Sunnudagur 01.12.2013 - 10:39 - FB ummæli ()

Góð aðgerð – en hefði mátt vera stærri

Þá er áætlun ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingu komin fram. Ég tel þetta góða og mikilvæga aðgerð, en æskilegt hefði verið að hafa hana stærri.

Það var loforð Framsóknar sem er rótin að þessum aðgerðum. Um þær þurfti að semja við Sjálfstæðismenn, sem höfðu mikla fyrirvara á öllum hugmyndum um beina lækkun á skuldum heimila og vildu halda upphæðum sem lægstum.

Í staðinn hafði Sjálfstæðisflokkurinn boðið upp á þann möguleika að fólk nýtti sér skattlausa séreignasparnaðinn til niðurgreiðslu á húsnæðisskuldum. Það er ágætur valkostur, en kostar ríkið ekki neitt í viðbótarútgjöldum til skemmri tíma, utan hvað skattafrádrátturinn verður hækkaður úr 4% í 6%. Sparnaðarformið flyst einfaldlega úr séreignasparnaði yfir í lækkun húsnæðisskulda (Jón Steinsson virðist telja að um sé að ræða að fullu viðbótarskattaafslátt við þann sem þegar er veittur, en það er ekki rétt).

Beina skuldalækkunin sem Framsókn barðist fyrir mun nema 80 milljörðum á fjórum árum. Það er minna en rætt hafði verið um en samanlagt munu þessar tvíþættu aðgerðir skila um 150 milljarða lækkun skulda heimilanna á tímabilinu. Væntanlega hefur verið tekist á um þessa 80 milljarða milli stjórnarflokkanna. Framsóknarmenn hafa án efa viljað fá meira í beinar afskriftir.

Sett er hámark á skuldaleiðréttingu til hverrar fjölskyldu (4 m.kr.), eins og ég hafði mælt með fyrir kosningar. Það þýðir að hæst launaða fólkið með miklar skuldir vegna offjárfestingar fær hlutfallslega minna en aðrir.

Hins vegar er dregið frá það sem veitt var í gegnum 110% leiðina. Það tel ég óheppilegt, því þeir sem hennar nutu voru fjölskyldur með hóflegar tekjur og hóflegar eignir sem voru hvað verst staddar. Það fólk er ekki of vel haldið í dag og hefði til viðbótar vel mátt fá fulla leiðréttingu nú í takti við aðra. Til þess hefði þurft um 54 milljarða til viðbótar.

Þetta er því aðgerð sem gagnast millistéttinni mest, eins og forsætisráðherra hefur bent á.

Með lækkun skulda er viðbúið að ríkið spari sér útgjöld til vaxtabóta. Því er mikilvægt að sérstöku vaxtabæturnar verði ekki látnar renna út né lækkaðar heldur framlengdar út tímabilið sem áætlunin um skuldaleiðréttingu stendur.

Þó þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar sé góð er hins vegar miki vafamál hvort hún nær því máli að verða stærsta skuldaleiðrétting sögunnar.

Að meðaltali er talið að skuldir heimilanna muni lækka um 13% vegna þessara tvíþættu aðgerða, sem er um 8,8% af landsframleiðslu. Skuldir heimila lækkuðu hins vegar úr 129% af landsframleiðslu árið 2009 í 108% 2013, eða um 21%-stig. Að auki hækkaði fyrri ríkisstjórn vaxtabætur verulega, sem nemur tugum milljarða á kjörtímabilinu.

Ef ríkisstjórnin sleppir því að draga frá það sem veitt var í 110% leiðinni og hækkar persónuafslátt myndarlega í tengslum við kjarasamninga þá stendur hún með pálmann í höndunum.

Hún mun þá uppskera meira hagvaxtarbúst að auki, sem gerir allt líf hennar auðveldara í framhaldinu.

Þar eð aðeins er verið að setja um 20 milljarða aukalega inn í hagkerfið á ári næstu fjögur árin verða þjóðhagsáhrif aðgerðanna á hagvöxt og einkaneyslu mjög lítil og verðbólguáhrif nær engin. Það eru líka rök fyrir því að beina skuldaniðurfellingin hefði mátt vera stærri.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra  og Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, sem aldrei hafa látið deigan síga þrátt fyrir mikinn mótvind, mega nú vel við una. Án þeirra atfylgis væri þessi annars ágæta áætlun ekki að sjá dagsins ljós núna.

 

Síðasti pistill: Páfinn í Róm varar við frjálshyggju

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar