Ég hef áður bent á það að sú stefna vinstri stjórnarinnar að hlífa lægri tekjuhópum við afleiðingum kreppunnar skilaði árangri (sjá hér). Það hefur OECD einnig gert (hér).
Allir urðu fyrir kjaraskerðingu í hruninu. Það tókst þó að milda kjaraskerðinguna í lægstu tekjuhópum, m.a. með hækkun lífeyrislágmarksins, lægstu launa og atvinnuleysisbóta.
Einnig voru vaxtabætur hækkaðar stórlegar og persónuafsláttur nokkuð, sem hvoru tveggja gagnaðist lægri tekjuhópum hlutfallslega mest.
Þetta þýðir að afstæð fátækt (hlutfall íbúa sem eru með minna en 60% af miðtekjum í samfélaginu) lækkaði eftir hrun.
Ný gögn frá Eurostat og Hagstofu Íslands sýna þetta enn frekar. Þau má sjá á myndinni hér að neðan, þar sem er sýndur samanburður á þróun afstæðrar fátæktar hjá norrænu þjóðunum og meðaltal ESB-ríkja.
Hlutfall heimila með ráðstöfunartekjur undir fátæktarmörkum ESB, 2003 til 2011
Frá 2008 til 2011 fækkaði heimilum undir fátæktarmörkum í Noregi og á Íslandi, en fjölgaði í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Algengast var einnig að fólki undir fátæktarmörkum hafi fjölgað í aðildarríkjum ESB, sem og í Bandaríkjunum.
Það var raunar talsverð sérstaða Íslands að kreppan skyldi ekki lenda með mestum þunga á lágtekjufólk. Í flestum öðrum kreppulöndum bar lágtekjufólk hlutfallslega mestar byrðar. Og þannig hefur það líka oftast verið í sögunni.
Útkoman er raunar betri á Íslandi en í hinum ofurríka Noregi, hvað þetta snertir.
Þetta dregur um leið athygli að því að millitekjufólk bar mikinn þunga af kreppunni og hefur ekki fengið hlutfallslega jafn mikinn stuðning og lágtekjufólk.
Komandi kjarasamningar þurfa að bæta hag allra heimila með almennri kaupmáttaraukningu, svipað og gerðist á árinu 2011.
Síðan þá hafa heimilin að mestu staðið í stað.
Við þurfum að komast áfram og upp úr kjaraskerðingu hrunsins. Annars verður eftirspurn áfram óviðunandi og hagvöxturinn kemst ekki á skrið.
__________________________
Aths! Hagstofan birtir þessi gögn eins og þau séu fyrir árin 2004 til 2012, en þau vísa alltaf til tekna ársins á undan. Þannig eru þau sýnd á myndinni hér að ofan, þ.e. fyrir tekjuárin 2003 til 2011.
Fyrri pistlar