Sunnudagur 10.03.2013 - 20:16 - FB ummæli ()

Kaupþingslánið – hver var tilgangurinn?

Leyndin yfir láni Seðlabankans til Kauþings 6. október 2008 er furðuleg. Þetta var daginn sem neyðarlögin voru sett og Geir Haarde bað guð að blessa Ísland. Landsbankinn hrundi daginn eftir og lánveitendur vissu það þegar þeir greiddu lánið út úr Seðlabankanum.

Lánið var að upphæð 500 milljónir Evra, eða rúmlega 80 þúsund milljónir króna. Lánið var veitt í flýti án þess að eðlilegir pappírar væru frágengnir. Ekki var fylgt starfsreglun Seðlabankans við gjörninginn.

Sigrún Davíðsdóttir skrifaði mikilvægan pistil um málið um daginn og spurði lykilspurninga sem ekki hefur verið svarað.

Vitað hefur verið að Davíð leitaði samráðs við Geir Haarde forsætisráðherra. Það er ekki aðalatriði málsins. Stóra spurningin sem enn er ósvarað lýtur hins vegar að því hvers vegna lánið var yfirhöfuð veitt – og það á þessum tíma í miðri hrunskriðunni.

Þetta var sem sé nokkru eftir að Glitnir var kominn í fangið á Seðlabankanum og fyrirséð var að Landsbankinn myndi falla daginn eftir. Bankahrunið var á fullu skriði.

Allir vissu að mikil vá var á ferðum. Bankarnir voru nátengdir í fjármálum og eignarhaldi sínu og viðbúið að áhlaup yrði gert á Kaupþing við fall Landsbankans.

Það sem þarf að upplýsa er m.a. þetta:

  • Hver var tilgangurinn með lánveitingunni?
  • Í hvað átti féð að fara? Hverju átti að bjarga?
  • Hvers vegna fór fjármagnið til Þýskalands þegar sagt var að erindið væri að bjarga dótturfyrirtæki Kaupþings í London?
  • Hvað varð endanlega um féð?

Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, fer mikinn í helgarblaðinu og úthúðar RÚV og starfsfólki þess fyrir það að spyrja um málið. Segir fyrir liggja að forsætisráðherra hafi verið þessu samþykkur og því sé engu við það að bæta. Hann vegur harkalega að mannorði blaðamanna og fréttastjórans á RÚV. Davíð vill ekki að um þetta sé spurt.

Forsenda ritstjórans Davíðs Oddssonar er sú, að þjóðinni komi ekki við hvernig málið var í pottinn búið. Formaður fjárveitinganefndar Alþingis sem gengur eftir svörum fær líka sinn skammt af ófrægingum frá ritstjóranum.

En þetta er ekki einkamál Davíðs Oddssonar. Hann var ekki að lána smápeninga af eigin skotsilfri. Þetta var fé þjóðarinnar sem nú er a.m.k. að hálfu leyti tapað, að sagt er. Tapið er risaupphæð sem myndi duga til að byggja stóran hluta af nýjum Landsspítala.

Yfirgnævandi líkur voru á að lánsféð myndi glatast þegar það var veitt. Var lánið veitt einfaldlega vegna fákunnátta gerenda eða var eitthvert vitrænt plan á bak við gerninginn? Ef eðlilegar skýringar eru á málinu hvers vegna hafa þær ekki verið settar fram á skilmerkilegan hátt?

Var eitthvað óhreint við framkvæmdina og hvað varð um fjármagnið? Þessu öllu þarf að svara og raunar er óþolandi að það skuli ekki hafa verið gert fyrir löngu síðan.

Auðvitað á að birta umrædda hljóðritun af samtali Davíðs og Geirs. En það má vel vera að lykilspurningunum sé ekki svarað í því. Fylgja þarf málinu alla leið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar