Hannes Hólmsteinn Gissurarson endurprentaði nýlega nokkra helstu smellina úr ófrægingarherferð sinni gegn mér frá síðustu sjö árunum.
Heldur er það nú hlægilegt – eða öllu heldur “Hólmsteinslegt”!.
Einna efst á blaði er sú staðhæfing hans að ég hafi gert mistök í fjölmiðlaumræðu um fátækt á árinu 2003.
Forsaga þess máls er sú, að ég gerði rannsókn ásamt öðrum á umfangi, einkennum og þróun fátæktar á Íslandi frá 1986 til 1998. Birti niðurstöðurnar í skýrslu og fræðilegri grein erlendis og einnig í bókinni Íslenska leiðin, sem kom út árið 1999.
Fátækt var bannorð í ríki Davíðs
Þetta var á stjórnartíma Davíðs Oddssonar. Sá ágæti maður kunni því hins vegar illa að talað væri um að fátækt væri að finna á Íslandi. Ég hafði verið í ágætu sambandi við forystu Sjálfstæðisflokksins áður, ráðlagði þeim m.a. um túlkun kannana fyrir kosningarnar 1995. Með greinaskrifum mínum um fátækt ári síðar féll ég hins vegar umsvifalaust í mikla ónáð hjá Davíð og hirð hans allri. Lét það þó ekki á mig fá.
Síðar braut ég aftur af mér gagnvart hirð Davíðs með því að standa að útgáfu merkrar bókar Hörpu Njáls, Fátækt á Íslandi, vorið 2003. Hending réð því að bókin kom út skömmu fyrir þingkosningarnar, en hún var send í prentun einfaldlega þegar hún var tilbúin. Átti raunar að vera komin út talsvert fyrr.
Þetta tóku hirðmenn Davíðs sem mikla og skipulagða herferð gegn honum og beinlínis ærðust af heift – jafnvel þó útkoman hafi alls ekki verið Íslandi neitt sérstaklega óhagstæð! Það einfaldlega mátti ekki tala um fátækt í ríki Davíðs. Hannes Hólmsteinn hefur til dæmis ekki enn getað hætt að tala um þessi miklu “drottinsvik” (eins og líka sést af bloggi hans frá síðustu viku)!
Hin meintu mistök mín eiga að hafa verið þau, að hafa dregið þá hóflegu ályktun, að á tímabilinu frá 1986 til 1998 hafi fátækt verið „heldur meiri á Íslandi en hjá hinum norrænu þjóðunum“, enda var velferðarkerfi frænda okkar þá viðameira og örlátara en okkar. Sú ályktun stendur þó enn óhögguð fyrir það tímabil – og á raunar einnig við um nútímann.
Löngu seinna birti Hagstofan tölur úr könnun fyrir árið 2004 sem bentu til að þá væri það sem kallað er “afstæð fátækt” svipað á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum. Það var raunar í ágætu samræmi við niðurstöður mínar frá fyrra tímabilinu, enda benti ég á að fátækt hefði verið minnkandi á Íslandi frá 1986 til 1998, einkum meðal eldri borgara.
Framhald þeirrar þróunar til 2004 hefði einmitt að öðru óbreyttu átt að færa okkur nær hinum norrænu þjóðirnar um árið 2004-5, miðað við þessa mælingu (sem þó er alls ekki sú eina sem máli skiptir og alls ekki sú mikilvægast).
Síðan hefur Hannes gert mikið úr því að ég hafi tekið til máls um fátækt á árinu 2003 í dagblaði, með athugasemd við erindi Sigurðar Snævarr, sem augljóslega vanmat fátæktina, eins og raunar kom fram í fyrirvara Sigurðar sjálfs. En Hannes horfir auðvitað framhjá því að mynd sem ég birti með þeirra athugasemd vísaði til áranna 1997 til 1998 – en ekki til 2004, eins og hann hefur þó ítrekað gefið í skyn.
Fátækt er fjölþætt fyrirbæri – krefst fjölþættra mælinga
Almennt veit Hannes Hólmsteinn lítið um rannsóknir á fátækt, aðferðafræði eða niðurstöður og hann fylgist heldur ekki með á því sviði. Hann hefur aldrei gert neina rannsókn á fátækt á Íslandi. Hann hefur alltaf haft meiri áhuga á hugmyndafræði og ríka fólkinu, eins og almennt er um nýfrjálshyggjumenn.
Í nýlegri fræðilegri grein um fátækt á Íslandi, sem Guðný Björk Eydal prófessor og ég ritum í bókinni Þróun velferðarinnar 1988-2008, bendum við á að fátækt er fjölþætt fyrirbæri sem kallar á fjölþættar mælingar. Það er engin ein mæling sú eina rétta. Afstæð fátækt sem mikið er notuð af hagstofum er alls ekki án galla og heldur ekki sú mikilvægasta. Birtum við því nokkrar ólíkar mælingar á fátækt á Íslandi í greininni.
Skemmst er frá því að segja að ólíkar mælingar gefa svolítið ólíkar niðurstöður. Almenna niðurstaðan er þó sú, að í seinni tíð hefur fátækt á Íslandi verið í átt að því sem hefur verið á hinum Norðurlöndunum og þar með er hún með minna móti á heimsvísu. Þó ýmsar traustar vísbendingar séu um heldur meiri fátækt hér á landi er ekki ástæða til að vera með nein gífuryrði um það. Munurinn er almennt lítill.
Forsætisráðuneyti Geirs Haarde gekkst t.d. fyrir úttekt á fátækt barna á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin fyrir árið 2004, sem birt var árið 2006 (sjá hér). Þar var niðurstaðan sú að fátækt væri meiri á Íslandi en hjá frændþjóðunum. Það var í nokkru ósamræmi við könnun Hagstofunnar sem síðar var birt og náði einnig til ársins 2004. Hannes hefur auðvitað ekki áhuga á slíkum flækjum.
Hann hefur heldur ekki ráðist að Geir Haarde fyrir að birta árið 2006 skýrslu í nafni forsætisráðuneytisins sem sagði að fátækt barna væri meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum!
Nýrri gögn um fátækt á Íslandi og Norðurlöndum
Ég hef svo á bloggi mínu birt nýrri tölur um fátækt sem snerta viðfangsefnið að mörgu leyti betur en fyrri gögn sem tiltæk hafa verið. Þau gögn benda mörg til þess að fátækt sé í seinni tíð og sérstaklega í kreppunni meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Heldur meiri. Við erum samt í góðum félagsskap í þeim efnum, þó betur megi vissulega gera til að draga úr fátækt hér á landi.
Fyrri myndin hér að neðan sýnir tölur frá OECD fyrir árið 2005. Þar eru sýndar jafngildar ráðstöfunartekjur lágtekjufólks í OECD-ríkjunum (þ.e. kaupmáttur rauntekna þeirra tíu prósenta heimila sem lægstar tekjur hafa). Þetta segir miklu meira um afkomu lágtekjufólks í ólíkum löndum en tölur um afstæða fátækt.
Niðurstaðan er ótvírætt sú, að lágtekjufólk á Íslandi hafði lægri ráðstöfunartekjur og kaupmátt en sambærilegir hópar á hinum Norðurlöndunum árið 2005 (grein um það hér).
Mynd 1: Raunverulegur kaupmáttur ráðstöfunartekna lágtekjufólks í OECD-ríkjum árið 2005 (miðað er við þau 10% heimila sem lægstar tekjur hafa). (Heimild: OECD Growing Unequal?, 2008)
Hannes Hólmsteinn hélt því einnig gjarnan fram fyrir nokkrum misserum að fátækir í Bandaríkjunum væru með miklu betri lífskjör en fátækir á Norðurlöndum. Tölur OECD ganga þó þvert á það! Kaupmáttur ráðstöfunartekna fátækra í Bandaríkjunum var mun lakari en á Norðurlöndunum öllum, þar með talið á Íslandi, eins og sjá má á myndinni.
Seinni myndin er svo með nýleg gögn frá Eurostat er gefa einnig mun ábyggilegri mynd af stöðu fátækra en tölur um afstæða fátækt einar og sér. Þarna má sjá í hve miklum mæli fátækir (þeir sem eru undir afstæðum fátækramörkum) eiga erfitt með að láta enda ná saman í daglegum útgjöldum heimilisins (grein um það hér).
Mynd 2: Fjárhagsþrengingar lágtekjufólks (þeirra sem eru undir fátæktarmörkum) á Norðurlöndum, 2004 til 2011. Miðað er við 60% fátæktarmörk. Súlurnar sýna hlutfall þeirra sem eru undir fátæktarmörkum sem segjast “eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman”. (Heimild: Eurostat).
Á árinu 2004 var umtalsvert stærri hluti fátækra heimila á Íslandi sem átti í erfiðleikum með að láta enda ná saman en á hinum Norðurlöndunum (20% hér á móti 8-14% þar). Það skánaði svo á bóluárunum en fjárhagsþrengingar jukust svo fyrir alla hér á landi eftir frjálshyggjuhrunið. Myndin sýnir það með skýrum hætti og svo hefur staðan heldur skánað á ný á allra síðustu misserum.
Fjárhagsþrengingar lágtekjufólks hafa verið meiri á Íslandi öll árin frá 2004 til síðustu ára. Kanski það skipti máli fyrir mat á fátækt?
Miðað við þessar nýju tölur virðist mín hóflega ályktun frá 1999, um að fátækt sé heldur meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum best lýsa stöðunni enn þann dag í dag. Þó má einnig finna dæmi um einstaka þætti fátæktarmála sem eru í betra horfi hér á landi en hjá frændum okkar. Til dæmis er félagsleg útskúfun minni hér vegna betra atvinnuástands til lengri tíma (þ.e. utan verstu kreppuáranna).
Þeir sem vilja fjalla um fjölþætt viðfangsefni eins og fátækt þurfa að horfa á alla þætti sem máli skipta og byggja niðurstöður sínar á margvíslegum gögnum, en ekki bara einni hagstærð.
Hannes Hólmsteinn hefur aldrei haft áhuga á að kryfja staðreyndir um fátækt á Íslandi. Í fyrstu var hann í hópi þeirra sem vildu þagga niður alla umræðu um fátækt á Íslandi og síðar reyndi hann fyrir sér með ófrægingum um gömul skrif mín og nýrri skrif Hörpu Njáls, með einföldunum, afbökunum og hártogunum – en umfram allt með ósannindum.
Þannig er háttur fúskara og áróðursmanna.
Hannes hefur líka fúskað mikið um ójöfnuð. Ég mun fjalla nánar um það síðar.
Fyrri pistlar