„Vofa leikur nú ljósum logum um Evrópu – vofa kommúnismans“, segir í byrjun Kommúnistaávarps Marx og Engels. Þessi lýsing átti ágætlega við í Evrópu árið 1848, þegar ritið kom út. Þá var mikil ólga og átök um alla álfuna, ekki síst stéttaátök.
Maður hélt þó samt að búið væri að kveða þennan draug niður í okkar heimi, með hruni Sovétskipulagsins um 1990. Margir stuðningsmenn kommúnisma á Vesturlöndum höfðu reyndar löngu áður hellst úr lestinni. Tími kommúnismans virtist í meira lagi liðinn.
En ekki lengur. Vofa kommúnismans virðist birtast sumum Íslendingum um þessar mundir – og raunar í vaxandi mæli frá því skömmu eftir hrun.
Eftir því er tekið að hún virðist einkum birtast frjálshyggjumönnum. Því lengra til hægri sem þeir eru, þeim mun oftar sjá þeir vofuna. Aðrir verða hennar ekki varir.
Þetta er skondinn draugagangur.
Frjálshyggjumenn eiga þó sjálfir sinn draug, “ósýnilegu höndina”. Kanski vofa kommúnismans sækist eftir félagsskap hennar? Kanski hún vilji draga baug á ósýnilegan fingur?
En hvers vegna skyldu róttækir frrjálshyggjumenn, eins og Þór Whitehead og Hannes Hólmsteinn, vera að skrifa sagnfræði- og myndabækur um löngu dauða hugmyndafræði? Eða halda ráðstefnur og teboð til að ræða glæpi sem kommarnir frömdu fyrir 70 til 100 árum?
Þeir fengu meira að segja hinn glögga og skemmtilega Egil Helgason til að skenkja tevatni á miðilsfundi um málið í dag.
Ekki trúi ég á drauga og því er nærtækara að leita að veraldlegri skýringu á þessari óvæntu uppvakningu hinnar gömlu vofu.
Skyldu frjálshyggjumennirnir vera að draga athygli frá hinu hrikalega skipbroti frjálshyggjunnar á Vesturlöndum, sem endurspeglast í fjármálakreppunni?
Frjálshyggjumenn reyndust vera eins og Marxistar og Mormónar – trúa á “lögmál” um mannlífið. “Lögmál” frjálshyggjunnar reyndist vera byggt á yfirnáttúrulegu afli, “ósýnilegu höndinni”! Það leiddi ansi marga afvega.
Kanski eru frjálshyggjumenn einfaldlega að leita að verri vofu en sinni eigin. Það er eins konar syndaaflausn að geta bent á annan verri.
Fyrri pistlar