Mánudagur 11.03.2013 - 20:16 - FB ummæli ()

Ævintýraleg ríkisstjórn

Ekki verður annað sagt en að ferill vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms hafi verið ævintýralegur.

Ekki einasta tók hún við versta búi lýðveldissögunnar, í kjölfar frjálshyggjuhrunsins, heldur hefur hún verið athafnameiri og farsælli í störfum sínum en flestar aðrar ríkisstjórnir.

Þetta segi ég þó ég hefði sjálfur gert sumt með öðrum hætti en stjórnin gerði. Ef við eigum að láta hana njóta sannmælis þá hljótum við þó að viðurkenna, að hún hefur náð ótrúlega góðum árangri við endurreisnina við ótrúlega erfiðar aðstæður.

Í þessu samhengi er sigur stjórnarinnar á þingi í dag afar stór, þar sem hún stóðst furðulegustu tilraun lýðveldissögunnar til að fella hana með vantrausti.

Þar lögðust á eitt fulltrúar þeirra flokka (Sfl. og Ffl.) sem ekki vilja samþykkja tillögu stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá og Þór Saari, sem er svo mikill stuðningsmaður nýju stjórnarskrárinnar að hann vill frekar drepa hana alveg en að koma henni til framkvæmda í áföngum! Skrítinn hjúskapur það, því þingmenn B og D listanna studdu vantraustið þó það væri borið fram vegna meintra vanefnda stjórnarflokkanna við að koma stjórnarskrármálinu í höfn – sem þeir styðja þó alls ekki!

Hvað um það. Stjórnin stóðst prófið og klárar stjórnartímabilið – og kemur enn meiru í verk. Vonandi verða þar á meðal nýtt kerfi fiskveiðistjórnunar og nýtt kerfi almannatrygginga.

Síðan þarf að fá samþykki fyrir tillögum formanna stjórnarflokkanna tveggja og Bjartrar framtíðar um breytingu á auðlindaákvæðinu og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskránni, ásamt ákvæði um fyrirkomulag breytinga á stjórnarskránni.

Þó ekki takist nú að koma allri stjórnarskránni í gegnum þingið fyrir kosningar þá yrði samþykkt ofangreindrar tillögu gríðarlega stór sigur stjórnarflokkanna, Bjartrar framtíðar og annarra stuðningsmanna framfara í stjórnarskrármálinu. Það yrði einnig sigur fyrir Árna Pál Árnason, sem um tíma virtist hafa klúðrað málinu.

Ef nýr þingmeirihluti ætlaði sér svo að fella þau ákvæði úr gildi á næsta kjörtímabili, í þágu auðmannastéttarinnar, þá væri forsetinn vís með að senda slíkt stórmála í þjóðaratkvæðagreiðslu – ef á því væri flötur.

Það er því mikið í húfi að frumvarp formannanna þriggja komist í gegn fyrir þingslit.

Ekkert má standa í vegi þess að á meirihlutastuðning þess verði látið reyna (þar með talin beiting 71. greinar þingskapa).

Það er engan veginn ásættanlegt að minnihlutinn á þingi nái að koma stjórnarskrármálinu fyrir (villi)kattanef.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar