Laugardagur 09.03.2013 - 08:42 - FB ummæli ()

Davíð og Hannes Hólmsteinn stýra flokknum

Sjálfstæðisflokkurinn kemur höktandi út af nýlegum landsfundi sínum, með brotið mastur og lekan skrokk.

Séra Halldór Gunnarsson sagði sig úr flokknum í kjölfar fundarins, með þessum eftirminnilegu orðum:

“Sjálfstæðisflokkurinn, sem ég ungur hreifst af, er ekki lengur flokkur samhygðar, réttlætis, jafnræðis og frelsis á jafnréttisgrundvelli.

Hann er orðinn tæki auðmanna og þeirra, sem þeir velja til þjónustu, – í þágu auðvaldsins.”

Helgi Magnússon, fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins og langtíma áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum, varaði svo í gær við öfgafullri einangrunarhyggju flokksins gagnvart Evrópusambandinu, sem fram kom á landsfundinum. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður flokksins, tók í sama streng hjá Samtökum atvinnulífsins. Jafnvel Engeyingurinn Benedikt Jóhannesson efast um að hann geti kosið flokkinn í vor!

Helgi spyr hverju það sætir að núverandi forysta flokksins skuli víkja frá stefnu sem Bjarni Benediktsson, fyrrverandi formaður, mælti fyrir árið 1969. Svo reifar Helgi skýringar á þessum umskiptum:

“Ein er sú að nokkrir fyrrum ráðamenn í flokknum hafa lengi farið mikinn í öfgakenndri andstöðu sinni við Evrópusambandið og mælt eindregið gegn samningaviðræðum, hvað þá samningum, og einskis svifist í málflutningi sínum. Þeir voru fyrirferðarmiklir á fundinum og höfðu sitt fram ekki síst vegna þess að núverandi forysta flokksins er veik og ráðvillt og hefur ekki burði til að leiða stefnumótun flokksins inn á farsælar brautir. Fyrir það mun flokkurinn gjalda í komandi kosningum.

Helgi Magnússon kennir sem sagt Davíð Oddssyni og hirð hans um einangrunarhyggjuna gagnvart Evrópu, okkar helstu viðskiptalöndum.

Þetta eru tvö afgerandi merki um breytinguna sem orðið hefur á Sjálfstæðisflokknum. Gamli Sjálfstæðisflokkurinn (“stétt-með-stétt”) er horfinn á braut en nýji Sjálfstæðisflokkurinn (flokkur auðmanna og einangrunarhyggju) situr eftir. Þessar áherslur voru hertar á landsfundinum.

Nýji Sjálfstæðisflokkurinn varð til þegar Eimreiðarklíka Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins tók flokkinn yfir. Það gerðist smám saman upp úr 1980 og með vaxandi hraða eftir 1995.

Hugmyndafræði Eimreiðarklíkunnar var og er harðsvíruð frjálshyggja, sem Hannes flutti inn frá Bandaríkjunum. Megininntakið í þeirri hugmyndafræði er skefjalaus þjónkun við auðmenn, peningahyggja, fjandskapur við ríkisvald og velferðarríkið – og kaldrifjuð valdafíkn. Einangrunarhyggja í anda Teboðsins ameríska hefur nú bæst í flóruna.

Tilgangurinn helgar meðalið þegar valdafíklar vilja ná völdum. Þannig varð það sjálfsagt fyrir hinn fallna leiðtoga hrunadansins að gangast útvegsmönnum á hönd, til að fá að ritstýra Morgunblaðinu. Davíð náði þannig verkfærinu, ritstjórn Moggans,  sem nota má sem fyrr til að stjórna Sjálfstæðisflokknum.

Þess vegna er hann enn svo áhrifamikill í flokknum, þó hann sé mesti fallisti hrunsins. Hann stýrði jú Íslandi inn í stærsta bóluhagkerfi sögunnar og síðan beint í stærsta fjármálahrun sögunnar, eftir að hann varð æðsti yfirmaður íslenskra peningamála, sem seðlabankastjóri.

Davíð sækir hugmyndir sínar í öfgasmiðjur Hannesar (sem sækir þær til Cato Institute, Fraser Institute, Heritage Foundation og fleiri áróðursveita frjálshyggjumanna í Bandaríkjunum). Þaðan koma leiðarljós Davíðs við stefnumótun hans, í bland við heimasmíðaða heift, veruleikafirringu og hroka.

Davíð og Hannes hafa í reynd hreðjatak á Sjálfstæðisflokknum.

Þess vegna eiga orð bæði Halldórs Gunnarssonar og Helga Magnússonar svo vel við um nýja Sjálfstæðisflokkinn.

Skyldi sómakært Sjálfstæðisfólk ekki vera hugsi yfir stöðu flokksins og forystu hans, bæði þeirri réttkjörnu og svo þeim í baksætunum – sem í reynd stýra öllu?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar