Margir muna eftir hugmynd sósíalistanna í sænsku verkalýðshreyfingunni frá sjöunda áratugnum, um að lífeyrissjóðir almennings myndu smám sama kaupa upp öll hlutabréf á markaði í Svíþjóð.
Þetta þótti snjöll hugmynd hjá þeim sem voru lengst til vinstri í pólitíkinni.
Þar eð sjóðirnir væru í eigu launafólks, mætti með þessum hætti smygla sósíalísmanum inn um bakdyrnar.
Í stað þess að steypa kapítalismanum í blóðugum stéttaátökum myndu launamenn einfaldlega kaupa út kapítalistana (með sparifé sínu) og koma atvinnulífinu þar með í sameign þjóðarinnar (eða a.m.k. í sameign launamanna).
Atvinnurekendur í Svíþjóð börðust af krafti gegn þessari hugmynd og var hún á endanum lögð til hliðar.
Miðað við frétt Fréttablaðsins í dag erum við hins vegar á hraðferð inn í sænskan sjóðasósíalisma, með því að íslensku lífeyrissjóðirnir eiga nú þegar um 37% allra hlutabréfa á aðallista íslensku kauphallarinnar.
Lífeyrissjóðir eiga jafnvel í fyrirtækjum sem keppa innbyrðis á markaði, t.d. í báðum helstu tryggingafélögunum. Sjóðirnir eru alls staðar.
Þeir eiga t.d. í Össuri (110,2 milljarða króna virði), Icelandair (98,5 ma.), Marel (94 ma.), Högum (52,4 ma.), Eimskip (50,7 ma.), VÍS (26,4 ma.), TM (23,2 ma.), Reginn (20,7 ma.), N1 (18,8 ma.), Vodafone (10,3 ma.) og Nýherja (1,5 ma.).
Á Íslandi var það gjarnan svo hér áður fyrr að eignarhald olíufélaga var eins konar djásn í krúnu fyrirtækjakapítalista. Eitt slíkt djásn var gjarnan í helstu keðjum fyrirtækja, svo sem hjá Kolkrabbanum og Smokkfiskinum.
Nú er N1 sem sagt í sameign sjóðsfélaga – í sjóðasósíalismanum íslenska. Þetta er auðvitað athyglisverð þróun.
Laun stjóra og stjórnarmanna hækka – en almenningur sýni hófsemd og lækki verðbólgu
Samt er það svo að almennir launamenn njóta lítils og forstjóri frá Eimreiðinni, þ.e. félagi frjálshyggjumanna í Sjálfstæðisflokknum, var þar til nýlega forstjóri Framkvæmdasjóðs lífeyrissjóðanna.
Atvinnurekendur eru líka með fulltrúa í öllum stjórnum lífeyrissjóða, með verkalýðsleiðtogum. Sennilega hafa atvinnurekendur mestu áhrifin í stjórnunum – þeir eru meira í fjármálum, klæðast flottari jakkafötum og kunna betur á Excel-skjölin en verkamennirnir.
Í stjórnum sjóðasósíalismans leika aðilar vinnumarkaðarins “fjárfesta” og tengjast órjúfanlegum böndum. Slíkur hjúskapur gæti þó hamlað kjarabaráttu verkalýðsfélaga.
Það reynist t.d. mun auðveldara að hækka laun stjóranna í félögunum sem lífeyrissjóðirnir eiga, sem og hjá stjórnarmönnum í lífeyrissjóðunum, en að hækka kaup almennings. Almenningi er ætlað að axla ábyrgð á lækkun verðbólgu í staðinn.
Þetta er hinn nýi veruleiki fjármálanna á Íslandi. Stóra spurningin er hvort launþegahreyfingin hafi mótað sér skýrar hugmyndir um hvernig best sé að stýra þessu bákni og hvernig tilvist þess verði til góðs fyrir almenning og lífeyrisþega um langa framtíð. Ég held að mikið vanti upp á að fyrir öllu sé hugsað í þeim efnum.
Menn skyldu líka minnast þess, að lífeyrissjóðir voru þátttakendur í öllum útrásarverkefnum sem farið var í frá Íslandi fram að hruni. Töpuðu svo hátt í fjórðungi af eignum launafólks í hruninu.
Lífeyrissjóðirnir eru nú helstu fulltrúar og valdhafar kapítalismans á Íslandi.
Stjórnun þeirra skiptir afar miklu fyrir valddreifinguna í samfélaginu – og raunar fyrir framþróun samfélagsins alls.
Fyrri pistlar