Það er ánægjulegt að sjá hversu vel tókst til með kjarasamning framhaldsskólakennara og stjórnvalda. Að vísu þurfti verkfall í þrjár vikur til að klára málið – en árangurinn er þess virði.
Þetta er óvenjulegur og skapandi kjarasamningur. Menntamálaráðherra kallar hann tímamótasamning.
Þetta er umbótasamningur, sem skilar mikilvægum framförum í skólakerfinu og umbunar kennurum með alvöru kjarabótum, ef vel tekst til. Kauphækkanir ráðast af árangri í umbótastarfi.
Raunar má segja að þetta sé tímamótasamningur, sem vonandi verður fyrirmynd fyrir aðra hópa í skólakerfinu.
ASÍ gæti tekið þessa aðferðafræði sér til fyrirmyndar, til dæmis í samningi um framleiðniaukningu og styttingu vinnutíma sem tengdur yrði við verulegar kauphækkanir, sem þó væru skilyrtar með árangri í umbótunum. Vonandi verður fljótlega möguleiki á slíkum samningi.
Hér er lýsing á helstu þáttum samningsins við framhaldsskólakennara:
Kennarar fá 2,8% hækkun strax, tvö prósent í ágúst og önnur tvö prósent í janúar 2016. Launahækkanir þeirra tengjast þó að mestu leyti breytingum á skólastarfinu sem kveðið var um í lögum um framhaldsskóla sem samþykkt voru 2008. Það á við um fimm daga lengingu skólaársins, nýja námseiningu og tenginu próftíma og námstíma. Þessar breytingar eru metnar á 17 prósentustig á samningstímanum.
Laun hækka í tengslum við breytingarnar fyrst um 4 prósent og um 5 prósent í ágúst í haust. Eigi síðar en í febrúar á næsta ári verður atkvæðagreiðsla meðal kennara um breytt vinnufyrirkomulag. Ef kennarar eru á móti þeim fellur kjarasamningurinn úr gildi og ekkert verður úr launahækkunum á næsta ári og því þarnæsta. Samþykki þeir hins vegar hækka laun þeirra um átta af hundraði í maí á næsta ári.
Þegar allar hækkanir eru lagðar saman geta laun kennara hækkað um allt að 29 prósent. Krafa kennara var um að laun þeirra yrðu leiðrétt og grunnkrafan var 17 prósenta hækkun.
Síðasti pistill: Frjálshyggjumenn flýja Jörðina – á lekum báti
Fyrri pistlar