Fimmtudagur 14.03.2013 - 12:21 - FB ummæli ()

Veruleikinn hafnar „lögmáli” frjálshyggjunnar

Frjálshyggjumenn eru eins og mormónar og marxistar. Þeir hafa uppgötvað “lögmálið”. Hina einu sönnu kenningu sem þeir trúa á – hvað sem á dynur.

Kenningin gildir um flest og engin frávik eru umborin í trúarheimi þeirra.

Hjá frjálshyggjumönnum er lögmálið óheft markaðshyggja. Hún er sögð besta leiðin til að haga skipan efnahagsmála, viðskipta og fjármála. Sú leið sem mestum árangri skili.

Allt sem markaðurinn gerir er gott. Allt sem ríkið gerir er slæmt. Sem flest á því að fela markaðinum en lítið pláss er fyrir lýðræði og ríkisvald. Svo segir í bók frjálshyggjunnar.

 

Fundur hjá frjálshyggjumönnum í gær

Ég fór á fund hjá frjálshyggju-hugveitu Hannesar Hólmsteins og félaga í gær. Þeir voru með enskan gest sem fjallaði um “hinar raunverulegu orsakir fjármálakreppunnar”. Philip Booth heitir hann og er háskólakennari í viðskiptafræði og leiðtogi frjálshyggju-veitunnar Institute for Economic Studies í London. Sá var ekki alslæmur – en slæmur þó.

Booth viðurkennir að fjármálamenn geri mistök. Fjármálamarkaðurinn líka. Það er reyndar talsvert afrek fyrir frjálshyggjumann að viðurkenna þetta, því það rekst á rétttrúnað frjálshyggjunnar. En hann bætir við og segir að eftirlitsmenn og stjórnmálamenn séu engu betri. Allir séu ófullkomnir. Því sé ekkert að byggja á reglun, aðhaldi og eftirliti.

En vegna mistaka fjármálamanna verða einmitt fjármálakreppurnar. Þeir láta undan freistingum, verða of áhættusæknir og auðvelda óhóflega skuldasöfnun í þjóðarbúinu. Þetta þekkjum við Íslendingar betur en aðrir, enda núverandi heimsmetshafar í áhættusækni fjármálamanna og skuldasöfnun þjóðarbúsins.

Eins og reyndustu rannsakendur á sviði fjármála hafa ítrekað sýnt (sjá t.d. umfjöllun hér) þá steypast þjóðir út í fjármálakreppur þegar skuldasöfnun vegna of mikillar áhættutöku keyrir um þverbak. Freistingar og græðgi sjá til þess að menn fara offari, þegar frelsið býður upp á slíkt. Að þessu leyti er frelsi á fjármálamarkaði hættulegt.

Þegar í óefni er komið og bankar hrynja draga þeir þjóðarbúið allt með sér í niðursoginu og efnahagskreppa tekur við, þar sem saklaus fórnarlömb verða mörg illa leikin. Þetta kennir sagan okkur. Þetta þekkjum við Íslendingar líka vel.

 

Er enn meiri frjálshyggja lausnin?

Boðskapur frjálshyggjumannsins frá London er sá, að lítið sé við þessu að gera. Hann talaði þó eins og hægt væri að koma við skipan þar sem bankar gætu farið á hausinn án þess að það hefði afleiðingar fyrir umhverfið, þannig að einungis eigendur banka og lánveitendur þeirra tapi sínu.

Þetta er því miður óraunsær draumur, því bankar eru samtengdir hver öðrum og fyrirtækjum á ótal vegu, líka milli landa í hnattvæddum fjármálaheimi, þannig að þegar gjaldþrotaskriða banka fer af stað þá fær ekkert stöðvað hana. Án viðnáms stigmagnast kreppuskriðan. Það kalla frjálshyggjumenn að “markaðurinn leiðrétti sig”, en slíkt gerist einungis með gríðarlegu tjóni fyrir samfélagið allt.

Raunar gekk þessi ágæti frjálshyggjumaður frá London svo langt að fullyrða að reglun og eftirlit með fjármálastarfsemi, frá seðlabönkum, fjármálaeftirliti og stjórnvöldum, gerði iðuglega illt verra. Hefði sjálfstæð aukaáhrif til að magna vandann.

Niðurstaðan var þá sú, að best væri bara að láta óhefta markaðinn ríkja, leggja af reglur og eftirlitið og láta skeika að sköpuðu. Skafti Harðarson spurði upptendraður á þeim tímapunkti hvort nokkur þörf væri yfirhöfuð fyrir seðlabanka sem lánveitanda til þrautavara. Svarið var, í löngu máli, “nei – eiginlega ekki”!

 

Reynsludómur sögunnar afsannar frjálshyggjuna

En þessi frjálshyggjumaður frá London gerir hins vegar þá reginskyssu að horfa framhjá reynsludómi sögunnar, þegar hann dæmir alla reglun, aðhald og eftirlit með fjármálamörkuðum gagnslausa. Hver er sá dómur?

Hann er sá, að eftir slæma reynslu af óheftum kapítalisma frá 1920 til 1939, ekki síst í Bandaríkjunum, þá var reglun, aðhald og eftirlit með fjármálamörkuðum stóraukið víðast á Vesturlöndum frá stríðslokum. Við það datt tíðni fjármálakreppa nánast alveg niður, næstu 30 árin.

Áhættan hafði verið tamin að verulegu leyti, með hertari reglum og Bretton Woods skipan alþjóðafjármála, sem takmarkaði frelsi til fjármagnsflutninga milli landa.

Síðan fór að gæta aukinna frjálshyggjuáhrifa á ný á áttunda áratugnum og sérstaklega eftir 1980. Afskiptaleysisstefna frjálshyggjunnar mótaði þá umhverfið í meiri mæli. Reglur voru rýmkaðar, eftirlit veikt og ýmis nýmæli innleidd (t.d. vafningar skuldabréfa), sem allt hafði þau áhrif að gera áhættuhegðun og skuldasöfnun auðveldari en áður hafði verið.

Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Tíðni fjármálakreppa jókst á ný og skuldastig fjölmargra þjóða sömuleiðis, stig af stigi eftir 1980. Núverandi fjármálakreppa er einfaldlega hápunktur þeirrar þróunar. Frelsið var aukið á fjármálamörkuðum og græðginni sleppt lausri.

Þetta er reynsludómur sögunnar, eins og Reinhart og Rogoff og flestir helstu sérfræðingar í fjármálakreppum hafa sýnt. Meira að segja skynsamari frjálshyggjumenn eins og Richard A. Posner hafa varað við óheftum markaðskapítalisma af sömu ástæðu.

En frjálshyggjumenn á Íslandi berja höfðinu við (hólm)steininn og heimta óheftari markaði en fyrr. Kenna of miklum ríkisafskiptum um hvernig fór, bæði á Íslandi og annars staðar, þvert á viðurkenndar staðreyndir.

Þeir reyna að koma tvíefldir til leiks eftir frjálshyggjuhrunið og bjóða nú enn sterkari útgáfu af snákaolíunni, sem þeir seldu hér á Davíðs-tímanum.

Ætli það sé þó ekki farsælla fyrir þjóðina að byggja framtíðarstefnu sína á reynsludómi sögunnar en trúboði frjálshyggjumanna?

Áhættan af frjálshyggjunni er einfaldlega of mikil – og of dýr.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar