Í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið fær Dagur B. Eggertsson um helmingsfylgi sem næsti borgarstjóri.
Stuðningur við Dag sem borgarstjóra hefur því aukist verulega frá nóvember sl. er hann með um 30%.
Ég hef áður vakið athygli á því að Dagur hefur unnið í kyrrþey að mörgum góðum málum. Hann leggur ríka áherslu á meiri nýsköpun í Reykjavík, húsnæðismál og lífsgæði, svo nokkuð sé nefnt.
Dagur er greinilega að uppskera laun erfiðis síns á síðustu árum. Hann er með réttar áherslur og kemur málum áfram.
Samfylkingin er með nokkurn ímyndarvanda og stendur ekki mjög vel á landsvísu eftir síðustu þingkosningar. Staðan er þó mun betri í Reykjavík.
Ef menn ætla að fá Dag sem næsta borgarstjóra, eins og helmingur kjósenda virðist vilja, þurfa sennilega fleiri að kjósa Samfylkinguna í borginni.
Á meðan er Sjálfstæðisflokkurinn sundraður í átökum og virðist vera að leysast upp í frumeindir sínar.
Það er því sóknarfæri fyrir skynsamlega og sanngjarna nútímapólitík á miðjunni – og fyrir vænlegan forystumann eins og Dagur er.
Fyrri pistlar