Miðvikudagur 29.01.2014 - 00:13 - FB ummæli ()

Hvers vegna varð risahrunið á Íslandi?

Í framhaldi af umræðunni um hina mikilvægu bók Guðrúnar Johnsen um hrunið er fróðlegt að velta nánar fyrir sér, hvers vegna þetta gríðarlega klúður varð á Íslandi? Það gerðist ekki af sjálfu sér.

Guðrún lýsir því vel í bók sinni hvernig ofurvöxtur bankakerfisins, sem byggður var á óhóflegri skuldasöfnun, jók áhættu og gerði bankakerfið á endanum ósjálfbært.

Þegar alþjóðlegir fjármálamarkaðir lokuðust var ekki lengur hægt að halda kerfinu gangandi með endurfjármögnun. Björgun að hálfu Seðabanka og stjórnvalda var langt frá því að vera möguleg.

Auðvitað brugðust þeir sem áttu að verja þjóðina gegn ofvexti og óhóflegri áhættu í bönkunum – Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og stjórnvöld – eins og Guðrún sýnir með skýrum hætti.

En hvers vegna fóru bankamennirnir og fyrirtækjamennirnir sem tóku mest að láni svona langt afvega? Hvers vegna gekk þetta svona langt?

Ekki voru þetta heimskir menn sem vissu ekki hvað þeir voru að gera? Nei, þetta voru vel menntaðir og klárir menn.

Það voru heldur ekki útlendingar sem ráku Íslendinga til að blása upp eitt stærsta bóluhagkerfi sögunnar, né brugðu fyrir þá fæti í eðlilegum viðskiptum. Það voru ekki Bretar sem tóku niður íslenska bankakerfið, eins og Guðrún Johnsen segir.

Jafnvel þó framboð lánsfjár á alþjóðamarkaði væri mikið þá áttu menn samt ekki að safna meiri skuldum er hægt var að greiða til baka á eðlilegan hátt.

Hvers vegna voru íslensku gerendurnir þá að safna svona óhóflegum skuldum, með svo vafasömum hætti?

Taumlaus gróðasókn íslenskra braskara

Megin ástæðan var sú, að þeir græddu gríðarlega á ævintýrinu. Brask með óhóflegt lánsfé var leið til að græða gríðarlega á stuttum tíma. Þetta var taumlaus gróðasókn að hálfu bankamanna og braskara, sem drekktu íslenska þjóðarbúinu á endanum í skuldum.

Tölur Ríkisskattstjóra um þróun tekna á áratugnum fyrir hrun sýna hvernig hátekjufólkið á Íslandi jók hluta sinn af heildartekjum þjóðarinnar, mjög langt umfram alla aðra landsmenn. Bankamennirnir og braskararnir voru í hópi tekjuhæstu einstaklinga landsins og juku tekjur sínar langmest allra.

Hraðinn í vexti tekna hátekjufólksins á Íslandi var mun meiri en hjá ríkasta eina prósentinu í Bandaríkjunum á sama tíma, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Þetta voru fordæmalaus uppgrip fyrir hátekjufólk á Íslandi, sennilega meiri en áður hafa sést á Vesturlöndum, enda jókst ójöfnuður tekna og eigna örar hér en annars staðar.

Slide2

Hlutur hátekjufólksins á Íslandi (þess eina prósents íbúa sem höfðu hæstu tekjurnar) fór frá því að vera um 4% af heildartekjum þjóðarinnar árið 1995 upp í tæplega 20% árið 2007, þegar bóluhagkerfið náði hámarki. Á sama tíma fór hlutur sama hóps í Bandaríkjunum frá um 15% í um 23,5%. Hraði tekjuaukningarinnar var miklu meiri á Íslandi.

Ég og Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur fjöllum nánar um þetta í grein í nýrri bók um þróun tekjuskiptingarinnar í heiminum (sjá hér). Greinin heitir “Income Inequality in Boom and Bust: A Tale from Iceland’s Bubble Economy”.

Þarna er komin rökrétt skýring á því, hvers vegna óhófleg skuldasöfnun gekk svo langt á Íslandi. Bankamenn og braskarar slepptu græðgi sinni algerlega lausri og gengu eins langt og þeir komust. Tekjur þeirra jukust gríðarlega ört, einkum fjármagnstekjur.

Og þeir komust alltof langt vegna þess að eftirlit og aðhald frá stjórnvöldum, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti var alltof veikt, eins og sýnt er í bók Guðrúnar Johnsen.

Það var sem sagt yfirstéttin á Íslandi sem fór afvega í gróðaleit sinni – og þjóðin öll ber afleiðingarnar.

Það skiptir líka máli að óhófið, eftirlitsleysið og ójöfnuðurinn var réttlætt af hugmyndafræði frjálshyggjunnar, sem var hættulega áhrifamikil á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar