Fimmtudagur 30.08.2012 - 00:14 - FB ummæli ()

Hroki og furðutal útvegsmanns

Guðmundur Kristjánsson í Brimi fer mikinn í viðtali við Útvegsblaðið. Hann segir tal þeirra sem gagnrýna skipan sjávarútvegsmála byggjast á öfund, lýðskrumi og fávisku, svo nokkuð sé nefnt. Hann segir sjávarútveg vera vel rekinn og farinn að skila hagnaði núna. Því sé fásinna að breyta nokkru.

Hann nefnir þó ekki að nærri 50% gengisfelling krónunnar frá 2007 til 2009 hafi bætt afkomu útgerðarinnar stórlega. Það er sama gengisfellingin og rýrði kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna um 28% að meðaltali frá 2008 til 2010. Hagnaður útvegsmanna var tap heimilanna.

Vel rekinn sjávarútvegur, sagði hann? Útvegsmenn juku skuldir sjávarútvegsfyrirtækja um nálægt 500 milljarða á áratugnum fram að hruni, en fjárfestu í greininni fyrir rétt um 90 milljarða. Hin gríðarlega aukna skuldsetning fór sem sagt að mestu í annað en endurnýjun greinarinnar, t.d. fjárfestingu í öðrum greinum, eignabrask hér og erlendis. Það þýðir væntanlega að gríðarlegt fé hafi verið dregið út úr greininni en skuldir skildar eftir. Er það góður rekstur?

Gengisfellingin sem rústaði afkomu heimilanna gerði sem sagt að verkum að nú er afkoman góð. Útvegsmenn þakkar sér það! Svo fengu þeir líka ríflegar afskriftir skulda sinna hjá bönkunum. Mun meira en heimilin. Hann gleymir því!

Guðmundur kallar líka arfavitlausar þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er að gera, með nýju veiðileyfagjaldi og breytingum á stjórnkerfi fiskveiðanna. Þó er bara lítill hluti af gengisgróðanum tekinn til baka með hinu nýja veiðileyfagjaldi. Raunar of lítill. Hagnaður verður samt verulegur áfram.

Svo segir hann stjórnvöld hata sjávarútveg! En þau eru einungis að bregðast við langvarandi óánægju meirihluta þjóðarinnar með óeðlilega skipan sjávarauðlindarmála. Fara þó hóflega, sigla milli skers og báru og gæta þess að útvegsmenn haldi samt miklu af fríðindum sínum.

Sennilega eru stjórnvöld of tillitssöm við útvegsmenn, því þeir vilja ekki miðla málum né koma neitt til móts við þjóðina. Það hafa þeir ítrekað sýnt með hroka sínum og yfirgangi.

Svo vilja þeir auðvitað ekki lofa þjóðinni að leita leiða til að losa sig við krónuna og þær áhættur sem henni fylgja fyrir heimilin. Leggja stórfé til útgáfu áróðursdagblaðs til að halda þjóðinn í helgreipum sínum og krónunnar. Vilja nánast banna að aðrar leiðir séu skoðaðar.

Loks toppar Guðmundur sjálfan sig með fullyrðingu um að enginn eigi fiskinn í sjónum. Fiskurinn eigi sig sjálfur! Ég læt teiknarann snjalla, Halldór Baldursson, um að svara þeirri fullyrðingu.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar