Ég fór í Hörpu í gærkvöld. Þar voru Víkingur Heiðar Ólafsson, píanósnillingurinn ungi, og Sinfóníuhljómsveit Íslands með tónleika.
Víkingur lék píanókonsert Bramhs númer 1. Hljómsveitin lék svo ein Schubert og Rúmenska rapsódíu nr. 1 eftir Enescu. Þetta var góð dagskrá.
Snilli Víkings naut sín til fulls í hinum stórbrotna og glæsilega concert Brahms. Hljómsveitin var líka frábær. Sem sagt: hágæða kvöldstund og mikil upplifun.
Á leiðinni út sagði virðulegur Sjálfstæðismaður við mig, að nú væri gott að eiga svona hús til að hýsa slíka snilli. Ég var sammála því.
Í framhaldinu fór ég að hugsa um tilurð Hörpu. Það voru jú útrásarvíkingarnir í Landsbankanum sem létu hanna Hörpu og hófu byggingaframkvæmdir. Þó þeir hafi verið slæmir fór samt aldrei svo að ekki stæði eitthvað gott eftir brask þeirra, sem að öðru leyti setti þjóðarbúið á hausinn.
Það var reyndar ekki svo að útrásarvíkingarnir hefðu komið verkinu í höfn. Það hrundi allt með bankanum, enda byggt á lánsfé sem þeir höfðu safnað að sér í óhófi. Harpa stóð eftir sem hálfköruð beinagrind á hafnarsvæðinu í hjarta Reykjavíkur.
Það var svo skemmtileg þversögn að vinstri stjórnin skyldi taka að sér að klára verkið, í samstarfi við Reykjavíkurborg.
Ætli það hafi ekki verið Katrín Jakobsdóttir ráðherra mennta- og menningarmála og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sem mestu réðu um að það var gert, þó fjárhagur hins opinbera væri í rúst. Byggingin hjálpaði við að koma okkur upp úr feni hrunsins því hún skapaði störf sem sárvantaði fyrir verkafólk og iðnaðarmenn.
Menningarsnauðir frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum vildu hins vegar ekki klára bygginguna. Þeirra hugmynd var sú, að nota Hörpu sem hús fyrir skipaafgreiðslu og lager fyrir heildsala! Aðrir vildu að hún stæði ókláruð í áratugi sem minnismerki um heimsku og óhóf frjálshyggjutímans.
Sem betur fer höfðu vinstri menn betur og nú stendur höllin hér listinni til dýrðar.
Vinstri stjórnin á hrós skilið fyrir það.
Fyrri pistlar