Sunnudagur 21.10.2012 - 11:24 - FB ummæli ()

Afgerandi niðurstaða – skýr skilaboð.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um nýju stjórnarskrána skilar afgerandi niðurstöðu með skýrum skilaboðum.

Kosningaþátttakan er ágætlega viðunandi, nærri helmingur kosningabærra manna tók afstöðu, eða ríflega 130 þúsund manns. Meira en helmingur kjósenda í höfuðborginni mætti á kjörstað. Það er gott fyrir svona atkvæðagreiðslu.

Ég hafði alls ekki gert ráð fyrir að kosningaþátttakan yrði yfir 35% og taldi viðbúið að hún yrði jafnvel nær 30%. Það liggur í því eðli atkvæðagreiðslunnar að hún er krefjandi fyrir þátttakendur, í þeim skilningi að nokkra fyrirhöfn þarf til að kynna sér málavexti og slíkt er alltaf hindrun á þátttöku. Um 37% höfðu mætt til að velja fulltrúa í stjórnlagaráðið og rétt um 30% kusu um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri.

Síðan var ekki verið að kjósa um fullfrágengna stjórnarskrá heldur snérist valið um að taka afstöðu til vinnu stjórnlagaráðsins og leggja línur fyrir lokafrágang Alþingis. Auðvelt var fyrir kjósendur að telja sér trú um að þetta væri ekki sérlega mikilvægt á þessu stigi.

Samt er útkoman sterk. Það liggur ekki síst í skýrum og afgerandi svörum kjósenda við spurningunum.

Um tveir af hverjum þremur vilja leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar í nýrri stjórnarskrá og hátt í 80% vilja ákvæði um að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign.

Óvænta niðurstaðan er sú að meirihluti kjósenda vill hafa þjóðkirkjuna áfram í stjórnarskránni. Það er eini liðurinn í atkvæðagreiðslunni sem gengur beinlínis gegn tillögum stjórnlagaráðs. Þessi niðurstaða undirstrikar að þjóðin tekur sjálf sína afstöðu og virðist sjá mikilvægi kirkjunnar óháð hinu ógæfulega biskupsmáli, sem er nú endanlega að baki.

Athygli vekur einnig, þó ekki sé það óvænt, að landsbyggðarfólk er andvígt jöfnun atkvæða en þéttbýlisfólkið á suðvestur horninu fylgjandi; um það bil 70:30 á sitt hvorn veginn. Málamiðlun hlýtur að verða niðurstaðan þar.

Síðan vill þjóðin aukið vægi persónukjörs og greiðari leið til að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslur í framtíðinni.

Niðurstaðan er þannig ákveðin og skýr leiðbeining til Alþingis um að breyta stjórnarskránni til þeirra átta sem fyrir liggja. Það á Alþingi að gera í vetur og klára fyrir næstu kosningar. Alþingi á vissulega að fara varlega og hafa meðalhófsreglur að leiðarljósi þar sem afstaða er ekki einföld eða afgerandi.

Stjórnarskrá á alla jafna að breyta með varkárni þegar ekki er nógu fyrirséð hvaða afleiðingar breytingar geta haft. Til dæmis væri hægt að ganga út í mikla óvissu með róttæku fyrirkomulagi persónukjörs. Sjálfur hef ég reyndar miklar efasemdir um of opið persónukjör, óháð flokkum. Það getur aukið lýðskrum og peningaáhrif í stjórnmálum, jafnvel aukið upplausn. Samt vil ég auka persónuleg áhrif á mannaval þingflokka.

Þó stjórnmálaflokkar hafi brugðist á síðasta áratug – og sumir meira en aðrir – væri of langt gengið að veikja þá alla um of. Leiðin á fyrst og fremst að snúast um að bæta vinnubrögð, heiðarleika og ábyrgð flokkanna, ekki að færa okkur nær meiri sundrungu eða upplausn.

Ein leið til að auka persónuleg áhrif á niðurstöður kosninga væri að auka verulega áhrif útstrikana á framboðslista þess flokks sem viðkomandi velur. Nú er vægi útstrikana alltof lítið. Þetta er einföld og skýr aðferð í framkvæmd og með verulega auknu vægi útstrikana ætti að vera hægt að auka umtalsvert áhrif kjósenda á mannaval á þingi.

Síðan þarf að skýra betur stöðu forsetans og aðkomu almennings að því að koma stórum deilumálum stjórnmálanna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var helsti galli atkvæðagreiðslunnar að ekki skyldi spurt um forsetahlutverkið. Þar eru nokkur óleyst mál.

Á heildina litið urðu mikilvæg tímamót á Íslandi í gær. Þeir sem vilja umtalsverðar breytingar á stjórnarskrá unnu stórsigur.

Nýtt Ísland er í sjónmáli!

Þeir sem kvöttu fólk til að segja nei urðu undir með afgerandi hætti. Þeir hafa ekkert umboð til að flækjast fyrir í framhaldinu.

Stjórnlagaráðsfólkið sem samdi góðan leiðarvísi til framtíðar og náði um hann mikilvægri samstöðu hefur unnið gott verk í þágu þjóðarinnar. Þeim ber að þakka, ekki síst þeim úr hópnum sem beittu sér fyrir kosninguna.

Þjóðin hefur talað.

Þjóðin fær nýja stjórnarskrá fyrir næstu kosningar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar