Fimmtudagur 24.04.2014 - 18:23 - FB ummæli ()

Ólíkar afskriftir skulda heimila og fyrirtækja

Skuldaleiðréttingin hefur verið stærsta mál stjórnmálanna, bæði á fyrra kjörtímabili og núna.

Það er því fróðlegt að skoða hversu mikið hefur verið afskrifað af skuldum heimila í samanburði við skuldaafskriftir sem eigendur  fyrirtækja hafa fengið.

Nýlegar tölur frá Seðlabankanum benda til að skuldaafskriftir til fyrirtækja séu nú orðnar um níu sinnum meiri að vöxtum en skuldaafskriftir sem heimilin hafa fengið (sem % af landsframleiðslu).

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.

Skuldaafskriftir heimila og fyrirtækja

Umfang skulda fyrirtækja og heimila fyrir og eftir afskriftir og umfang afskrifta. (Heimild: Seðlabanki Íslands)

 

Fyrirtækin skulduðu mest um 384% af landsframleiðslu í upphafi kreppunnar. Það voru einmitt skuldir fyrirtækjanna og bankanna sem settu Ísland á hliðina með hruninu (en ekki flatskjáir heimilanna!).

Eftir gríðarlegar skuldaafskriftir voru skuldir fyrirtækja í lok síðasta árs komnar niður í 142% af landsframleiðslu.

Það er sem sagt búið að afskrifa um 63% af skuldum fyrirtækjanna, hátt í tvo þriðju skuldanna. Mörgum heimilum þætti væntanlega gott að fá slíkan lúxus?

Þetta eru nærri tvær og hálf landsframleiðsla sem búið er að losa af fyrirtækjunum (242% af landsframleiðslu).

 

Litlar afskriftir hjá heimilum

Skuldir heimila urðu hæstar um 134% af landsframleiðslu en voru komnar niður í um 105% í lok síðasta árs.

Það er einungis búið að afskrifa eða greiða niður um 22% af skuldum heimilanna – á móti 63% af skuldum fyrirtækja (sem voru miklu meiri að vöxtum en skuldir heimila).

Það er einungis um 28% af einni landsframleiðslu sem heimili hafa fengið.

Afskriftum er því mjög misjafnlega skipt milli heimila og fyrirtækja. Vægast sagt.

Í þessu samhengi er því mjög undarlegt hversu mikil andstaða er nú gegn skuldaleiðréttingu til heimila, bæði innan Sjálfstæðisflokks og jafnvel einnig meðal stjórnarandstöðuflokka.

Fyrirtæki hafa losnað við um 4000 milljarða af skuldum. Beinn kostnaður við áformaða nýja skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar nemur einungis um 80 milljörðum (utan séreignasparnaðarins sem heimilin borga sjálf).

Svo segir Seðlabankinn að skuldaleiðréttingin til heimilanna stefni stöðugleikanum í voða. Ofurafskriftir til fyrirtækja eru hins vegar ekki taldar stefna neinum stöðugleika í voða!

Er ekki eitthvað rangt við þetta allt?

 

Síðasti pistill: Útrásin – myndir Sigurþórs Jakobssonar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar