Það var athyglisverð umræði á SKY stöðinni í kvöld, um ESB aðild Bretlands.
Þar tókust á Nigel Farage formaður hins nýja Breska Sjálfstæðisflokks (UKIP) og Nick Clegg formaður Frjálslynda flokksins og vara-forsætisráðherra.
UKIP hefur átt undir högg að sækja hjá hinum stjórnmálaflokkunum og hjá mörgum álitsgjöfum. Þeir þykja ófínir! Leiðtogar stærstu flokkanna, Cameron og Miliband, neituðu til dæmis að taka þátt í rökræðunni með Nigel Farage í kvöld.
Hins vegar hefur fylgi UKIP verið mjög vaxandi og þeir virðast líklegir til að ná góðri kosningu til Evrópuþingsins í vor.
Sókn UKIP veldur því miklum usla í breskum stjórnmálum.
Íhaldsflokkur Camerons neyðist til að herða afstöðu sína gagnvart ESB og mun að öllum líkindum sækja af festu fram með kröfur um breytingar á aðildarskilyrðum, ekki síst til að takmarka frelsi innflytjenda til að koma til Bretlands. Það yrði grundvallarbreyting á ESB.
Umræðan í kvöld var fjörug og í bestu hefð Breta, málefnaleg en tekist á af festu. Mikið væri gaman ef íslenska umræðan næði slíku plani – en mikið vantar uppá það. (Ég vil helst fara í felur þegar ég heyri talsmenn Heimssýnar tala um ESB – jafnvel þó ég hafi efasemdir um það fyrirbæri. Lágkúran og heimskan er oftast yfirgengileg).
En tíðindi dagsins eru þau, að Nigel Farage formaður UKIP vann rökræðuna, skv. niðurstöðu könnunar meðal almennings sem gerð var í kjölfarið. Um 57% sögðu hann hafa haft betur, en 36% sögðu vara-forsætisráðherrann hafa haft betur. Restin var óviss. Meðal þeirra sem tóku afstöðu var þetta ríflega 60:40 sigur Farage og UKIP.
Meðal stuðningsmanna Íhaldsflokksins voru það um 70% sem sögðu Farage hafa haft betur. Það mun trufla Cameron forsætisráðherra gríðarlega.
Kosningarnar til Evrópuþingsins í vor verða væntanlega spennandi.
Fyrri pistlar