Um daginn gekk á netinu skjal sem útskýrir hinn mikla ójöfnuð sem er í skiptingu tekna og eigna í Bandaríkjunum (sjá hér). Ójöfnuður tók að aukast þar eftir 1980, samhliða auknum frjálshyggjuáhrifum á sviði fjármála og skatta (sjá hér).
Fróðlegt er að skoða hvernig þróunin var á Íslandi til samanburðar?
Ég hef ásamt Arnaldi Sölva Kristjánssyni hagfræðingi gert margvíslegar rannsóknir á þróun tekjuskiptingarinnar á síðustu misserum, til að kortleggja framvindu þessara mála á Íslandi (sjá nýja ítarlega grein okkar hér).
Ég mun á næstunni birta hér nokkurt efni um þróun tekjuójafnaðarins á Íslandi.
Ríkasta 1% þjóðarinnar
Í dag byrja ég á að bera saman hlut hátekjufólks af heildartekjum á Íslandi og í Bandaríkjunum. Mynd 1 sýnir hve stóran hluta af heildartekjum fjölskyldna ríkasta 1% þjóðarinnar var með. Mynd 2 sýnir hlut ríkustu 10% fjölskyldna.
Hlutur ríkasta 1% fjölskyldna af heildartekjum allra í Bandaríkjunum og á Íslandi samanborinn. Allar skattskyldar tekjur, fyrir skatt. (Heimild: Áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar I).
Þarna má sjá hvernig ójöfnuðurinn í Bandaríkjunum jókst eftir 1980, sem frægt er orðið. Tölur Íslands ná ekki aftar en til 1993. Hér tók ójöfnuðurinn að aukast frá 1995, hægt í fyrstu en síðan með vaxandi hraða frá og með aldamótunum. Um 2004 hafði hlutur ríkasta 1% heimila meira en tvöfaldast. Í bóluhagkerfinu tók þróunin síðan stökk uppávið, frá 2005 til 2007.
Ríkasta 1% heimila á Íslandi hafði um 4% heildartekna árið 1995 en á árinu 2007 var hlutur þeirra kominn upp í tæplega 20%. Á því ári var hlutur samsvarandi hóps í Bandaríkjun um 23,5%.
Þau tæpu 20% heildartekna sem ríkasta eitt prósent þjóðarinnar hafði 2007 var svipað og kom í samanlagðan hlut þeirra 45% sem lægstu tekjurnar höfðu. Með öðrum orðum, ríkasta eitt prósent þjóðarinnar hafði næstum jafn mikið í tekjur og tekjulægri helmingur þjóðarinnar samtals (sjá hér, töflu 1).
Ef bóluhagkerfið hefði staðið í 2-3 ár lengur hefði hlutur ofurtekjufólks á Íslandi orðið svipaður og var hjá ríkasta einu prósentinu í Bandaríkjunum.
Ójöfnuðurinn hafði aukist mun hraðar á Íslandi en í Bandaríkjunum. Það er augljóst af myndinni. Ójöfnuður hefur aukist á síðustu 30 árum í Bandaríkjunum, með bakföllum þó. Tímabil aukins ójafnaðar á Íslandi stóð hins vegar einungis í um 12 ár, frá 1995 til 2007.
Eftir hrun varð jöfnunin síðan mun meiri á Íslandi en í Bandaríkjunum, mest vegna samdráttar fjármagnstekna eftir 2008. Allt bendir til að hlutur ríkasta 1% heimila í Bandaríkjunum hafi aukist aftur á árunum 2010 og 2011 (sjá hér).
Ríkustu 10% þjóðarinnar
Seinni myndin sýnir svo þróun hlutar ríkustu 10% fjölskyldna. Mynstrið er svipað, nema hvað Ísland nálgast Bandaríkin ekki alveg jafn mikið og var fyrir ríkasta 1% fjölskyldna.
Hlutur ríkustu 10% fjölskyldna af heildartekjum allra í Bandaríkjunum og á Íslandi samanborinn. Allar skattskyldar tekjur, fyrir skatt. (Heimild: Áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar I).
Niðurstaða
Tekjur hátekjuhópanna á Íslandi jukust mun örar frá 1995 til 2007 en var hjá samsvarandi hópum hátekjufólks í Bandaríkjunum á tímabilinu öllu frá 1980 til 2007.
Hlutur ríkasta 1% á Íslandi fór úr um 4% heildartekna árið 1995 í tæp 20% árið 2007. Það ár var ríkasta eitt prósentið í Bandaríkjunum með um 23,5% heildartekna þar. Ríkasta eitt prósent íslensku þjóðarinnar hafði árið 2007 næstum jafn miklu úr að spila og tekjulægri helmingur þjóðarinnar samtals.
Hutur ríkustu tíu prósentanna fór úr um 22% heildartekna á Íslandi árið 1995 upp í tæp 40% árið 2007. Það ár var samsvarandi hópur í Bandaríkjunum með nærri 50% heildartekna.
Eftir hrun dróg mjög ört úr ójöfnuðinum hér á landi, í reynd miklu örar en í Bandaríkjunum.
Sjá nánar um þessa þróun hér, hér og hér.
Ath! Ekki teljast með tekjur sem fluttar voru úr landi í erlend skattaskjól, en talsverð brögð voru að slíku meðal hátekjufólks.
Fyrri pistlar