Starfshópur félags- og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, hefur skilað af sér athyglisverðum tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála.
Húsnæðismálin eru eitt stærsta viðfangsefnið sem núverandi stjórnvöld standa frammi fyrir og því er mikið í húfi að vel takist til um endanlega útfærslu þessara hugmynda.
Megin markmið nýs kerfis þarf að vera, að venjulegt fólk ráði við að kaupa hóflegt húsnæði fyrir fjölskylduna og að tekjulágir og ungt fjölskyldufólk eigi einnig möguleika á því, sem og að geta gengið að leiguhúsnæði með langtíma öryggi á viðráðanlegri leigu.
Talsvert vantar uppá að staðan sé þannig í dag.
Nýju húsnæðiskerfi þurfa því að fylgja alvöru framfarir á þessu sviði og það er möguleiki innan ramma þessara tillagna – en háð útfærslu.
Rammi þessara hugmynda að nýju kerfi er danska kerfið, með jafnvægi milli fjármögnunar og lánveitinga. Lán þurfa þá að vera uppgreiðanleg til upphaflegs lánveitanda.
Hættan við danska kerfið er sú, að markaðsvextir verði of háir og sveiflist of mikið í íslensku verðbólguumhverfi. Verja þarf heimilin fyrir þeirri óvissu, með mildandi öflugum félagslegum þætti (einkum vaxtabótum). Það er sérstaklega mikilvægt fyrir lágtekjuhópa, ungt fjölskyldufólk og landsbyggðarfólk.
Einnig þarf að aftra því að skuldsetning heimila verði of mikil, eins og er í Danmörku. Stjórnsýsla nýja kerfisins þarf því að vera öflug með miklum möguleikum á inngripum til aðhalds og mildandi aðgerða. Ný Húsnæðisstofnun þarf að hafa alvöru getu til þess.
Í tillögunum er einkum gert ráð fyrir nýju kerfi húsnæðisbóta (bæði fyrir eigendur og leigjendur), stofnframlagi og skattaívilnunu til að sinna félagslega markmiðinu að milda, tryggja og jafna aðstæður heimila.
Mestu mun skipta að félagslegar hliðar nýja kerfisins verði nógu öflugar og virki til að taka högg af markaðssveiflum (verðbólgukreppum og of háum markaðsvöxtum) af heimilunum.
Markaðinum einum er ekki treystandi til að sinna húsnæðismálum svo viðunandi sé. Sterkur félagslegur þáttur og öflug stjórnsýsla þurfa því að hafa stórt hlutverk. Það er einn af mikilvægum lærdómum af reynslunni af því, þegar bankarnir fóru inn á húsnæðismarkaðinn árið 2004 – og raunar af bólunni allri og hruninu. Það voru einkabankarnir sem settu húsnæðismálin á hliðina. Banka þarf að vera hægt að hemja, samfélaginu til góðs.
Afnám verðtryggingar
Þá er mikið nýmæli fólgið í því að í grunninn verði ný húsnæðislán óverðtryggð. Það er athyglisvert, en því fylgir hærri greiðslubyrði á fyrri hluta lánstíma og meiri sveifluáhætta fyrir afkomu heimila. Höfuðstóll mun hins vegar ekki hækka með verðbólguskotum (sem er afar mikilvæg framför), en greiðslubyrði til skemmri tíma mun hækka með verðbólgu.
Vaxtabótaþáttur í nýju kerfi húsnæðisbóta þarf því að vera sérstaklega öflugur til að taka á of hárri greiðslubyrði og miklum sveiflum. Raunar þarf talsvert öflugra vaxtabótakerfi en nú er. Það þarf því að fjármagna kröftuglega frá byrjun, með auknum framlögum.
Með sterkum félagslegum þætti (húsnæðisbótum, skattaívilnunum og stofnframlögum) er hægt að ná þessum mikilvægu markmiðum. Hvort kerfið verður til góðs mun öðru fremur ráðast af því.
Áhrifaaðilar, t.d. ASÍ og stjórnarandstaðan, þurfa því að styðja við bakið á félags- og húsnæðismálaráðherra í báráttu fyrir félagslega þættinum. Með árangri á því sviði verður um mikið framfaraskref að ræða fyrir heimilin.
Fyrri pistlar