum er greinilega alveg sama þó matvæli séu óverðmerkt. Samt eru lögin skýr:

“Grundvallarreglan er að allar vörur og þjónusta sem seldar eru neytendum skuli verðmerkja þannig að auðvelt sé að sjá verðmerkinguna (mín undirstrikun). Ein af forsendum þess að neytendur geti fylgst með verðlagi og eflt verðskyn sitt eru verðmerkingar. Góðar verðmerkingar gefa neytendum þannig mikilvægar upplýsingar til þess að þeir geti verið virkir þátttakendur á hinum frjálsa markaði” (III. kafla laga nr. 57/2005).

Hvers vegna sætta Neytendasamtökin sig við að ekki sé farið eftir neytendalögum í matvöruverslunum?

Er þörf fyrir neytendavernd sem er svona sinnulaus um stóra hagsmuni neytenda?

Hvað segja ASÍ, Talsmaður neytenda og Neytendastofa?

Flokkar: Lífstíll · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar