Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á fyrir hvað Píratar vilja standa.
Í málflutningi þeirra hefur verið áberandi áhersla á frelsi á netinu og barátta fyrir mannréttindum.
Á heimasíðu þeirra kemur fram að Píratar leggja áherslu á gagnrýni, upplýsingu, borgararéttindi, friðhelgi einkalífs, gegnsæi og ábyrgð, auk mikillar áherslu á beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt.
Maður getur vel tekið undir sumar almennar áherslur af þessu tagi. Mestu skiptir þó alltaf hvernig framkvæmdin er.
Á heildina litið virðist stefna Pírata einkennast af sterkri einstaklingshyggju og fjandskap við eftirlit og stjórnun ríkisins. Að því leyti gætir þarna afskiptaleysisstefnu, eins og líka tíðkast hjá róttækum markaðshyggjumönnum frjálshyggjunnar.
Ég efast þó um að margir Píratar taki undir þjónkun nýfrjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum við auðmenn og valdamenn fjármálaheimsins.
Kanski eru þarna fyrst og fremst almennir straumar stjórnleysisstefnu (anarkisma), eins og oft gætir hjá ungu fólki sem finnur marga annmarka við “kerfin” sem fyrir eru.
Mér finnst of mikið vanta á ábyrgðarhlið stefnuskrárinnar hjá Pírötum á meðan mikil áhersla er á frelsi einstaklingsins. Í því liggur nokkur hætta.
Frelsi eins má ekki verða til þess að skerða frelsi annars, eins og John Stuart Mill kenndi. Það er grundvallarregla farsælla samfélaga.
Slíkt kallar á ábyrgð og einhverjar hömlur á frelsi – þ.e. í þágu farsællar sambúðar í samfélagi. Við samþykkjum hóflegar takmarkanir á frelsi okkar til að fá jafnrétti, öryggi, réttlæti og önnur gildi sem eru okkur mikilvæg, ekki síður en frelsið.
“Stóra Tryggingastofnunarmálið”
Ástæðan fyrir því að ég fór að pæla í þessu hjá Pírötum er “Stóra Tryggingastofnunarmálið”. Það snýst um að á Alþingi var nýlega samþykkt lagabreyting með auknum heimildum TR til að koma í veg fyrir misnotkun í lífeyris- og bótakerfinu. Ég tek fram að málið er mér skylt, því ég er stjórnarmaður í TR.
Helsta nýmæli breytingarinnar er heimild til að beita ákveðnari viðurlögum gegn bótasvindli, þ.e. þegar einstaklingar eru staðnir að því að svíkja út lífeyri eða bætur án þess að eiga rétt til þeirra. Slík svik eru beinn þjófnaður frá samfélaginu, sem veikir velferðarkerfið.
Þingmenn Pírata samþykktu í fyrstu lagabreytinguna, en ruku svo upp til handa og fóta og báðu afsökunar á því. Virðast telja að með þessu sé ríkisvaldið að teigja sig of mikið til aukins eftirlits með borgurunum.
Nú er það staðreynd að til er fólk sem er víst með að misnota frelsi sitt til eigin ábata og jafnvel með því að skaða frelsi annarra. Í þessu tilviki að freista þess að svíkja fé út úr almannatryggingum (frá skattgreiðendum) með ólögmætum hætti. TR hefur beitt ýmsum aðferðum til að aftra slíku og nær árangri við það.
Samt telur Ríkisendurskoðun hugsanlegt að um 3 milljarðar tapist á ári hverju vegna svika eða rangra greiðslna í kerfinu. Ástandið væri þó mun verrar án eftirlits og aðhalds.
Hvað þýðir þetta?
Þetta þýðir að í algerlega óheftu frelsi einstaklinga felst aukin hætta á að fólk fari afvega, leiðist út í siðleysi og afbrot. Ef það er auðvelt að stela munu einhverjir láta freistast. Allir þurfa aðhald. Frelsinu þarf sem sagt að fylgja aðhald og ábyrgð.
Við sáum hvernig aukið frelsi á fjármálamörkuðum og í bönkum leiddi marga afvega fyrir hrun, svo mjög að sjálft samfélagið fór á hliðina. Þess vegna er róttæk afskiptaleysisstefna bæði hættuleg og einfeldningsleg.
Við vitum það líka að án löggæslu myndi lögbrotum fjölga og ofbeldi aukast. Umferðin á vegum yrði hættulegri með meira tjóni, fleiri slysum og fleiri dauðsföllum. Slíkt felur í sér frelsisskerðingar fyrir saklausa.
Það þarf því jafnvægi milli frelsis, réttlætis og öryggis í samfélaginu. Það eru einkum stjórnvöld sem geta tryggt eftirlit og aðhald til að bæta það jafnvægi.
Auðvitað er líka hægt að hafa of mikið og skaðlegt eftirlit og ríkisvald getur orðið hættulegt einstaklingsfrelsinu. Líkur á slíku eru þó minnstar í þróttmiklum lýðræðisríkjum, eins og tíðkast í okkar heimshluta.
Samfélagið þarf því líka að geta haft eftirlit með eftirlitsaðilunum. Þar er áhersla Pírata á gagnsæi og upplýsingar mikilvæg.
Þó er ástæða til að vara við einfeldningslegri afskiptaleysisstefnu og hömlulausri áherslu á frelsi einstaklinga, eins og virðist gæta hjá Pírötum.
Farsæld í samfélagi er best tryggð með jafnvægi milli frelsis, réttlætis og öryggis.
Ofuráhersla á frelsi án aðhalds og ábyrgðar leiðir til siðleysis, spillingar, lögbrota og jafnvel ofbeldis. Það er einmitt helsti galli nýfrjálshyggjunnar, sem gerði að verkum að hún endaði sem hugmyndafræði auðræðis og yfirstéttar, hún réttlætir ofurvald þeirra ríku og valdamiklu á kostnað allra annarra.
Ég held ekki að Píratar vilji siðleysi og þjófnað, en þeir þurfa að átta sig á því að góð, siðleg og farsæl hegðun allra sprettur ekki af sjálfu sér.
Þess vegna ættu Píratar að styðja heilbrigt eftirlit með því að fjármunum almannatryggingakerfisins sé eðlilega varið til þeirra sem á þurfa að halda og rétt hafa.
Það þjónar almannahag.
Fyrri pistlar