Þriðjudagur 12.03.2013 - 21:42 - FB ummæli ()

Veiðigjaldið fer í „Hús íslenskra fræða”

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tók í gær fyrstu skóflustungu að Húsi íslenskra fræða, sem rísa mun á lóð gamla Melavallarins við Þjóðarbókhlöðuna.

Húsið verður vettvangur fyrir Árnastofnun, handritin og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Starfsemi á sviði íslenskra fræða eflist til muna og loks verður handritunum sýndur sómi með boðlegri sýningaraðstöðu fyrir erlenda sem innlenda gesti.

Þetta er því mikið fagnaðarefni. Fjárfesting í menntun, rannsóknum og ferðaþjónustu. Ríkið greiðir um 70% kostnaðar og Happdrætti HÍ restina.

Ekki er víst að margir viti af því, en hlutur ríkisins er greiddur af hinu nýja veiðigjaldi, sem ríkisstjórnin setti á í fyrra.

Framkvæmdin er hluti af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og Bjartrar framtíðar sem hófst í byrjun þessa árs, en þar er sett fé til margvíslegra góðra framfaramála, svo sem stóraukin framlög til vísinda og nýsköpunarstarfs.

Samkeppnissjóðir vísinda- og nýsköpunarsamfélagsins eru t.d. tvöfaldaðir á þessu ári, sem er eitt stærsta framfaraskref sem stigið hefur verið á því sviði í áratugi.

Nýja veiðigjaldið er því að skila arði af sjávarauðlindinni til þjóðarinnar – svo um munar.

Forsaga Húss íslenskra fræða er líka fróðleg. Þannig var að þegar Háskóli Íslands varð 90 ára gamall, árið 2001, þá færði þáverandi menntamálaráðherra Björn Bjarnason háskólanum afmælisgjöf, eins og margir gerðu við það tækifæri.

Afmælisgjöfin sem Björn Bjarnason færði HÍ fyrir hönd þáverandi ríkisstjórnar var sú, eins og tilkynnt var við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu, að ríkið myndi færa Háskólanum nýja byggingu yfir íslensk fræði og Árnastofnun.

Sá böggull fylgdi skammrifi að gjöfin skyldi afhendast á 100 ára afmæli Háskóla Íslands, árið 2011! Þetta var sem sagt “loforð” um að einhver önnur ríkisstjórn myndi færa HÍ slíka afmælisgjöf á hundrað ára afmælinu, tíu árum síðar!

Þessi “afmælisgjöf” ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar vakti mikla furðu í yfirstjórn Háskólans á þessum tíma – og litla kátínu. Mönnum var auðvitað ljóst að loforð án fjármögnunar eru almennt lítils virði.

En sagan endar vel, því hin illræmda vinstri stjórn sem nú situr er að efna loforð Björns Bjarnasonar um afmælisgjöf til íslenskra fræða. Katrín Jakobsdóttir tók upp budduna og byrjaði að grafa!

Vinstri stjórnin sýnir óneitanlega mikinn stórhug með þessum gjörningi – svona snemma á uppsveiflunni eftir hrunið – og nýtir hið nýja veiðigjald til að fjármagna hlut sinn í byggingunni.

Það má því segja að hið nýja Hús íslenskra fræða sé farsæll ávöxtur af stefnu núverandi ríkisstjórnar. Það sýnir líka hverju má áorka með réttlátri gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda þjóðarinnar.

Sá skuggi er þó yfir málinu öllu, að áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum hafa þegar lýst yfir að þeir muni afnema veiðigjaldið komist þeir til valda í vor. Skila því aftur til útvegsmanna – sem þó græða nú sem aldrei fyrr.

Kanski Sjálfstæðismenn hugsi sér að fjármagna bygginguna í staðinn með skattalækkunum, í anda þeirra vúdú-hagfræða sem nú tíðkast á loforðamarkaði stjórnmálanna! Ja, nema byggingin verði fórnarlamb niðurskurðar sem tilkynntur verði eftir kosningar?

Við sjáum til.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar