Laugardagur 01.02.2014 - 11:20 - FB ummæli ()

Lýðskrum að vilja bæta hag almennings?

Lýðræði á að snúast um það, að kjörin stjórnvöld þjóni almenningi – almannahag.

Það þýðir að stjórnvöld eiga að reyna að svara óskum og þörfum fjöldans, eins og frekast er kostur.

Eitt af því mikilvægasta sem stjórnvöld eiga að gera er að stuðla að bættum hag sem flestra. Auka velferð og kaupmátt allra, ekki bara fámennrar yfirstéttar. Bæta lífsgæði heildarinnar.

Þetta er kjarninn í klassískum boðskap John Stuart Mills um lýðræðið. Þetta er líka grundvöllur velferðarríkisins í blönduðum hagkerfum nútímans.

Samt heyrum við ætíð raddir sem kenna það við “lýðskrum” þegar stjórnmálamenn vilja svara kalli almennings um bættan hag á tilteknum sviðum.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi stjórnarformaður MP banka, kallar tillögur Framsóknarflokksins um skuldalækkun til heimila og afnám verðtryggingar á neytendalánum “lýðskrum”.

Raunar kallar hann það líka “þjóðernispopúlisma”, til að krydda það með enn neikvæðari tón.

Í dag segir Þorsteinn sigri hrósandi að lélegt meirihlutaálit nefndar forsætisráðherra um afnám verðtryggingar feli í sér „bakslag fyrir popúlisma” Framsóknar. Samt er forsætisráðherra búinn að lýsa því að hann muni taka fullt tillit til vitlegra minnihlutaálits Vilhjálms Birgissonar.

Sumir verkalýðsleiðtogar í ASÍ eru reyndar komnir svo langt af leið kjarabaráttunnar að þeir kalla félaga sína sem vilja alvöru kjarabætur fyrir launafólk “lýðskrumara”.

Kyrja í staðinn hagfræðiþulur atvinnurekenda um að lágu launin á Íslandi séu helsta orsök mikillar verðbólgutilhneigingar. Slíkt tal hefði mátt reyna ef laun almennings á Íslandi væru sérstaklega há. Því fer þó fjarri.

Manni sýnist að launþegahreyfingin sé búin að missa trúna á að hægt sé að auka kaupmáttinn í landinu – jafnvel þó þokkalegur hagvöxtur sé. Það er auðvitað út úr öllu korti.

Er ekki tímabært að rifja upp hvert eðli og hlutverk stjórnvalda í lýðræðisþjóðfélagi á að vera?

Og hvert hlutverk launþegahreyfingar er?

 

Síðasti pistill: Hvers vegna varð risahrunið á Íslandi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar