Sunnudagur 07.04.2013 - 12:01 - FB ummæli ()

Paul Krugman styður leið Framsóknar

Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og dálkahöfundur New York Times, hefur lagt mikla áherslu á stefnu í anda John Meynard Keynes til að lyfta þjóðum upp úr kreppunni.

Megininntak þeirrar stefnu er að auka kaupmátt almennings til að koma efnahagslífinu í góða uppsveiflu á ný – auka eftirspurn neytenda. Ríkisvaldið þarf að leika lykilhlutverk í þessu og fjölga störfum, lækka skuldir heimila og almennt örva efnahagsstarfsemina. Krugman hefur líka mælt með hækkun launa, ekki síst hjá lægri og milli tekjuhópum. Þessi stefna reyndist vel í stjórnartíð F. D. Roosevelts í Kreppunni miklu.

Á síðasta ári gaf Krugman út bókina End This Depression Now, þar sem hann útfærir þessa stefnu sem vænlegri leið út úr kreppunni en þau niðurskurðar-sjónarmið sem ríkjandi eru, bæði í Bandaríkjunum og enn frekar í Evrópu.

Að koma þróttmiklum vexti á flug er mikilvægast – með auknum kaupmætti heimilanna.

Núverandi ríkisstjórn hefur að mörgu leyti fylgt stefnu Krugmans og Keynes í viðbrögðum við kreppunni (sem er í takti við norræna velferðarstefnu). Enda hefur Krugman sagt margt jákvætt um árangur Íslendinga í baráttunni við kreppuna.

Að vísu má segja að ekki hafi nógu mikið verið gert fyrir heimilin og batinn sé því of hægur. Afsökunin fyrir því er auðvitað sú, að vandi ríkisfjármálanna var yfirþyrmandi í upphafi stjórnartímans, en ef til vill hefði mátt stilla kompásinn betur.

Sú áhersla Framsóknarflokksins að láta nú skuldalækkun heimila í forgang er ágætlega í anda þeirrar stefnu sem Krugman boðar. Sú útfærsla sem Sigmundur Davíð hefur kynnt, að nýta hluta af fé erlendra kröfuhafa til skuldalækkunar heimila, er raunar enn betri en Krugman boðar, því hún þarf ekki að auka skuldir hins opinbera – ef hægt verður að framkvæma hana eins og sagt er.

Krugman myndi jafnvel réttlæta skuldalækkun til heimila þó það legðist á skuldareikning ríkisins. Hann hefur samt lagt höfuðáherslu á að hjálpa frekar þeim heimilum sem eru í neikvæðri eiginfjárstöðu (með hærri skuldir en eignir) og almennt þeim sem eru í meiri þrengingum (það er líka ódýrara).

Leið 110% skuldaaðlögunar er svo sem í þeim anda, nema hvað Krugman væri líklega að tala um samsvarandi 90% leið, sem þýðir að gefa meira í pakkann en hér var gert. Enda voru afskriftir vegna 110% leiðarinnar ekki nema um 50 milljarðar. Meira kom úr gengislánadómunum og miklu meira var afskrifað af fyrirtækjunum.

Útfærslur geta auðvitað verið ýmsar, bæði á niðurfærslu skulda heimila og fjármögnun hennar.

Rök Krugmans fyrir niðurfærslu skulda heimilanna er einkum í anda Keynes: að örva efnahagslífið með auknum kaupmætti heimilanna. Létta þeim skuldabyrðina svo þau geti aukið neysluna með jákvæðum áhrifum fyrir efnahagsstarfsemina, störfin og hagvöxtinn.

Sú leið sem Sjálfstæðisflokkur boðar, róttækar skattalækkanir (mest til hátekjuhópa), mun hins vegar leiða til halla á ríkisbúskapnum sem síðan fer beint í niðurskurð opinberra velferðarútgjalda. Það myndi hægja á hagvextinum og auka atvinnuleysi á ný. Krugman og AGS vara við of miklum niðurskurði vegna hættu á dýpkun kreppunnar.

Furðulegt er að núverandi ríkisstjórnarflokkar skuli ekki hafa tekið betur í hugmyndir Framsóknarmanna, því þær eru ágætt framhald þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt. Nú er svigrúmið líka að batna með árangri í ríkisfjármálunum.

Vilja hinir miðju og vinstri flokkarnir ekki vinna með Framsókn að þessu ágæta markmiði?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar