Laugardagur 16.03.2013 - 10:13 - FB ummæli ()

Opinberi geirinn – stærri eða minni en áður?

“Báknið burt” varð að kjörorði á hægri væng stjórnmálanna frá því um 1980. Það stóð fyrir þá ósk að minnka hlutverk ríkisins og stækka hlutverk einkageirans.

Menn hafa stundum tengt vinstri menn við óskina um að hafa ríkisvaldið stærra og hægri menn við minna ríkisvald. Það er þó einföldun því reynsludómur sögunnar sýnir að hægri menn viðhalda oft stóru ríkisvaldi.

Kanski ætti frekar að spyrja hvað ríkið gerir og hvernig það starfar, frekar en hversu stórt það er – á meðan stærðin er innan hóflegra marka.

Í þessu samhengi er fróðlegt að skoða helstu fjárhagslegu mælikvarða á heildarumfang hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, auk almannatrygginga. Það er gert á myndinni, með nýjustu tölum Hagstofunnar.

Tekjur og gjöld opinber til 2012

Gráu súlurnar sýna heildartekjur opinbera geirans, sem að langmestu leyti eru skatttekjur. Rauða línan sýnir heildarútgjöld. Hvoru tveggja eru sýnd sem hlutföll af landsframleiðslu. Tekjur og útgjöld að raunvirði á föstu verðlagi hafa svipað mynstur.

Tekjur opinbera geirans hafa oftast verið á bilinu 40-43% af landsframleiðslunni eftir 1995, nema á bóluárunum 2004 til 2007, er þær fóru í 44-48%. Nú á síðustu fjórum árunum voru tekjurnar einmitt á því róli (41-43%). Tekjurnar lækkuðu sem sagt eftir hrun niður á svipað plan og verið hafði fyrir bólutímann.

Tekjur hins opinbera eru á árinu 2012 mjög svipaðar og var á árunum 1999, 2000 og 2003, sem hlutfall landsframleiðslu.

Útgjöldin voru alla jafna ekki mjög langt frá tekjunum. Þó má sjá stór frávik. Stóru tíðindin af útgjöldunum urðu auðvitað með hruninu. Þannig má sjá að útgjöldin ruku upp árið 2008, í fordæmalausar hæðir, nærri 58% af landsframleiðslu.

Það var vegna beins kostnaðar við hrunið, einkum vegna endurreisnar Seðlabankans eftir gjaldþrot hans og einnig vegna kostnaðar við endurreisn annarra banka.

Einhver sagði á blogginu um daginn að vinstri stjórnin hafi notað tækifærið eftir að hún komst til valda til að stækka opinbera geirann. Það var hins vegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem var við völd árið 2008 og átti metið í aukningu opinberra útgjalda. Það var þó auðvitað ekki að neinni ósk eða vegna stefnu þeirra, heldur var þetta tjón sem lagðist á ríkið vegna hrunsins.

Vinstri stjórnin bar svo áfram talsverðan kostnað af hruninu á næstu árunum eftir að hún komst til valda 2009 (aukið atvinnuleysi, kostnaður við Íbúðalánasjóð, Sparisjóði o.m.f.). En þróun útgjaldanna hefur verið niður á við frá 2009 til 2012, eftir því sem endurreisninni hefur fram undið.

Raunar hefur vinstri stjórnin minnkað „báknið“, fyrst ríkisstjórna síðan 1980, því hún fækkaði ráðuneytum og fækkaði jafnframt starfsmönnum við opinbera stjórnsýslu um 20% frá 2007 til 2011 (sjá hér).

Þegar útgjöldin fóru framúr tekjunum varð munurinn auðvitað að skuldum hins opinbera, sem stórjukust í kjölfar hrunsins. Það fylgir fjármálakreppum.

Tekjur og gjöld eru svo að nálgast á árinu 2012 og 2013. Þá er stærð opinbera geirans aftur orðin svipuð og var á árunum áður en bóluhagkerfið fór á flug.

Ætli það megi ekki teljast þokkalega eðlilegt. Opinberi geirinn er þó enn minni hér en á hinum Norðurlöndunum, eins og lengst af hefur verið, þó Ísland hafi nálgast frændþjóðirnar í þeim efnum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar