Skýrsla Oxfam um mikinn og sívaxandi ójöfnuð í heiminum var til umræðu á árlegu þingi helstu áhrifamanna heimsins í Davos í Sviss.
Á börum, í veislum, skíðabrekkum og fundarsölum auðmannasamkomunnar í Davos þetta árið var sem sagt talað um ójöfnuð. Heitasta umræðuefnið, sagði skondinn fjármálafréttamaður CNN.
Oxfam hafði sent samkomunni áskoranir um úrbætur.
Frétt Oxfam um að ríkustu 85 einstaklingarnir í heiminum eigi álíka miklar eignir og samanlagðar eignir helmings mannkyns (3.500.000.000 manna) er jú ansi mergjuð. Líka sú staðreynd að ójöfnuður er enn að aukast í kreppunni.
Oxfam-mönnum finnst að þeir hafi náð athygli, sem var markmið.
Aðrir segja að það sé hræsni að auðmenn í Davos ræði um ójöfnuð. Þeir séu sjálfir rót vandans.
Hins vegar hlýtur það að vera gott ef þessir auðmenn og tengdir áhrifamenn í pólitík gera eitthvað í málinu. Umræða í veislusölum þeirra yrði þá til góðs.
Auðvitað má efast um að auðmenn verði við þeim tilmælum Oxfam, að þeir hætti að fela auð sinn í skattaparadísum, styðji velferðarríkið, borgi starfsmönnum sínum hærri laun og greiði sjálfir meira í skatta – og hætti loks að kaupa sér áhrif í stjórnmálum til að auka auð sinn enn frekar. Sjáum til.
Bandaríski háðfuglinn Jon Stewart í The Daily Show gerir hins vegar grín að öllu saman, eins og sjá má hér:
Fyrri pistlar