Laugardagur 29.09.2012 - 12:12 - FB ummæli ()

Viðskiptaráð mærir norræna velferðarstjórn

Nýtt fréttabréf Viðskiptaráðs kemur svo sannarlega á óvart!

Frægt var þegar Viðskiptaráð lýsti yfir í skýrslu frá 2006 að við Íslendingar ættum að hætta að líta til hinna norrænu þjóðanna eftir fyrirmyndum. Við værum þeim framar á flestum sviðum.

Þetta var á þeim tíma sem stjórnvöld framkvæmdu um 95% af skoðunum og stefnumálum Viðskiptaráðsins, sem öll miðuðu að því að bæta hag fyrirtækjaeigenda og auðmanna, oft á kostnað almennings. Við vorum á kafi í frjálshyggjutilrauninni um óheftan fjármálakapítalisma.

Viðskiptaráð hafði lagt til siglingafræðingana sem voru í brú þjóðarskútunnar þegar henni var siglt í strand.

Í nýju fréttabréfi (sem þeir kalla Skoðun Viðskiptaráðs) leggur ráðið lykkju á leið sína og mærir norrænu velferðarstjórnina sem fékk það verkefni að ná skútunni af strandstað og endurbyggja hana. Fréttabréfið byrjar svona:

“Fjárlög næsta árs staðfesta einkum tvennt. Annars vegar að árangur hefur náðst í ríkisfjármálum frá haustinu 2008 – um það verður ekki deilt.”

Síðan halda þeir reyndar áfram og segja að  mun betri árangur hefði átt að nást og að þessi árangur sé öllu öðru en ríkisstjórninni að þakka. Það er ansi hlægileg messa!

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) var hins vegar að skila nýju áliti um framvinduna í fjármálum og efnahag Íslendinga um daginn. Þeir hafa bæði meira vit á svona málum en Viðskiptaráð og eru heldur ekki innvígðir og innmúraðir meðlimir í Sjálfstæðisflokknum, eins og Viðskiptaráðið. Þess vegna getum við tekið meira mark á umsögn AGS.

AGS hælir ríkisstjórninni fyrir framvinduna og góðan árangur, bæði fyrir og eftir að samstarfsáætlun Íslands og sjóðsins lauk. Segja þó að bæta mætti í aðhaldskröfuna fyrir næsta ár um 0,2% af landsframleiðslu, hún fari úr 0,5% í 0,7%. Það er auðvitað lítil breyting.

Staðan er sem sagt þannig, að Viðskiptaráð getur ekki annað en hælt ríkisstjórninni – þó þeir vildu miklu frekar finna henni allt til foráttu.

Staðreyndirnar um góðan árangur eru einfaldlega of traustar og afgerandi.

En það er gaman að láta koma sér á óvart og því ber að þakka Viðskiptaráði fyrir þetta nýja fréttabréf.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar