Í dag líta félagsvísindamenn við Háskóla Íslands í þjóðarspegilinn. Það er eins konar uppskeruhátíð rannsóknarstarfsins á síðasta ári. Margir starfsmenn flytja erindi un nýleg verk sín.
Ég mun fjalla um samanburð á lífsgæðum 29 nútímaþjóða á Lögbergi, stofu 103, kl. 13. Þar geri ég grein fyrir nýlegum gagnabanka um lífsgæði þjóða sem byggir á 69 aðskildum lífsgæðaþáttum, sem dregnir eru saman í eina lífsgæðavísitölu. Einnig eru skoðaðir undirþættir lífsgæða, svo sem hagsæld, heilsufar, menntastig, atvinnustig, dreifing lífskjara, fátækt, fjölskylduaðstæður, samfélagsþátttaka og huglægir þættir lífsgæða.
Á myndinni hér að neðan má sjá samandregnar niðurstöður þessara 69 mælinga á lífsgæðaþáttum hjá umræddum 29 nútímaþjóðum. Gögnin eru fyrir tímabilið frá 2005 til 2008, þannig að þetta er staðan eins og hún var fyrir fjármálakreppu. Staða okkar hefur lækkað nokkuð síðan þá, en er aftur batnandi.
Norrænu þjóðirnar mælast með best lífsgæði á flestum sviðum. Næst þeim koma fremstu þjóðirnar á meginlandi Evrópu, eins og Holland, Sviss og Lúxemborg.
Enskumælandi þjóðirnar eru sem hópur næst þar á eftir. Þær búa oft við góða hagsæld en velferðarkerfi þeirra eru gjarnan veikari og dreifing lifsgæðanna ójafnari en á Norðurlöndum og á meginlandi Evrópu.
Þannig eru Bandaríkjamenn til dæmis mjög hagsæl þjóð en vegna þess hversu ójöfn skipting lífskjaranna er þar þá verður heildarútkoman slakari. Óvenju mikil fátækt í bandaríska hagsældarríkinu dregur þá niður á aðra mælikvarða, eins og í heilsufari, menntun, fjölskylduaðstæðum og þeir eru heldur ekki eins ánægðir með lífið og samfélagið að jafnaði og norrænu þjóðirnar.
Ég mun síðar gera frekari grein fyrir þessu efni hér á bloggi mínu síðar.
Allir eru velkomnir á öll erindi á Þjóðarspegli í Háskóla Íslands og finna má dagskrá víða við fyrirlestrasali.
Fyrri pistlar