Í maí og júní verð ég gistiprófessor við Parísarháskóla. Nánar tiltekið verð ég í L’Ecole des Hautes Etudes en Sciences Sociales (EHESS).
Þetta er hinn eiginlegi “háskóli félagsvísindanna” í Frakklandi, hluti af topp skólum Frakka (les Grand Écoles), þar sem allir helstu félagsvísindamenn þeirra hafa verið, frá einum tíma til annars (Bourdieu, Touraine, Braudel, Febvre, Levi-Strauss, Boudon, Aron, Piketty – svo örfáir séu nefndir).
Ég verð þar í boði prófessors Philippe Urfalino, sem er stjórnandi í CESPRA (Centre D’ Études Sociologiques et Politiques Raymond Aron) og Rannsóknarráðs Frakklands (CNRS). EHESS er einnig nátengdur SciencesPo, sem er helsta vígi stjórnmálafræðinnar í París.
Ég mun flytja þrjá fyrirlestra í tveimur námskeiðum og að auki einn opinberan fyrirlestur í fyrirlestraröð EHESS. Hér að neðan er auglýsing á opinberum fyrirlesti mínum í EHESS. Ég mun þar fjalla um leið Íslands út úr kreppunni.
Vikuna áður flytur hagfræðingurinn Thomas Piketty opinberan fyrirlestur í sömu fyrirlestraröð um bók sína Capital in the Twenty-First Century, sem hefur slegið í gegn í heiminum undanfarið.
Thomas Piketty er einn þeirra mörgu merku fræðimanna sem tengdir eru EHESS og verður gagnlegt að hitta hann í návígi.
Verk okkar Arnaldar Sölva Kristjánssonar hagfræðings um tekjuskiptingu á Íslandi byggja m.a. á aðferðum sem Piketty hefur þróað í samvinnu við Anthony B. Atkinson (sem er í mínum gamla skóla, Nuffield College við Oxford háskóla) og Emmanuel Saez við Berkley háskólann í Kaliforníu (sjá hér). Við Arnaldur Sölvi verðum væntanlega tilbúnir með bók um efnið í haust.
Þetta verður sannkölluð veisla fyrir félagsvísindamann frá Reykjavík.
Kynning á opinbera fyrirlestrinum mínum:
Fyrri pistlar