Skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ um stöðu ESB viðræðna kemur ekki fram með neitt nýtt. Raunar slær hún úr og í varðandi eitt stærsta ágreiningsmálið.
Í skýrslunni segir annars vegar að “ekki sé hægt að fá undanþágur” frá reglum ESB og hins vegar að hægt sé að semja um “varanlegar sérlausnir” sem ESB geti ekki breytt einhliða.
Í minni bók eru slíkar varanlegar sérlausnir það sama og undanþágur!
Eðlilega getur svona skýrsla því stutt málstað bæði aðildarsinna og andstæðinga. Eins og komið hefur á daginn.
Hins vegar rjúka andstæðingar þess að klára aðildarviðræður nú upp og vilja leggja fram tillögu um að slíta viðræðunum við ESB strax – sumir jafnvel áður en þeir voru búnir að lesa skýrsluna.
Það er í takti við ríkjandi einkenni á málflutningi andstæðinga þessara viðræðna. Þar hefur gætt of mikils ofstækis, forheimskunar og ýkjutals.
Hætta er á því að slíkur málflutningur og ótaktísk framkoma gagnvart ESB ríkjum skaði hagsmuni Íslands.
Við eigum jú gríðarlega mikið undir velvilja Evrópusambandsins komið, enda er þar okkar langstærsti markaður og margvísleg önnur tengsl.
Ef við ætlum að vera áfram á Evrópska efnahagssvæðinu munum við þurfa sækja að ESB með margvíslegum óskum um frávik og undanþágur á næstu misserum, meðal annars varandi gjaldeyrishöft sem verða hér augljóslega til langs tíma.
Við munum líka vilja fá að smygla okkur inn á svæði nýs fríverslunarsamnings milli ESB og USA, svo annað sé nefnt. Það gæti einungis heppnast með miklum velvilja ESB í okkar garð, því sá samningur er einungis fyrir aðildarríki ESB.
Við þurfum sem sagt á velvild ESB að halda og ættum því að hreyfa okkur varlega. Öll þing aðildarríkjanna samþykktu, hvert fyrir sig, að fara í aðildarviðræður við Ísland.
Ofstæki eins og hefur einkennt andstæðinga ESB er því ekki farsælt fyrir þjóðarhag okkar.
Fyrri pistlar