Þriðjudagur 05.03.2013 - 09:36 - FB ummæli ()

Er meiri fátækt á Íslandi en í Skandinavíu?

Í nýrri rannsókn á fátækt á Íslandi, sem Guðný Björk Eydal og ég höfum unnið og birt er í bókinni Þróun velferðarinnar 1988 til 2008, kemur fram að umfang fátæktar á Íslandi telst mismunandi eftir því hvaða mælistiku er beitt. Ólíkar mælingar gefa ólíkar niðurstöður.

Sumar mælistikur sýna heldur minni fátækt á Íslandi en í hinum norrænu löndunum, en aðrar sýna heldur meiri fátækt hér.

Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra, lét gera skýrslu árið 2006 um barnafátækt á Íslandi með samanburði  við hin norrænu löndin. Niðurstaðan var sú, að allt að helmingi stærri hluti barna væri undir fátæktarmörkum hér á landi en var í hinum norrænu löndunum á árinu 2004.

Hagstofa Íslands fékk um svipað leyti þá niðurstöðu að afstæð fátækt væri meiri á Íslandi en í Svíþjóð, en minni en í Danmörku, Finnlandi og Noregi. Sem sagt ólíkar vísbendingar, enda ólíkar mælingar.

Ég hafði áður gert rannsókn á fátækt hér á landi með öðruvísi gögnum sem náðu til áranna 1997 og 1998 (birt í bókinni Íslenska leiðin árið 1999). Þar var niðurstaðan sú, að fátækt væri heldur meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum, en hún virtist minnkandi samkvæmt þeim gögnum, m.a. vegna aukinna áhrifa frá lífeyrissjóðunum á afkomu eldri borgara.

Allar ofangreindar mælingar byggja á afstæðri fátækt (relative poverty), þ.e. fátæktarmörk voru 50% eða 60% af miðtekjum fjölskyldna á mann. Síðan var talið hve stór hluti íbúa var með tekjur undir þessum fátæktarmörkum.

Hér að neðan er annars konar mæling, sem er að mörgu leyti raunsærri en mælingar á afstæðri fátækt. Það er mæling sem er meira í átt til þess sem kallað er algild fátækt (absolute poverty) og kemur úr lífskjarakönnun Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins.

Lágtekjufólk, þ.e. fólk sem telst vera undir fátæktarmörkum í löndunum, var spurt „hversu erfitt væri fyrir það að láta enda ná saman“. Myndin sýnir hlutfall lágtekjufólks sem segist „eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman“.

Á myndinni má sjá að lágtekjufólk á Íslandi segist mun oftar eiga erfitt með að láta enda ná saman en lágtekjufólk í hinum löndunum, öll árin frá 2004 til 2011 (Svörtu súlurnar eru tölur Íslands). Þrengingarnar voru mestar í byrjun tímabilsins 2004 og í kreppunni eftir hrun (2010-11). Raunar er afar lítill munur á fátæktarþrengingum lágtekjufólks árin 2004 og 2011, eða tæplega 21% á móti 23%.

Fjárhagsþrengingar lágtekjufólks (þeirra sem eru undir fátæktarmörkum) á Norðurlöndum, 2004 til 2011. Miðað er við 60% fátæktarmörk. Súlurnar sýna hlutfall þeirra sem eru undir fátæktarmörkum sem segjast “eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman”. (Heimild: Eurostat).

Fjárhagsþrengingar lágtekjufólks voru tvöfalt algengari á Íslandi en í hinum löndunum árið 2004. Minnkuðu svo til 2007, er þær jukust aftur í kreppunni upp í hámark árið 2010 (26,5%). Árið 2011 dró svo nokkuð úr þrengingum íslensks lágtekjufólks á ný.

Árin 2002 til 2004 hafði staða lágtekjufólks versnað á Íslandi, sem skilaði sér í auknum fátæktarþrengingum árið 2004. Kreppan jók síðan verulega á vandann eftir hrun, er hann varð nokkru meiri en verið hafði 2004.

Kaupmáttur þeirra sem lenda undir afstæðum fátæktarmörkum skiptir öllu fyrir raunverulegar fátæktarþrengingar fólks. Kaupmáttur lágtekjufólksins hefur verið lægri á Íslandi en í hinum norrænu löndumum um árabil, einnig í góðærinu svokallaða fyrir hrun (sjá t.d. OECD-tölur fyrir 2005  hér).

Þetta eru sterkar vísbendingar um að fátæktarþrengingar lágtekjufólks hafi verið meiri á Íslandi en í Skandinavíu öll árin á tímabilinu frá 2004 til 2011. Það er í samræmi við þá staðreynd að ráðstöfunartekjur lágtekjufólks voru lægri hér en á hinum Norðurlöndunum á árunum fyrir hrun.

Norrænu löndin eru með einna minnstu fátækt vestrænna þjóða á algengustu mælikvarða nútímans. Í ljósi ofangreindra upplýsinga má álykta, að þó fátæktarþrengingar getir verið heldur meiri á Íslandi en í hinum löndunum á tímabilinu, þá virðist fátækt almennt vera með minna móti á Íslandi miðað við aðrar vestrænar þjóðir.

 

——————————-

Skýringar:

Fyrst er reiknað hlutfall fólks sem er undir fátæktarmörkum ESB (60% af miðtekjum) og svo fundið út í hvaða mæli það fólk segist “eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman” í rekstri heimila sinna. Þetta er sem sagt vísbending um fjárhagsþrengingar fólksins sem er undir fátæktarmörkum, í norrænu löndunum öllum. Gögnin koma úr lífskjarakönnun ESB (sem framkvæmd er af Hagstofu Íslands hér á landi). Svarendur eru fulltrúar þeirra 10-12% heimila sem lægstar tekjur hafa í hverju landi fyrir sig.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar