Þriðjudagur 04.02.2014 - 09:59 - FB ummæli ()

Adam Smith: Hækkun launa eykur afköst

Nýfrjálshyggjumenn hafa lengi flaggað Adam Smith sem læriföður sínum. Hann var jú helsti höfundur markaðshyggjunnar, sem hann skrifaði um í bók sinni Auðlegð þjóðanna, er kom út árið 1776.

En Adam Smith var ekki eins og dæmigerður nýfrjálshyggjumaður nútímans (“neoliberal” á ensku). Hans hugsun var miklu dýpri og víðari – og raunar tók hann mun meira tillit til félagslegra sjónarmiða en nýfrjálshyggjumenn almennt gera.

Hann barðist heldur ekki fyrir forréttindum til auðmanna, eins og nýfrjálshyggjumenn iðulega gera.

Atvinnurekendur gera gjarnan nýfrjálshyggjuna að sinni hugmyndafræði, enda mærir hún hlutverk þeirra í samfélaginu og óskar þeim sérstakra fríðinda, eins og skattfríðinda, frelsis frá afskiptum ríkis og verkalýðshreyfingar – og lítils launakostnaðar.

En Adam Smith var enginn talsmaður lágra launa. Það má sjá á eftirfarandi ívitnun í bók hans Auðlegð þjóðanna:

“Ríkuleg laun stuðla að aukinni vinnusemi meðal alþýðunnar, rétt eins og þau leiða til aukinnar fólksfjölgunar. Vinnulaunin eru sá vinnuhvati sem, eins og önnur mannleg eigindi, leiðir til árangurs í réttu hlutfalli við notkun hans. Gott viðurværi eykur líkamlegan styrk verkamannsins og hin þægilega von um bætt kjör og um að búa við þægindi í ellinni hvetur hann til að nýta líkamsstyrk sinn af fremsta megni.

Samkvæmt þessu er ljóst, að þar sem laun eru há eru verkamenn ætíð starfssamari, kostgæfnari og skjótvirkari en þar sem laun eru lág… (feitletrun mín)”

Adam Smith, Auðlegð þjóðanna, bls. 81-82

Og svo er þetta:

“Ekkert þjóðfélag getur sannanlega blómstrað ef meirihluti íbúanna býr við fátækt og eymd. Það er auk þess aðeins sanngjarnt að þeir sem fæða, klæða og byggja yfir þjóðina alla með vinnu sinni skuli sjálfir fá í sinn hlut nóg til að vera þolanlega haldnir í fæði, klæðum og húsnæði.”

Adam Smith, Auðlegð þjóðanna, bls. 79

Þetta er hliðin á Adam Smith sem nýfrjálshyggjumenn sýna aldrei né ræða um.

Þeir sem vilja losa Íslendinga úr faðmi láglaunastefnunnar eiga sem sagt öflugan stuðningsmann í Adam Smith.

Hann er talsmaður launastefnu sem felur í sér há laun verkafólks og almennings og meiri árangur í framleiðslu (meiri framleiðni). Hvoru tveggja vantar tilfinnanlega á Íslandi og fer einmitt vel saman, eins og fram kemur hjá Adam Smith.

Hærri laun > aukin framleiðni > aukinn hagvöxtur.

Þetta er stefnan sem launþegahreyfingin, atvinnurekendur og stjórnvöld ættu að sameinast um.

 

Síðasti pistill: Hof Poseidons – myndir frá Grikklandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar