Allir vita að það þarf mikið fé til að geta orðið forseti Bandaríkjanna. En hversu mikið?
Stofnun sem heitir Open Secrets – Center for Responsive Politics tekur saman tölur um kostnað einstakra forsetaframbjóðenda. Myndin hér að neðan sýnir smá yfirlit um þetta (sjá líka hér).
Kostnaðurinn hefur hækkað yfir tíma, eins og sjá má á myndinni. Hann hefur aldrei verið meiri en í síðustu kosningum, er Obama og McCain tókust á.
Þá eyddi Barac Obama um 730 milljónum dollara, eða um 85 þúsund milljónum króna (þ.e. 85 milljörðum). McCain eyddi næstum jafn miklu og Obama. Samanlagt eyddu þeir nærri 160 milljörðum króna. Pælið í því!
Þetta segir ansi mikið um lýðræðið í Bandaríkjunum.
Slíkra fjármuna þarf að afla og mest kemur frá fyrirtækjum og auðmönnum. Frambjóðendur mæta á söfnunarfundi (fund raisers) og daðra við gefendur.
Lengi hefur tíðkast að fjármálafyrirtækin og bankarnir á Wall Street gefi hvað mest, síðan stórir fjárfestar og forstjórar. Þessir aðilar hafa líka mest áhrif á stefnu forsetanna. Þeir gefa til beggja flokka til að tryggja áhrif sín. Þeim er því yfirleitt alveg sama hvor vinnur.
“Æ sér gjöf til gjalda”, segir í Hávamálum.
Þegar áhrif fjármálaafla eru orðin svona mikil þá breytist lýðræði yfir í það sem mætti kalla fjárræði. “Fjárræði” er stjórnkerfi peningaaflanna. Hagsmunum auðmanna er vel þjónað í slíku stjórnkerfi.
Fátæklingar gefa ekkert í kosningasjóðina. Þeirra rödd heyrist almennt afar illa í bandarískum stjórnmálum. Þeir geta ekki rukkað forsetann um greiða við sinn málstað.
Enda er yfirleitt lítið gert til að draga úr fátækt í USA. Þeir fátæku sitja bara eftir og éta það sem úti frýs!
Millistéttin stendur heldur ekki vel í Bandaríkjum nútímans, ólíkt því sem var fram til um 1980. Nú er talað um hnignun millistéttarinnar í USA. Hagur auðmanna vænkast hins vegar stöðugt.
Í fjárræðis-stjórnmálum Bandaríkjanna fá menn þann forseta og þá ríkisstjórn sem peningarnir kaupa.
Fyrri pistlar