Ég er óflokksbundinn, styð góð mál og gott fólk óháð stjórnmálaflokkum og hagsmunasamtökum.
Ég fagna því að Dagur B. Eggertsson skuli nú vera á góðri siglingu fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík í vor.
Flokkur Dags er nú með mest fylgi í borginni og um helmingur borgarbúa segir í könnunum að þau vilji helst fá Dag sem nýjan borgarstjóra.
Ég hef fylgst með Degi um árabil og kann vel að meta störf hans. Dagur er vandaður maður og vinnusamur, úrræðagóður með afbrigðum og mannasættir hinn mesti.
Það hefur verið gaman að fylgjast með verkum Dags á síðasta kjörtímabili. Flest hefur hann unnið i kyrrþey, án bægslagangs og sjálfhóls. Hann hefur tengst mörgum góðum verkum sem hafa verið að koma upp á yfirborðið, skref fyrir skref.
Það er ánægjulegt að menn skuli uppskera vel eftir gott starf. Það á við um Dag B. Eggertsson og lið hans.
“Kóngur vill sigla, en byr ræður för”, segir málshátturinn.
Það er auðvitað byrinn frá borgarbúum sem ræður valinu í Reykjavík í vor.
Þetta gæti farið vel!
Fyrri pistlar