Nokkrir aðilar hafa fullyrt að skattbyrði á Íslandi sé sú hæsta í heimi. Slíkar fyllyrðingar standast þó enga staðreyndaskoðun (sjá hér).
En ef þær væru réttar mætti búast við að Íslendingar væru nú með ein hæstu opinberu útgjöld í heimi – eða væru ella að greiða stórlega niður skuldir ríkisins.
Hvað segja staðreyndirnar um þetta?
Myndin hér að neðan sýnir samanburð milli OECD-ríkja á heildarútgjöldum hins opinbera (ríki og sveitarfélög samanlögð), sem hlutfall af landsframleiðslu árið 2011. Þetta eru nýjustu tölur frá OECD.
Ísland er í miðju hópsins, en ekki á toppi. Fimmtán ríki eru með meiri útgjöld en við og önnur fimmtán með minni útgjöld.
Það er því fjarri lagi að Íslendingar séu með hæstu opinberu útgjöld í heimi. Við erum í miðjunni. Skatttekjurnar 2011 voru að auki lægri en útgjöldin, enda um 4% halli á opinberum búskap og skuldir auknar sem því nam.
Útgjöldin höfðu sveiflast í kringum 42% áratuginn fram að hruni. Á árinu 2008 ruku þau upp í 57%, vegna gjaldþrots Seðlabankans og annars beins kostnaðar við hrunið sem féll til á því ári.
Frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum hafa opinberu útgjöldin lækkað úr 57% af landsframleiðslu niður í 46% árið 2011.
OECD spáir því að opinberu útgjöldin á Íslandi verði komin niður í um 43% á næsta ári, sem er ekki fjarri langtíma meðaltalinu frá um 1990.
Þeir sem fullyrða að skattbyrði Íslendinga sé ein sú hæsta í heimi vaða þannig í reyk, hvort sem það er vísvitandi eða vegna misskilnings.
Tölum um skatttekjur og útgjöld hins opinbera ber saman. Ísland er hvorki með hæstu skattbyrði né mestu útgjöld vestrænna ríkja.


Stefán Ólafsson
Fyrri pistlar